miðvikudagur, 28. maí 2008

Eldhúsdagur

Skelfing eru eldhúsdagsumræður bitlitlar. Þar mæta þingmenn og fara með rulluna sína, skreyta hana með tilvitnunum í ljóð um sumarið og hvernig sólin skín á litlu sætu lömbin sem hoppa og skoppa um úthagann.

Eins og ég hef nokkrum sinnum komið að í pistlum hér þá finnst mér einkennilegt hversu ófeimnir sumir ráðherrar eru við að eigna sér gerðir annarra. Í ræðu forsætisráðherra kom fram að hann hefði ásamt ríkisstjórninni komið að mörgum verkefnum og svo taldi hann þau upp. Allmörg þeirra voru atriði sem ASÍ þvingaði fram í kjarasamningum í vetur.

Forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin hefði í kjarasamningum í vetur haft forgöngu um að semja við stéttarfélög ASÍ um að hækka laun hinna lægst launuðu sérstaklega. Það vill svo til að ég var í innsta hring við gerð þessa samninga og ég minnist þess ekki að ríkistjórnin hafði komið nálægt ákvarðanatöku. Gagnstætt því var mikið kartað undan því hversu erfiðlega gekk að fá svör frá ríkisstjórninni, eins og ítrekað kom fram í fréttum. Það var Vilhjálmur Egilsson sem lagði fram í haust hugmyndir um vinnuplan. Forysta stéttarfélaga innan ASÍ fór yfir þá áætlun á kjararáðstefnum og lagði svo skömmu fyrir jól fram sínar hugmyndir um útfærslu á hugmyndum SA.

Niðurstaðan varð sú að hækka lágmarkstaxta um 18 – 21 þús. kr. Það þýddi að tiltekinn hópur fékk þá launahækkun. Aðrir sem voru á hærri launum en sem nam lágmarkstöxtum fengu tryggingu um a.m.k. 5,5% launahækkun á tímabilinu frá janúar 2007 til upphafsamnings í febrúar 2008. Þetta þýddi um 4% jafnarlaunakostnaðarauka hjá fyrirtækjum á almennum markaði. Þetta þýddi einnig að margir fengu litla hækkun á meðan aðrir fengu allt að 21 þús. kr. hækkun.

Hér hafði ASÍ enn einu sinni frumkvæði um að semja með það að markmiði að verja þann kaupmátt sem náðst hefði með því að gera skapa 3ja ára frið á vinnumarkaði og hafa með því áhrif til lækkunar á verðbólgu. Hér kom glögglega fram enn einu sinni hinn mikli félagslegi styrkur innan ASÍ. Ríkisstjórnin var á meðan þetta var gert á ferðalögum erlendis eins kom fram í fréttum.

Forsætisráðherra upplýsti okkur enn einu sinni hversu lítinn skilning hann hefur á kjarasamningum, þegar hann fór svo að bera samninga BSRB saman við ASÍ samninginn. Eins kom fram í fréttum um helgina fá allir þar 20.300 kr. launahækkun sama hvar í launastiganum þeir standa. Svo sem mjög skiljanleg niðurstaða hjá opinberum starfsmönnum, sé litið til núverandi ástands sem ríkisstjórnin hefur skapað með aðgerðaleysi sínu í vetur.

Ef ASÍ leiðin hefði verið farinn þá hefðu umönnunarstéttir fengið meira en 20.300 kr. en þeir sem væru með hærri tekjur en sem nema lágsmarkstöxtum fengið minna. BHM segir svo í fréttum Moggans í dag að þetta nemi 9 – 10% launakostnaðarauka og vill fara sömu leið og kjararáð þingmanna hefur ætíð farið, að láta prósentutöluhækkun lægstu launa vera ákvörðunaraðila um launahækkunina. Í því kjaraumhverfi sem þingmenn og ráðherrar hafa búið sér taka ákvarðanirnar sig sjálfar án utanaðkomandi áhrifa.

Og svo fór forsætisráðherra hrósa sér af því að ríkisstjórnin hefði lækkað skatta á hinum lægst launuðu. Flestir að muna þá uppákomu sem varð um áramótin þegar ríkisstjórnin setti viðræður kjarasamninga ASÍ í uppnám með skattaútspili sínu. Fram hafði komið að ASÍ félögin vildu tryggja að sérstök lágmarkslaunahækkun staldraði við í vösum hinna lægst launuðu með því að beina 20 milljarða skattalækkun til fólks sem hefðu lægstu tekjur.

Tillögur ASÍ gengu út á að hækka skattleysismörk sérstaklega á lægstu launum en láta það renna út við 300 þús. kr. Þessu hafnaði ríkisstjórnin með eftirminnilegum hætti og ákvað að hækka skattleysismörk mun minna og láta það renna upp allan tekjustigann. Með því náði hún fyrr sköttum af lægstu launum og með þeim augljósu afleiðingum að drjúgur hluti af lágmarkslaunahækkanna rann beint í ríkissjóð.

Engin ummæli: