föstudagur, 2. maí 2008

Um leigumarkaðinn í Svíþjóð

Mér hafa borist allnokkur bréf lesendum síðunnar á undanförnum vikum. Hluti þeirra er frá íslendingum búsettum á norðurlöndum, sem vilja lýsa sinni reynslu og skoðun á því sem er gerast hér heima. Hér eru tvö bréf sem ég fékk með stuttu millibili frá nafna mínum búsettum í Kalmar.



Ég undirritaður er búsettur i Svíþjóð ásamt fjölskyldu minni, og fylgist med þjóðmálunum á Íslandi héðan. Núverandi ástand í Íslenskum efnahagsmálum eru nánast ”kópía ” af því sem gerðist hér í Svíþjóð upp úr 1990. Í kjölfar þess fylgdi margra ára lægð í viðskiptalífinu, ein af afleiðingunum var að byggingariðnaðurinn lá í hálfgerðu daudadái í um það bil áratug.

Er sama ástand í uppsiglingu á Íslandi? Getur lækningin orðið hættulegri en sjálfur sjúkdómurinn? Flestir eru sammála um að fasteignamarkaðurinn var kominn út úr kortinu, sökum lánaþenslu og lóðarskorts.

Ég vil í þessu samhengi benda á eftirfarandi möguleika : Það hefur lengi verið vöntun á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir stuttu síðan var ástandið borið saman við stríðsárin, fólk er að leigja út bílskúra, reiðhjólageymslur og kompur á uppsprengdu verði. Stefnan hefur alltaf verið að fólk eigi húsnæðið. Í dag er varla fýsilegur kostur að kaupa ef von er á X% verdlækkun, fyrir þá sem eru að koma inn á markaðinn. Væri ekki upplagt að nota niðursveiflutímabilið til að byggja leiguíbúðir, og halda þar með byggingariðnaðinum í hægagangi?

Ef sveitarfélög útvega lóðir á hóflegu verði, er líka hægt að hafa leiguna hóflega. Þetta gætu verið staðlaðar íbúðir í stæðum frá 1 - 5 herbergi. Kostnaðarlega séð væri sennilega hægt að byggja þúsund íbúðir fyrir svipað verð og eitt stk tónleikahöll, sem þykir ekkert tiltökumál á Íslandi í dag. Tæknin, mannskapurinn og tækin eru til staðar.

Í Kalmar bú ca 50000 manns. Hérna á og rekur bæjarfélagið 5000 leiguíbúðir, litið er á þetta eins og hverja aðra þjónustu og á ekkert skylt við hugtakip ”bæjarblokk”. Hér býr þverskurðurinn af samfélaginu . Dæmi um verð a 100 fm 4herb íbúð er 6500 Skr med hita og bílageymslu. Af hverju ætti þetta ekki að vera hægt á Íslandi? Lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög gætu komið að málinu. Þetta væri vel réttlætanlegt þó ekki væri byggt meira en svo að bílskúrarnir og verkstæðisplássinr tæmdust. Markmiðið væri til að byrja með að útrýma áðurnefndu braggaástandi.

Bestu kvedjur,
Gudmundur Gudmundsson,
Kalmar - Sviþjóð



Ég hef undanfarið verið að lesa blogg hjá þér og öðrum til ad taka púlsinn á þjóðfélagsumræðunni. Ég les þetta með gleraugum þess sem býr erlendis og fylgist með umræðunni héðan. Mér finnst umræðan um fasteignamarkaðinn vera í einskonar ”gullfiskabúri” og vil því koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.

Allir virðast vera sammála um að fasteignaverð hafi verið komið út í bláinn, og von á hruni. Það er því hjákátlegt að sjá fasteignasala biðja guð um að hjálpa sér ef sú katastroffa gengi nú yfir að verðin tækju að hjaðna. Það er líka verið að ræða hvað sé hægt að gera til að halda verðinu uppi, má hækka lán íbúðalánasjóðs, osfrv. Er það rétta leiðin? Ef streitast er við að halda uppi háu fasteignaverði,myndu þessir peningar ekki enda sem einhvers konar félagsstyrkur inn í bankakerfið? Mun það létta byrðar þeirra sem eru að fara inn á markaðinn?

Ef grannt er skoðað er sjálft fasteignaverðið dauð tala fyrir þá sem eru inn í kerfinu, það skiptir ekki öllu máli hvað talan heitir á kofanum svo lengi sem fólk ræður við að borga af lánunum. Verðið er líka dauð tala fyrir þá sem eru að minnka/stækka við sig, fólk kaupir/selur dýrt/ódýrt. Eftir standa þeir sem eru að fara út af markaðinum, og stinga peningunum í vasann, þeir missa spón úr aski sínum, og svo kannski mikilvægasti hópurinn sem eru þeir sem keyptu nýlega eða eru að fara inn á markaðinn. Er lækkun skaðleg fyrir þennan hóp ? Það eru sennilega engir góðir kostir i stöðunni, aðeins mismunandi slæmir.

En ef þeir sem keyptu þegar verðið var sem hæst halda áfram að búa í eignunum, þá verða þeir kannski að lifa við að eignin lækki, og að fólk sé í raun og veru að ”leigja” eignirnar af lánardrottnunum. Einhvern veginn sýnist manni að sama hvað sé gert, muni byggingariðnaðurinn stöðvast, manni heyrist á fólki að of mikið hafi verið byggt.

Þetta leiðir hugann að öðru. Í allri þessari uppsveiflu hefur sama og ekkert verið byggt af leiguíbúðum. Það hefur verid byggt dýrt og selt dýrara. Þegar maður skoðar þessar íbúðir slær það mann hvað þær eru oft vanhugsaðar. Í stórum 5 herb. íbúðum vantar næstum alltaf jafn sjálfsagðann hlut eins og gestasnyrtingu, en hinsvegar er flennistór geymsla undir hjólaskautana, trampólinið og restina af raðgreiðsludraslinu. Oft er ekki hægt ad leggja bíl í bílageymslu, flöt tök sem leka osfrv. Það skín í gegn að þetta er byggt til að selja og lítið spáð í notagildið. Þetta hefur lika hækkað afskræmdan leigumarkað upp úr öllu valdi.

Það vantar íbúðir sem eru byggðar ódýrt og leigðar út ódýrt. Það er kominn tími til að koma á jarðtengingu á fasteignamarkaðinum. Frumkvæðið þarf að koma frá verkalýðsforystunni, fötlun núverandi ríkisstjórnar er stór hluti vandans. Nota þarf sömu reiknivél til að reikna út leiguna eins og þegar ríkið semur um taxta í ummönnun og öðrum grunnstörfum þjóðfélagsins. Leigan myndi síðan fylgja launavísitölunni. Vel má hugsa sér að fólk í grunnstörfum fengi forgang ad þessum íbúðum og þær fylgdu störfunum eftir föngum. Þetta er jú oft sama fólkið sem er i húsnæðishraki. Jóhanna Sig. talaði um 3000 leiguíbúðir, sem er góð byrjun. Það er vel hægt að byggja vandaðar íbúðir á góðu verði. Með því að staðla bad/eldhúsinnréttingar, osfrv er hægt að ná stærðarhagkvæmni í innkaupum. Þetta á vel að geta haldið byggingariðnaðinum í gangi. Ef farið er inn á - skanska.se -, og svo - moderna hus -, má sjá hvernig fjölbýlishús eru fjöldaframleidd, húsin eru frá 3-8 hæðir, og taka ca 6 mánuði í byggingu.

Á árunum 1965- 1975 voru byggðar 1000000 (milljón) íbúðir með þessum hætti hér í Svíþjóð. Þetta var kallað ”miljonprogrammet”, og er fróðlegt fyrirbæri að stúdera bæði tæknilega og félagslega. Þegar litið er tilbaka má e.t.v. segja að þessar íbúðir hafi virkað eins og þéttirinn í rafmagnsrásinni. Íslenskt ástand myndast ekki á fasteignamarkaði hérna þar sem þessi valkostur er fyrir hendi. Á Íslandi vantar einnig þetta fyrir fólk sem vill dvelja tímabundið á landinu. Margt eldra fólk myndi líka taka þessum valkosti fegins hendi í stað þess að vera féflett löglega í svokölluðum öldrunaríbúðum. Hóparnir eru fleiri úr ýmsum stigum þjóðfélagsins.

Vona að eitthvað af þessum sjónarmiðum komist inn í umræðuna,

Baráttukveðjur í tilefni dagsins,

Guðmundur Guðmundsson
Kalmar Svíþjóð

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Búsetafélögin sem starfa sem húsnæðissamvinnufélög eru dæmi um form sem er til staðar en hefur verið "skammtað" alltof lítið rými bæði í lóðum og lánsfé síðustu áratugina. Nú er ótvírætt lag til að blása lífi í starfsemi þeirra - en til þess þarf ríkisstjórnin kjark og ákveðni. Jóhanna á þar leik - og það er beðið eftir henni. 'ibúðalánasjóður og bankarnir þurfa líka að starfa saman - - og það þarf að taka fram fyrir hendur Seðlabanka-draugsins sem öllu heldur í gíslingu og hyggst stúta byggingargeiranum.
Kveðja
Bensi www.bensi.is