miðvikudagur, 7. maí 2008

Nútíma starfsmannastefna


Eitt af því sem aukinn frjálshyggja hefur leitt af sér er miskunarlaus starfsmannastefna. Við höfum séð þetta í vaxandi mæli hér á landi á undanförnum misserunum. Í Vikunni tók HB Grandi þá ákvörðun að reka fyrirvaralaust alla starfsmenn Síldarbræðslu Granda á Akranesi. Stafsmönnum var réttur miði þar sem stendur; Þér er hér með sagt upp störfum. Þér mun verða greiddur löglegur uppsagnarfrestur. Óskum þér hins besta í framtíðinni. Aðrar útskýringar fengust ekki.

Eggert Guðmundsson forstjóri mætir svo í viðtal við fjölmiðla og segir að nýir starfsmenn muni taka við og ekki sé óskað að eldri starfsmenn vinni uppsagnarfrestinn. Fyrirtæki viðhafa einungis svona vinnubrögð ef starfsmenn hafa unnið sér eitthvað alvarlegt til saka. Hvað er forstjórinn að gefa í skyn?

Um er að ræða starfsmenn með að baki yfir 2ja áratuga farsæl störf hjá fyrirtækinu. Fyrirvaralaust án nokkurra skýringa eru þeir sendir heim og nýir ráðnir. Þeir eru búnir að verja öllum sínum bestu starfsárum hjá fyrirtækinu. Þessir starfsmenn hafa staðið með fyrirtækinu í niðursveiflum, en eru nú komnir á seinni hluta starfsferils síns.

Forstjóranum finnst við hæfi í tilefni þessa að senda þeim tóninn í gegnum fjölmiðla og segja að hér sé um úrelta hluti, sem hann hafi ákveðið að henda. Honum dugar ekki að niðurlægja trygga starfsmenn sína til margra ára með fyrirvaralausri uppsögn án nokkurra skýringa. Hann mætir einnig í fjölmiðla og stráir salti í sárin og rýrir möguleika þeirra að komast í önnur störf. Þeir eru ekki nothæfir er forstjórinn að segja. Vinnubrögð fyrirtækisins og forstjórans er ódrengilegur rógburður.

Fyrirtæki bera samfélagslega ábyrgð. HB Grandi er stórt fyrirtæki og því ber skylda til þess að sjá til þess að menn sem hafa verið þátttakendur í uppbyggingu þess og tekið þátt í súru og sætu, geti lokið starfsferli sínum með reisn. Fyrirtækið getur ekki varpað þeirri ábyrgð á samfélagið. Það er nægilegt svigrúm innan veggja fyrirtækisins og þessir starfsmenn hafa byggt upp þá stöðu.

Í nýgerðum kjarasamningum er gert ráð fyrir að fyrirtækin verði að gera starfsmönnum sínum grein fyrir ástæðu uppsagna, og HB Granda ber að fara eftir því. Ef rekstur bræðslunnar á Akranesi gengur ekki vel, þá er næsta víst að ástæðnanna sé frekar að leita meðal stjórnenda fyrirtækisins en starfsmanna á gólfi. Sum fyrirtæki segjast fylgja svokallaðri mannauðsstefnu, en nokkur dæmi eru til um að íslenskir fyrirtækja rekendur snúa þeirri stefnu á haus.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HB Grandi fer með fiskveiðheimildir sem þjóðin á. Það eru svona vinnubrögð sem koma óorði á heila stétt. Ef að forstjórinn lítur svo á að fyrirtækið hafi engar samfélagslegar skyldur og geti látið hörðustu gróðasjónarmið stjórna gerðum sínum og ákvörðunum er kannski tímabært að bæta inn ákvæðum um samfélagslegar skyldur þegar fiskveiðiheimildum er úthlutað.

Nafnlaus sagði...

HB Grandi hefur þá samfélagslegu skyldu gagnvart öllum Íslendingum að hámarka afrakstur og arðsemi af þeim fiskveiðikvóta sem hann hefur fengið til ráðstöfunar. Ef að leið að því markmiði er að segja upp starfsmönnum á Akranesi þá ber honum að gera það.
IG

Guðmundur sagði...

IG Það er semsagt hámrökun arðsins sem taka ber umfram starfsmanninn. Samfélagsskyldan byggist á því að kasta starfsmönnum á bótakerfið ef það verður til þess að auka arð fjármagnseigendanna.
Jesús minn hvert ertu kominn kæri IG

Nafnlaus sagði...

Forstjórinn er greinilega ennþá að leika sér í „Playmo“. Þegar gömlu Playmokarlarnir eru farnir að láta á sjá, þá eru keyptir nýir. Eða kannski er hann í Actionmanleik.

Nafnlaus sagði...

Fyrirgefðu IG en bara svo það sé á hreinu þá er það engin samfélagsleg skylda Granda að að hámarka afrakstur og arðsemi af kvótanum sínum, sú skylda er gagnvart hluthöfum félagsins. Fari Grandi á hausinn er kvótinn ekkert horfinn, hann fer þá bara í hendur annarra aðila sem þá gæta hagsmuna sinna hluthafa með honum. En að rekstur Granda komi þjóðinni eitthvað við er bara argasta kjaftæði. Þjóðinni kemur það hins vegar við ef kjarasamningar eru brotnir og starfsfólki sagt upp á skjön við reglur og lög eins og Guðmundur er að tala um.

Merkilegt hvernig það er að verða staðreynd að tvöfalt siðgæði þrífist á Íslandi. Fyrst þetta almenna sem byggir á almennri kurteisi og lágmarks virðingu fyrir mönnum og málleysingjum og svo einhvers konar síkópata-siðgæði þeirra sem stunda viðskipti á einn eða annan hátt. Þar ræður ísköld peningahyggja ofar öllu; almennri kurteisi og mannvirðingu.

En alla vega ekki bera það á borð fyrir fólk að það sé einhver hagur okkar Jóa á bolnum að Grandi reki starfsmenn sína í skjóli þess að þeir séu að hámarka virði sameignarinnar í sjónum.

Grandi er síðast þegar fréttist á mörkum þess að hafa of mikið af kvóta á sínum snærum þannig að ef fyrirtækið getur ekki rekið sig í topppi mögulegs kvóta er það nú frekar spurning um kontóristana en nokkurn tíma bræðslukarlana á Skaganum.

En það er bara eins og uppsagnarbréf verði aldrei eftir á skrifstofunum hvar þau eru prentuð út, heldur virðast þau öll alltaf detta niður á gólf til þeirra sem taka við skipunum en semja þær ekki.

Nafnlaus sagði...

ætti það þá ekki að ganga í báðar áttir, þ.e þyrfti launþegi þá ekki að gefa upp góða ástæðu til þess að segja upp sínu starfi? fyrirtækið hefur jú tekið þátt í uppbyggingu heimilis starfsmannsins.
kv.
Sigurjón

ps. hvernig veistu að árin hafi verið farsæl?