föstudagur, 8. febrúar 2008

Blekkingar frjálshyggjunar

Í Fréttablaðinu í dag birtir Hannes Hólmsteinn blaðagrein eina af sínum kostulegu blaðagreinum. Prescott var kynntur í fyrra sem sérfræðingur í skattamálum og því haldið fram að við skilum ekki nægilega löngum vinnudegi. Því fer fjarri að Prescott hafi fengið verðlaunin fyrir þekkingu sína í lækkun skatta eins og haldið hefur verið fram í kynningu á honum. Hann fékk verðlaun fyrir stærðfræðilegt líkan af hagsveiflum.

Prescott hefur einungis skrifað eina fræðigrein um samband skatta og vinnutíma og hún hefur verið harkalega gagnrýnd. Prófessorar við Harvard og MIT hafa rannsakað mismunandi vinnutíma í vestrænum þjóðfélögum mun meir en Prescott og kannað skýringargildi annarra þátta en skatta. Niðurstöður eru að skattar skýri aðeins lítinn hluta af breytilegu vinnumagni þjóða, það er styrkur og skýr stefna launþegahreyfinga sem skipti þar öllu máli ásamt umfangi velferðarríkja og tekjuskipting.

Sé litið til fullyrðinga Prescotts þá ættu Íslendingar að vinna mun minna en Bandaríkjamenn, við greiðum hærri skatta. Við vinnum hins vegar meir, sé miðað er við atvinnuþátttöku og meðalvinnutíma. Norðurlandabúar ættu að vinna minna en aðrir í Evrópu en atvinnuþátttaka þeirra er mun meiri en hjá öðrum Evrópumönnum og meiri en í Bandaríkjunum.

Grein Harvardmanna er að finna á: http://econweb.fas.harvard.edu/hier/2005papers/HIER2068.pdf

Í niðurstöðum kemur fram að hver vinnandi einstaklingur í Bandaríkjunum vinni að meðaltali 25,1 vinnustundir á viku en í Þýskalandi er meðaltalið 18,6 vinnustundir. Bandaríkjamaðurinn vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári en Frakkinn 40 vikur. Gögn, sem byggja á athugunum á vinnutilhögum, benda til þess að skattar útskýri aðeins lítinn hluta þessa bils.

Harvard menn setja fram vel rökstuddar kenningar um að sterk verkalýðshreyfing á evrópskum vinnumarkaði séu meginástæða þessa munar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, með kröfunni um “Styttri vinnutími, vinna fyrir alla”. Í byrjun áttunda áratugarins voru vinnustundir álíka margar í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Nú eru þær næstum 50 prósentum færri í Evrópu en Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn vinna að meðaltali 25,1 vinnustundir á hvern vinnandi einstakling á meðan þær eru um 18 í Vestur-Evrópu.

Hver vinnandi einstaklingur í Bandaríkjunum vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári, í Frakklandi eru þær 40,5 og í Svíþjóð 35,4. Bandaríkjamenn vinna nú álíka mikið og árið 1970 en Evrópubúar vinna mun minna. Fræðimenn og stefnumótendur hafa upp á síðkastið beint sjónum að fækkun vinnustunda í Evrópu.

Aðalniðurstaðan er sú að ef skattar væru eini munurinn á Bandaríkjunum og Evrópu þyrfti sveigjanleiki framboðs á vinnuafli að vera mun meiri. Hér skipta máli áhrif verkalýðsfélaga í kjölfar áfalla innan atvinnugreina eins og þeirra sem áttu sér stað í Bandaríkjunum og Evrópu á 8. og 9. áratugnum. Ef framboð á vinnuafli fer upp á við, eykur slíkt vinnustundir. Þar sem samdáttur er í hagkerfi þar sem verkalýðsfélög eru til staðar, hefur slíkt leitt til fækkunar vinnustunda. Við sama áfall í hagkerfi án verkalýðsfélaga aukast vinnustundir.

Bendi einnig á næstu grein mína hér á undan

Engin ummæli: