laugardagur, 3. maí 2008

Meðaltalshamingja

37% prósent flokkurinn heldur sínu en Samfylkingin fellur. Er það nokkuð einkennilegt? 37% flokkurinn hefur lækkað skattana á sínu fólki á meðan 63% hópurinn hafa orðið fyrir 7% skattahækkunum, eins og fyrrv. skattstjóri hefur reiknað út. Samfylkingin ræddi um að taka á þessu máli í kosningabaráttunni, en það þurfti verkalýðshreyfinguna til í þess að ná fram smávægilegri lagfæringu á barna- og vaxtabótum í vetur við gerð kjarasamninga.

Þessa dagana erum við að upplifa stórkostlega eignatilfærslu frá 63% hópnum yfir 37% hópsins. Mörg þeirra sem eru í 63% hópnum voru búinn að byggja upp smá eignamyndun í íbúðum, sem nú er gerð upptæk og rennur til eignafólksins, sem er í 37% hópnum.

Þetta er eins og margoft hefur komið fram árangur skipulagðrar efnahagstefnu 37% flokksins, þar sem búið er að víkja af hinni norrænu leið yfir til hinnar repúblikönsku, vel þekkt leið til aukinnar misskiptingar. 37% hafa það betra en 63% hafa það lakara eins fyrrv. skattstjóri hefur bent á, ásamt fjölmörgum hagfræðingum og háskólaprófessorum og erlendum efnahagsstofnunum.

En forsvarsmenn 37% hópsins leggja fram eins og ætíð áður meðaltöl, reyndar sum nokkurra ára gömul og koma einnig í veg fyrir nauðsynlega gagnaöflun svo birta megi rétta Ginitölur. Í þessu sambandi má vitna til landsfrægra ummæla Ásmundar Stefánssonar þegar hann var forseti ASÍ og barðist fyrir Þjóðarsátt. Hann notaði oft þá tilvitnum máli sínu til stuðnings, að maður sem stæði með annan fótinn í sjóðandi vatni og hinn í jökulvatni, hefði það barasta að meðaltali prýðilegt. Með því er efnahafsstefnu 37% flokksins prýðilega lýst.

Eins og ætíð áður sýnir 63% hópurinn óánægju sína með því að færa sig á milli hinna 3ja flokka sín megin og í raun gerist ekkert. Íslenskur almenningur virðist ekki kunna aðrar leiðir til þess að láta óánægju sína í ljós. 37% flokkurinn hefur öll völd í hendi sér og velur sér einhvern hentugan samstarfsflokk úr 63% hópnum hverju sinni og ráðherrar þess flokks koma sér vel fyrir í stólunum og pantar far til Kína og Afríku og fá aðild að hinum margrómaða eftirlaunasjóði. 37% flokkurinn sér um sína.

Staðan birtist svo vel í hvernig málgagn 37% flokksins fjallar um innanlandsmál. Hvað er birt og hverju er stungið í skúffuna. Valdahópurinn má ekki til þess hugsa að gengið verði til frekara samstarfs við Evrópulönd, þá glatast hugsanlega þau völd sem þeir sitja að. Í þessu sambandi má benda á hvaða 1. maí ræður málgagnið valdi til umfjöllunar. Þar var ekki verið að fara þann veg sem meirihluti 63% þjóðarinnar styður eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum.

Það segir okkur svo margt, að það séu hagsmunir fyrirtækjanna sem hafa orðið til þess að koma Evrópuumræðunni upp á þann stall sem hún er í dag, ekki hagsmunir almennings. Ekki voru það þeir sem höfðu orð á því í atkvæðaveiðum sínum. Sama gildir um afnám eftirlaunasjóðsins, hann hefur aldrei verið bólgnari. Svo maður tali nú ekki um hækkun barnabóta, hækkun vaxtabóta, hækkun húsaleigubóta og hækkun persónusláttar, þar voru það launamenn á almennum markaði sem slógu af launakröfum sínum til þess að ná þessu fram. Þar náði reyndar 37% hópurinn því fram að beina stærri hluti síns fólks. Launamenn vildu eins og kunnugt er beina því til fólks með heimilistekjur undir 300 þús. kr. á mán.

Svona er Ísland í dag og hefur reyndar verið alllengi, og lítur út fyrir að það eina sem gerist sé að loforðalistum verði breytt í 2 vikur fyrir kjördag, en fari svo í glatkistuna stóru kl. 22.00 á kjördag og þá setjast þingmenn 63% hópsins á uppboðsbekkinn og bíða hverjum þeirra verði nú boðið upp í dans næsta kjörtímabil.

Og við höfum það svo gott (að meðaltali), þó svo kaupmáttur lækki hjá 63% hópnum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Evrópusambandið núna!

Nafnlaus sagði...

Hvernig væri að 63% styngju af til útlanda og skyldu 37% eftir.
Ætli færi ekki um þá þegar enginn væri eftir til að mergsjúga og blóðmjólka.

Nafnlaus sagði...

ESB er ekki að berjast fyrir 63% hópinn. ESB er fyrir 1% hópinn sem Björgólfur og Jón Ásgeir tilheyra. Verði ykkur að góu.