föstudagur, 2. maí 2008

Um lífið í hinu fullvalda ríki Danmörku

Hjálagt er eitt bréf frá lesanda síðunnar með samanburð á lífinu innan og utan ESB, en reyndar í báðum tilfellum í fullvalda ríkjum.


Sæll Guðmundur og til hamingju með daginn í gær.

Ég les blogg þitt reglulega og hef gaman af, hvort sem þú ert að ræða ísl. stjórnmál, atvinnumál eða Evrópu og EU.

Mér fannst áhugavert að lesa pistil þinn um dani og Danmörku á miðvikudaginn, ekki síst vegna þess að við hjónin erum sammála hverju orði sem þú skrifar þar. Við fluttum hingað út fyrir 23 árum þegar ég fór framhaldsnám, fórum heim með hálfum huga eftir að námi lauk, en höfum verið hér mikið á ferðinni eftir það, vegna vinnu og/eða í fríi og síðar einnig í heimsóknum hjá syni okkar og fjölskyldu, en hann var hér í námi

”Danmerkur þráin” var alltaf til staðar og svo þegar danskir samstarfsaðilar frá fyrri tíð buðu mér síðastliðið haust, nærri því fimmtugum, að koma og starfa með þeim hér á Kaupmannahafnarsvæðinu ákváðum við að slá til. Við vorum í góðum störfum á Íslandi, og því ekki að flýja eitt né neitt, konan er hjúkrunarfræðingur og fékk vinnu eins og skot, erum með 18 ára dóttur sem líður afar vel í dönskum menntaskóla, og nú lifum við hér eins og blóm í eggi. Ég fullyrði reyndar að við séum ekki eina dæmið um íslendinga, sem hafa verið hér í námi, og hafi alltaf þessa nagandi lögun til að flytja út aftur en því miður hafa fæstir tækifæri og/eða kjark til að láta af því verða.

Það sem heillar er nákvæmlega það sem þú lýsir í pistli þínum þ.e. t.d. lífssýn dana, hvernig þeir forgangsraða í sínu lífi, auk svo margra annara þátta allt frá verði á matvöru til veðurlags. Hér eru fullt af vandamálum og lífið langt frá því að vera fullkomið, en fyrir fjölskyldu sem sér framtíð sinni EKKI best borgið með Range Rover og 100m2 af húsnæði per heimilismann, þá er þetta gott, þægilegt og nokkuð öruggt líf. Sveiflurnar í samfélaginu eru minni, ákvarðanir stjórnvalda sem og í atvinnulífi og á vinnumarkaði eru betur ígrundaðar, að manni finnst, og hér er allt samfélagið ekki háð duttlungum ákveðinna einstaklinga eða lítilla hópa árum og áratugum saman (einn stærsti kosturinn við að ganga í EU er reyndar að losna við slíkt ástand).

Þrátt fyrir að hafa verið samningsbundir öðrum evrópuþjóðum í meira en 30 ár, þá er þjóðerniskennd dana ekkert minni fyrir vikið ”Dannebrog” er stillt upp á borðum í veislum og samkvæmum, menn þekkja og viðhalda sinni sögu og hefðum. Það er í raun fátt betra en að sitja með dönskum vinum og vinnufélögum á vor og sumarkvöldum spjalla og njóta lífsins yfir góðum mat og drykk.

Menn virðast aftur á móti vera lausir við það sem mér finnst stundum jaðra við einhvers konar þjóðernisfasisma á Íslandi, sbr. umræðu um Ísland sem einhverskonar óspjallaða meyju sem ekki megi falla í hendur kontóristanna í EU. Að maður tali ekki um umræðuna um ísl. matvæli, en þegar ég les og heyri það sem menn láta útúr sér um það efni þá fæ ég á tilfinninguna að hér ytra séu menn að borða eitur alla daga.

Ég þykist viss um að þú kannist við þetta allt og vitir um hvað málið snýst, en mig langaði rétt aðeins, í kjölfar góðra pistla þinna, að draga í stuttu bréfi fram upplifun okkar á nútíma norrænu samfélagi og kostina fyrir ”næstum því miðaldra hjón” að búa hér og starfa.

Með kveðju.
J

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sendi góðar kveðjur mínar til J í Danmörku - - - - Skil sjónarmiðið og velti því fyrir mér aftur og aftur af hverju okkur hefur ekki lánast að flytja neitt af Dönskum eða V-Evrópskum viðhorfum inn til Íslnds síðustu árin????

Nafnlaus sagði...

Bensi á Akureyri las færsluna og biður að heilsa J í Kaupmannahöfn