miðvikudagur, 14. maí 2008

Íslenskir stjórnmálamenn

Hef fengið allnokkra pósta vegna greina minna um snilld þeirra sem stýra efnahagsmálum hinnar íslensku þjóðar og afleiðingar aðgerðaleysis þeirra. Þeir réttlæta það með því að þeir séu að minnka útgjöld ríkissjóðs. Skiptir þá engu máli þó slatti af fyrirtækjum fari á hausinn og nokkur hundruð launamanna missi vinnuna.

Er þessa dagana á ráðstefnu um frjálsa för launamanna um ESB löndin og félagsleg niðurboð. Veit ekki fyrir víst, en ef ráðherrar undanfarinna ára hefðu setið undir sambærilegum fyrirlestrum og við gerum hér, er reyndar einn fyrirlesara, þá væri kannski von að þeir þekktu þau vandamál sem fjallað er um.

Finnst einhvern veginn að íslenskir þingmenn þyrftu að kynna sér þennan málaflokk. Þá væri innlegg þeirra í umræðuna um vinnumarkað og efnahagsstjórn örlítið betur í samræmi við það sem er að gerast í Evrópu. En umræða íslenskra stjórnvalda snýst um meðaltöl. Skoðum betur meðaltal þeirra sem standa með fæturna í sjóðandi vatni og hinn í ísfötunni

Árin 2003 – 2004 fékk 81% launamanna kaupmáttaraukningu, en 19% kaupmáttarskerðingu
Árin 2005 – 2006 fékk 60% launamanna kaupmáttaraukningu, en 40% kaupmáttarskerðingu
Árin 2006 – 2007 fékk 55% launamanna kaupmáttaraukningu, en 45% kaupmáttarskerðingu.

Á þessum tíma óx kaupmáttur um 3 – 4% á ári. Það þýðir í raun að á meðan vaxandi hópur býr við kaupmáttarskerðingu, þá blasir við að það hefur verið að draga mikið í sundur. Þeir sem eru í hærri kantinum hljóta að vera fá mikið meira þar sem meðaltalið er í plús.

Lausn alþingismanna var í haust að rúlla yfir borðið hjá sér frumvarpi um að þeir fengju að ráða sér aðstoðarmenn. Þegar málið var kynnt í nóvember var lögð fram áætlun um að rekstrarkostnaður 35 sérfræðinga sem væru aðstoðarmenn alþingismanna kostaði 90 millj. kr. Eins og kom fram í fyrirlestrum um skerta samkeppnistöðu vitum við sem störfum á almennum vinnumarkaði að þessi fjárhagsáætlun íslenskra þingmanna slyppi í gegn ef þeir gerðu samning við starfsmannaleigu og greiddu eins og þær gera byrjunarlaun unglinga. Slepptu orlofi, lífeyrisréttindum, löghelgum frídögum, orlofi, launum vegna veikinda og yfirvinnuálagi þegar farið sé yfir 40 tíma á viku, ásamt öðrum kostnaði eins og starfsaðstöðu.

Ég hélt því fram í nóvember síðastliðnum hér á þessari síðu að 10 millj. kr. á aðstoðarmann væri algjört lágmark þegar heildarkostnaður er metinn. 35 aðstoðarmenn alþingismanna myndu kosta amk 350 - 400 millj. kr. á ári. Sú tala er að koma upp á borðið núna. En þingmenn og ekki síður ráðherrar ljúga hiklaust að almenning til þess að réttlæta kostnað sem snertir þeirra eigin skinn.

Sama var upp á teningunum þegar eftirlaunafrumvarpi var rúllað yfir borðið niður í Alþingi, þingmenn og ráðherrar sögðu að það myndu sparast peningar með þessu, kostnaður gæti farið í sérstökum tilfellum upp í 6 millj kr. Bendi þar sérstaklega á ummæli hina öflugu fjármálaspekinga og sannleikselskandi þingmanna Sigurðar Kára, Péturs Blöndal og Davíðs Oddssonar. Við mættum niður á Austurvöll og mótmæltum og héldum því fram að kostnaðuru yrði aldrei minni en 600 millj. kr. Það hefur staðist upp á krónu.

Samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins má leggja umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. miða við verðlag 2007 og starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu miða við verðlag 2007 eða 122% launauppbótar.

Þegar samið er um laun á almennum markaði er ætið tekið mið að heildarlaunakostnaði fyrirtækjanna. Þegar þingmenn fjalla aftur á móti um sín launakjör fjalla þeir ætíð einungis um lágmarkslaunataxta, þ.e.a.s. þingfararkaup um hálfa milljón kr. Í raun eru laun þingmanna helmingi hærri eða vel yfir 1 millj. kr. á mán. að jafnaði og laun ráðherra vel yfir 2 millj. kr.

Við eigum þetta svo sem skilið, við kusum þetta lið á þing, og það er gert stólpagrín af íslenskum stjórnmálamönnum hér niður í Skandinavíu þar sem eru fullvalda ríki í góðu samstarfi innan ESB með stöðugan gjaldmiðil, lága vexti og töluvert lægra dagvöruverð og veita um 3 millj. launamönnum frá austur Evrópu vinnu. Norræna módelið hefur valtað yfir frjálshyggjuna og hið bandaríska misrétti.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Íslensku þingmennirnir eru ekki á of góðum launum ef þeir bera sig saman við kollega sína erlendis. Og þar sem þingmennirnir okkar og konur eru svo mikið í útlöndum er eðlilegt að þau beri sig saman við þetta fólk sem er á góðum launum.

Það er einfalt mál að réttlæta launahækkanir og lífeyrisréttindi fyrir þetta fólk, sem þarf að vera í fínum fötum, það sést nú bara á klæðnaði þingkvenna, sem eru alltaf eins og klipptar úr flottustu tískublöðum.

Lætin hér á landi eru náttúrulega vegna þess að almenningur hér er á svo skammarlega lágum launum og þingmenn komnir úr tengslum við almenning í þessu landi.

Nafnlaus sagði...

Oft hefur maður séð og heyrt fáranlega hluti, en þessi rök :

,,Það er einfalt mál að réttlæta launahækkanir og lífeyrisréttindi fyrir þetta fólk, sem þarf að vera í fínum fötum, það sést nú bara á klæðnaði þingkvenna, sem eru alltaf eins og klipptar úr flottustu tískublöðum."

Það eru þá eftir allt saman útlitið á alþingismönnum sem skiptir aðalmáli ?

Hvers vegna hefur svona fólk kosningarétt ?

Nafnlaus sagði...

Fulltrúar okkar á Alþingi hafa blindast. Almenningur þarf að grípa til róttækra aðgerða og opna augu þeirra. Samtök almennings þurfa að efna til aðgerða. Þeim ber skylda til þess.

Löggjafarvaldið er misnotað til þess að efla persónulega hagsmuni þingmanna sjálfra. Það eru umboðssvik.

Boðað ójafnaðar- og ranglætisfrumvarp stjórnarflokkanna er þjóðarskömm. Og hvar er helv. stjórnarandstaðan?

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Akkúrat, blindnin hefur þróast með einsdæmum síðustu áratugi.

Að merkja er að svona þróun sem hefur átt sér stað, þ.e.a.s. svona mikill munur á kjörum fólks, er að líkja við einræðisríki. Nú það gæti verið athyglisvert að sjá hvort þetta gæti ekki orðið eins og í Rúmeníu á sínum tíma, ef sjálfstæðisflokkshefðin fær að halda í sér í nokkurn tíma. Mér finnst þeir hafa verið árangursríkir í því. Hvar er kvótinn til dæmis?

Til Rómverja, þú spyrð hvar helv. stjórnarandstaðan er,...............ég held að hún sé það kúfuð eftir hefðaraðferðir sjálfstæðisflokksins, að það gæti tekið áratugi að ná taki á hlutum.

Ber að gæta að um leið og einhver er gagnrýninn, svo sem til dæmis var atvikið með Sigurð Líndal, þá var það dómsmálaráðherra, sem í samtali í Silfri Egils, lét það fylgja að sá maður væri ekki í flokknum lengur. Svo voru þau orð. Og þar með er hægt að skilja að það þarf ekki mikið til, í þessu tilfelli menntaður maður með gott vitsorð. Hvernig heldurðu þá að það sé fyrir "grasræturnar" ef þau fara að gagnrýna og mótmæla?

Nafnlaus sagði...

Veit ekki hversu mikið hið norræna módel hefur valtað yfir frjálshyggjuna. Norræna modelið getur ekki virkað til lengri tíma litið.
Hér í DK eru um 900000 manns á framfærslu ríkisins og fer vaxandi. Á næstu árum verður annaðhvort að skerða þjónustu við borgara umtalsvert eða hækka skatta. Með 63 % skatt af yfir 29000 dkr tek ég alla yfirvinnu út í fríi og ef ekki væri fyrir mikla vöntun á verkfræðingum væri ég búin að reyna að semja um að minnka við mig vinnu þannig að ég færi ekki yfir 29000.
(Enda hver nennir að læra í 5 ár þegar allir eru á næstum því sömu launum eftir skatt)

Nafnlaus sagði...

Frjálshyggjumenn eru lengi búnir að spá norræna módelinu dauða. Og halda saung sínum áfram innan úr rústum sinnar eigin stefnu.

Hvergi í heiminum eru almenn lífskjör betri en á Norðurlöndum.

Höfuðverkefnið er að láta ekki dellufólk sem kennir sig við frjálshyggju eyðileggja þessi dínamísku og árangursríku samfélög.

Nafnlaus sagði...

Jæja, nú vitum við hvernig Solla ætlar að ná fram breytingum á eftirlaunalögunum.
Hún ætlar að komast framhjá skoðun Sigurðar Líndal um að slíkt sé eignaupptaka og andstæð ákvæði í stjórnarskránni um helgi eignaréttarins.
Ráðið er einfalt.
Menn skulu fresta töku alþingiseftirlauna þar til þeir hætta að vinna hjá ríkinu!
Solla segir; frestun er ekki eignaupptaka.
Hagfræðingar eru Sollu algerlega ósammála.
Í hagfræðinni er tíminn peningar.
Mælieiningin á frestun greiðslu peningaeigna kallast dráttarvextir.
Eins og við þekkjum í samskiptum okkar við bankana þá eru dráttarvextir viðurkenndir að lögum.
Því miður.
B