þriðjudagur, 20. maí 2008

Skotheld formúla að mistökum


Sumarið komið við Apavatn

Valfrelsi á öllum sviðum er sjálfgefið í augum fólks og við stöndum frammi fyrir valkostum á öllum sviðum. Um þriðjungur starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði skiptir árlega um vinnustað og sífellt færri starfa á sama vinnustað allan sinn starfsaldur. Kröfur vaxa um sérhæfingu starfsfólksins samfara auknum sveigjanleika. Samkeppni fyrirtækja byggist á því að ná til sín besta starfsfólkinu og það er verðmætasta eign hvers fyrirtækis.

Framleiðni á íslenskum vinnumarkaði er lág. Stjórnvöld halda því fram að launþegar og aðgerðir stéttarfélaganna séu ein helsta ástæðan eða menntakerfið sakað um að vera lélegt. Þegar borin eru saman viðhorf hér á landi og í þeim löndum sem við viljum standa jafnfætis, blasir við hver er helsta ástæða lágrar framleiðni, óánægt og illa launað starfsfólk.

Ef starfsfólk er á svo lágum launum, að þau duga vart til hnífs og skeiðar þá hugsar það ekki um annað. Íslenskir starfsmenn hafa vegna slakra kjara flúið í vaxandi mæli úr tilteknum störfum, þá sérstaklega hjá hinu opinbera. Launakerfi opinberra stofnana eru meingölluð, stagbættur bútasaumur með mikilli yfirvinnu og litlum sveigjanleika. Íslensk stjórnvöld eru um áratug á eftir nágrannalöndum okkar hvað varðar stuðning við starfsmenntun í atvinnulífinu og þau leggja fram tillögur um skerðingar á hvíldartímaákvæðum svo halda megi uppi launakjörum með enn meiri yfirvinnu. Helsti efnahagsráðgjafi ríkisstjórna undanfarinna ára og stjórnarmaður í Seðlabankanum fær hingað með aðstoð forsætisráðherra bandaríska efnahagsráðgjafa og þeir halda ráðstefnu um að íslendingar vinni of stuttan vinnudag.

Því er haldið fram að hugurinn sé yndislegt fyrirbæri. Hann hefur starfsemi sína á þeirri stundu sem einstaklingurinn kemur í heiminn og lætur ekki af störfum fyrr en viðkomandi hyggst flytja ræðu opinberlega. Það er fullkomlega útilokað að átta sig á ræðum ráðherra um launakjör opinberra starfsmanna, reyndar gilda önnur viðmið þegar kemur að launakjörum þeirra sjálfra.

Ráðherrar hafa toppað sjálfa sig í yfirstandandi kjarasamningum, þar sem þeir hafa ítrekað lofað tilteknum starfstéttum umtalsverðum launahækkunum og skapað með því miklar væntingar og gert störf samningamanna nánast óyfirstíganleg. Samningar eiga að snúast um lausn vandamála og eiga ekki að enda með ófriði, heldur niðurstöðu sem hlutaðeigandi sætta sig við.

“Ég get ekki gefið ykkur uppskrift að velgengni. En ég get fært ykkur skothelda formúlu að mistökum: reynið bara að gera öllum til geðs”, sagði Winston Churchill. Yfirboð íslenskra ráðherra og stjórnmálamanna eru úrelt og ganga ekki í þjóðfélagi þar sem stöðugleiki og lág verðbólga er markmið. Stærsti stjórnmálaflokkur landsins hafnar því að skapa launamönnum og fyrirtækjum umhverfi þar sem gjaldmiðill er stöðugur og vextir lágir. Hann býr okkur umhverfi hæsta matvöruverðs í heimi. Kaupmáttur hér á landi hefur verið rangt skráður með yfirgengi krónunnar og mikilli skuldsetningu þjóðarinnar.

Sé litið til fyrri framsetningar ráðherra má örugglega ætla að þeir muni koma fram að loknum samningum með yfirlýsingar um að þeir hefðu lofað hærri launum, en nú hefðu stéttarfélögin gert kjarasamninga, og þau hefðu ekki staðið sig í stykkinu. Og starfsmenn ganga óánægðir til starfa, vitandi að þeir gerðu tilraun til þess að fá viðsemjanda sinn til þess að standa við gefin loforð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur og upplýsandi.
Kærar þakkir.
Karl E.