föstudagur, 9. maí 2008

Útvistun verkefna ekki starfsmanna


Síminn færði á sínum tíma allnokkuð af rekstri sínum yfir í nokkur undirfyrirtæki, þar á meðal Mílu. Það fyrirtæki hefur séð um þjónustu tenginga fyrir notendur símakerfisins. Undanfarið Míla verið að smá saman verið að fækka starfsstöðvum sínum út á landi, Ísafirði, Blönduós, Akureyri, Húsavík, Egilsstaðir, Höfn og Selfoss. Við verkefnum hafa tekið rafverktakafyrirtæki. Í sjálfu sér ekkert óeðlilegt og ætti að geta gengið fínt.

En það er nú svo þegar um er að ræða starfsmenn, sem hafa árum saman jafnvel áratugum, er rétt uppsagnarbréf þá bregður þeim við og fyllast óöryggi. Þeir sem hafa haft eitthvað með svona mál að gera þekkja þessi viðbrögð ákaflega vel. Einhverra hluta vegna virðist það vera svo í nokkrum tilfellum að þessi þekking sé ekki til staðar hjá starfsmannastjórum. Ekki síst þeim sem hafa staldrað stutt við á vinnumarkaði sem launamenn og einhvörðungu ástundað stjórnunarstörf að loknu háskólanámi.

Það er allavega ekki rétt aðferð að rétta fólki uppsagnarbréf fyrirvaralaust og án útskýringa. Stundum skilaboðum um að viðkomandi eigi að hefja störf hjá tilteknu fyrirtæki. Oft er það svo að fyrirtækin átta sig ekki á að það eru tiltekin verkefni sem verið er að selja út úr fyrra fyrirtæki til annarra fyrirtækja, það er ekki verið að selja starfsfólk. Mansal hefur verið bannað hér á landi um allangt skeið.

Þetta minnir mann soldið á þegar stjórnmálamenn ræða um að selja Rás 2. Hvað er Rás 2? Það er ekki bara einhverjir takkar og segulbandstæki.

Rafiðnaðarfyrirtæki eru fyrst og síðast starfsfólk og þekking þess. Fólk með tilfinningar, skoðanir og vill hafa ákvörðunarvald sjálft með það hvar það vinnur. Fólk sem fyllist óöryggi þegar það eftir áratugastarf er réttur einhver miði sem á stendur; Þér er hér með sagt upp störfum. Takk fyrir gott samstarf. Hafðu það gott í framtíðinni. Stundum mæta svo forsvarsmenn fyrirtækjanna í fjölmiðla og gera lítið úr fólkinu í beinni útsendingu eins og forstjóri HB Granda gerði svo eftirminnilega nýverið.

Í vinnurétti er ákvæði um að ráðningarsamningur sé persónubundinn. Atvinnurekandi getur ekki framselt ráðningarsamning til annars atvinnurekanda gegn vilja starfsmannsins. Starfsmaðurinn verður að vera því samþykkur. Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti eru sett til að verja réttarstöðu starfsmanna þegar þeir hefja störf hjá nýjum eigendum. Þau eru ekki sett til að tryggja rétt atvinnurekenda til að yfirtaka starfsfólk gegn vilja þess. Starfsmaður þarf að samþykkja að hefja störf hjá nýjum atvinnurekanda. Samþykki starfsmaðurinn ekki að flytja sig til nýs aðila, á hann rétt á því að fá uppsagnarfrest sinn greiddan frá þeim atvinnurekanda sem hann réð sig til.

Vilji starfsmaður ekki hefja störf hjá nýjum atvinnurekanda nær skylda hans til þess að vinna áfram hjá gamla atvinnurekandanum út uppsagnarfrestinn. Hafi sá atvinnurekandi engin störf fyrir starfsmanninn, ber hann samt sem áður ábyrgð á því að starfsmaðurinn fái laun á uppsagnarfresti.

Starfsmaður á alltaf rétt á launum frá gamla atvinnurekandanum út uppsagnarfrestinn. Hann býður fram vinnuframlag sitt hjá aðila sem getur ekki nýtt sér það. Það er ekki mál starsmannsins.

Eins og margoft hefur komið fram hafa launamenn viljað setja ákveðnar leikreglur umþessi mál. En ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa ætíð vikið sér undan því. Það þarf að tryggja að mannleg samskipti séu með eðlilegum hætti. Eins og ég hef sagt þetta getur allt verið eðlilegt, en það er bara ekki alveg sama hvernig staðið er að því.

Engin ummæli: