sunnudagur, 4. maí 2008

Ölóðir villimenn á fjöllum


Frágangur í Skóflukleif eða við Strút eins skálinn var nefndur




Hér erum við að reisa skálann við Sveinstind


Hér erum við að reisa skálann við Strút

Ég er einn þeirra sem hafa á undanförnum árum lagt töluvert af frítíma mínum í að byggja upp fjallaskála Útivistar á Fjallabakssvæðinu. Við í stjórn félagsins lögðum í það fjármuni að undirbúa og láta teikna skálana. Auk þess vorum við tiltekinn hópur félagsmanna sem lögðum til verkfæri og bíla til flutnings á búnaði og efni upp á hálendið og dvöldum svo í tjöldum nokkrar helgar við að reisa þá.

Í þessa vinnu lögðum við glöð til þess að hafa aðgengilegt skjól í þeim veðrum sem fyrirvaralaust geta skollið á okkur þegar við erum á göngu um svæðin. Ekki síður til þess að gera það mögulegt að lengja þann tíma sem hægt sé að njóta svæðanna yfir veturinn.

Í uppgangi og óheftum aðgangi að lánum sem við íslendingar höfum búið við á undanförnum árum, hafa allmargir komið sér upp miklum og öflugum fjallabílum og ekki síður vélsleðum. Útivistarfélögin létu skálana standa opna með það að sjónarmiði að menn gætu nýtt skálana til skjóls og ekki síður til öryggis.

Í trausti þess að menn greiddu lága þóknun fyrir skjólshúsið og olíuna til upphitunar og eldunar skyldum við eftir bauka í skálunum. Við trúðum því að menn sem hefðu efni á að fara um landið á verkfærum sem kostuðu milljónir króna og eyða tugum ef ekki hundruðum lítra af eldsneyti í ferðunum gætu séð á eftir nokkur hundruðum króna fyrir aðstöðu og upp í rekstrarkostnað.

Í stað þess máttum við una því að baukarnir voru nánast tómir þegar við fórum í skálana að vori til yfirferðar og endurnýjunar olíu og birgða. Á stað þess þurftum við að leggja töluverða vinnu við að laga skálana eftir skemmdir vegna slagsmála og óláta. Þegar snjóa tók upp í kringum skálana blöstu við tómar öl og vínflöskur út um allt, ásamt drasli og umbúðum utan af matvælum og öðru. Jafnvel stóðu í dagbókum skálanna kröfur um að við stæðum okkur betur í að endurnýja oftar neyðarbirgðir og útbyggjum skálan enn betur.

Ekki stóð okkur til boða aðstoð þessara náunga við uppbyggingu og umgangur þeirra var með þeim ósköpum að við urðum að grípa til þess óyndisúrræðis að læsa skálunum. Þetta varð til þess að menn tóku sig almennt á í þessum efnum, og gerðu samninga um lán á lyklum að skálunum gegn lágu leigugjaldi og umgengi batnaði.

Nú virðist stefna í sama óefni aftur. Það er í þessu eins og svo mörgu að það eru fáir sem kalla yfir okkur lög, reglur og dýrt eftirlit. Það yrði leiðinlegt fyrir okkur sem lögðum á okkur alla þessa vinnu og kostnað, ef okkur væri gert að horfa upp á slys sem yrði vegna þess að aðframkomið fólk kæmi að læstum fjallaskála í óveðri.

Ég er næsta viss um að hinir ölglöðu á dýru tækjunum fyndu þá ekki til ábyrgðar, en þeir myndu standa fremstir með spjótin á lofti og beina ábyrgðinni að okkur sem reistu skálana og rekum.

Engin ummæli: