sunnudagur, 11. maí 2008

Sparnaður ríkissjóðs á kostnað heimilanna

Það er ekki komist hjá því að gera athugasemdir við annars prýðilegan málflutning utanríkisráðherra. Hún hrósar sér og öðrum í ríkisstjórninni fyrir að hafa sparað ríkissjóð ómældar upphæðir við það hafa dregið að gera ráðstafanir til þess að grynnka hið djúpa fall efnahagslífsins.

Jú það er klárleg hárrétt. En það er ástæða að minna ráðherra á að á sama tíma og ráðherrar gerðu ekkert, þurftu heimilin að punga út umtalsverðum upphæðum og munu sitja í óþarflega djúpri skuldasúpu í allmörg ár. Eigum við að þakka ráðherrum okkar fyrir það? Skiptir efnahagsstaða heimilanna ráðherrana engu?

Ástæða er að halda því til haga að verulegur hluti þessarar stöðu sem þjóðin situr í er heimatilbúin sakir slakrar efnahagstjórnunar undanfarinna ára, eins og margítrekað hefur komið fram á undanförnum vikum. Reyndar var utanríkisráðherra og samferðarfólk hennar ekki með í för þeirra sem smíðuðu þetta heimskítsmát í efnahagsstjórninni. Þess vegna eru þessi skilaboð kaldranlegri. Við almenningur kunnum ekki að meta svona kaldhæðni.

Hér er ástæða að bæta aðeins við textann eftir að hafa lesið athugasemdir. Það er rétt að ég á að orða þetta nákvæmar. Þessi aðferð bitnar langverst á þeim sem verst eru staddir og var nú kannski nóg komið í þeim efnum. Þar sem þeir hafa fengið 7% skattahækkanir umfram þá sem hærri tekjurnar hafa. Þetta er hluti hinnar skipulögðu eignatilfærslu sem hefur staðið yfir undanfarin ár.

Hvað varðar boðskap um afnám eftirlaunalaga, þá er það eina sem hefur komið fram hjá ráðherrum að þeir ætli að afnema þann skafáanka að eftirlaunagæðingarnir geti samtímis verið á launum á kostnað almennings og eftirlaunum úr vösum sama almennings. Ef það er rétt skilið hjá mér, þá dugar sú leiðrétting hvergi nærri. Það eru mun fleiri en stjórnmálamenn sem búa við það að eiga þá áhættu að missa vinnuna. Allmargir eru t.d. að missa vinnuna þessa dagana vegna slakra vinnubragða stjórnmálamanna.

Það er móðgun við heilbrigða hugsun að slakt atvinnuöryggi stjórnmálamanna réttlæti allt að tífallt hraðari ávinnslu lífeyrisréttinda þeirra umfram almenning. Þessi eftirlaunasjóður og annað í þeirri kampavínskreyttu og vernduðu bómullarveröld sem stjórnmálamenn hafa búið sér, hefur skilað sé í sífellt slakari vinnubrögðum. Það væri kannski von til betri vinnubragða ef þeir byggju við eins mánaðar uppsagnarfrest eins og almenningur og ættu auk þess á hættu að vera sendir heim samtímis og þeim væri rétt uppsagnarbréfið, eins og margir eru að gera þessa dagana og eiga það þakka engu öðru en einmitt slöppum vinnubrögðum stjórnmálamanna.

Það sjáum við við svo greinilega í stöðu efnahagsmála og ekki síður í því að við nýlegar rannsóknir kemur fram að allt að 30% af lagafrumvörpum stangast á við stjórnarskrá eða gildandi lög!! Og svör ráðherra hafa verið svo einstaklega traustvekjandi, "Nú þá breytum við bara stjórnarskránni"

Í lokin hvers vegna þarf gjörvöll þjóðinn ítrekað að standa í hávaðasömum mótmælum og látum mánuðum jafnvel árum til þess að fá ríkisstjórnir þessa lands að fara að settum lögum, reglum og jafnræði borgaranna

Hér á ég m.a. við Eyjabakkamálið, Fjölmiðlalögin, Stjórnarskrárbreytingar, Þjóðaratkvæði og Eftirlaunalögin.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér í sambandi við boðað afnám eftirlaunalaga. Þar virðist stefna í tilraun utanríkisráðherra til þess að blekkja almenning.

Ef aðeins á að afnema 55 ára regluna og koma í veg fyrir að elítufólkið þiggi eftirlaun í fullu starfi, þá er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki formaður jafnaðarmannaflokks heldur eitthvað allt annað.

Er staða Samfylkingarinnar svo aum að flokknum sé um megn að ná fram jafnrétti í þessu mikilvæga máli? Eða er flokkurinn bara svona spilltur? Þurfum við áfram að búa við valdhafa sem misbeita umboðsvaldi sínu til þess að hygla sjálfum sér með forréttindum?

Hvers vegna er ekki hægt að ganga hreint til verks og afgreiða frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um afnám eftirlaunalaganna,klárt og kvitt?

Rómverji

Nafnlaus sagði...

aðeins að láninu.... er ríkissjóður ekki almenningur. Ef ríkissjóður sparar, er almenningur þá ekki að spara? Ef lánið hefði verið tekið á Libor+ 450 punktum eins og Vinstri grænir kölluðu eftir þá var ríkið að taka lán á tæplega 10% vöxtum. Það hefði eflaust þurft að hækka skatta vel til að standa undir afborgunum af svona láni. Er einhver kjarabót í hækkun skatta?

Nafnlaus sagði...

það leit ekki út fyrir að þeir vissu hvað þeir voru að gera þegar þeir gerðu ekkert. Það voru engin skilaboð til almennings önnur en að halda að sér höndum. Ríkisstjórnin virtist vera ráðþrota. Ef þeir hefðu sagt að þeir ætluðu að doka við þá hefði maður kannski fyllst smá öryggistilfinningu yfir að þeir væru við stjórnvölinn en því var nú öðruvísi farið.

Og nú getur Ingibjörg glott sínu háðslega glotti, sem er henni verti galli, og sagt að þetta hafi verið alveg meiriháttar plott. Ég kaupi það ekki.