Ég las einu sinni verk að ég held örugglega eftir hinn góða rithöfund Friedrich Dürrenmatt sem hljóðaði einhvern veginn svona í lauslegri endursögn minni.
Einu sinni var þjóð sem óð skít daglega upp undir axlir. Þjóðarleiðtogar héldu langar ræður og fallegar ræður um glampandi þjóðarauðinn sem væri grafinn undir skítnum og íbúar landsins sættu sig við að vaða skítinn vitandi um hvað væri undir honum. Á kaffistofum og ölkrám landsins snérist umræða um hversu mikill auðurinn væri og þá sæludaga sem þjóðin ætti fyrir höndum þegar búið væri að grafa upp þjóðarauðinn.
Nú tók sig til einn af valdamönnum þjóðarinnar sem leiddist þessi draumóraumræða og gekk fram í að ráða Herkúles til þess að moka í burtu öllum skítnum svo þjóðin gæti notið auðsins. Það ætlaði allt um koll að keyra og ofsafengnar umræður hófust um hver auðurinn væri nú í raun. Síðan snérist umræðan yfir í hvernig þjóðin myndi bregðast við ef reyndin yrði sú að engin auður væru undir skítnum. Þá myndi þjóðin brotna saman og allsherjar eymd og lágkúra myndi herja um ókomna framtíð.
Þessu máli lauk með þeim hætti að sett var ofaní valdamanninn duglega og honum gert að hætta við ráðningu Herkúlesar. Og þjóðin hélt áfram að vaða skít upp undir axlir og umræðurnar góðu hófust aftur á ölstofunum og kaffihúsunum um hin mikla þjóðarauð sem þjóðin ætti grafinn undir öllum skítnum og hversu unaðsfullir dagar þjóðinni væru búnir þegar hann yrði grafinn upp.
Mér datt þetta svona í hug þegar ég var að hlusta á Össur í góðri ræðu lýsa sínu virkilega góða frumvarpi um að tryggja eign þjóðarinnar á gufuorkunni og vatnsaflinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli