fimmtudagur, 8. maí 2008

Hittumst í Karphúsinu Kjartan.

Iðnaðarmenn eru þessa dagana að reyna að ná kjarasamning við Orkuveitu Reykjavíkur og ekkert gengur. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara á föstudaginn vegna þess að svör höfðu ekki borist frá samninganefnd OR í þrjár vikur.

Það er víst að iðnaðarmenn OR taka ummælum stjórnarformanns OR í hádegisútvarpinu í dag fagnandi um laun og launakjör hjá Reykjavíkurborg og stofnunum borgarinnar. Reyndar virðist oft vera svo þegar stjórnmálamenn eru annarsvegar að þeir skilja glögglega á milli launa og kjara sinna og vildarvina og svo launa annarra starfsmanna. Þegar laun almennra starfsmenn hafa borið á góma þá eiga þeir að mati stjórnmálamanna að sína ábyrgð og ekki fara óvarlega með stöðugleikann og valda óþarfa verðbólgubáli.

Nú munu iðnaðarmenn OR vitanlega láta á það reyna í Karphúsinu hvort skoðun stjórnarformannins nái örugglega ekki líka yfir almenna starfsmenn þess fyrirtækis sem hann stjórnar. Stjórnarformanninum hefur ítrekað í fjölmiðlum verið tíðrætt um þau miklu auðæfi sem fólgin eru í starfsmönnum OR, 10 milljarða að mig minnir. Þessi auðæfi hafa m.a. leitt til ferðalaga stjórnarformannsins til annarra heimsálfa þar sem hann hefur falboðið þessa þekkingu.

En það er vitanlega einelti gagnvart stjórnmálamönnum að vera með athugasemdir um gerðir þeirra, eins og forsætisráðherra sagði þegar fréttamaður var svo ósvífin að spyrja hinn um hinn einstaklega vinalega eftirlaunassjóð sem ráðherrar sömdu við sjálfa sig um og greiða milliliðalaust til sín úr ríkissjóð.

Engin ummæli: