Ég var einn af mörgum sem sat gáttaður og hlustaði á innlegg Péturs Blöndal og Jóns Magnússonar um reykingaumræðuna fyrr í þessari viku. Þeir slógu um sig með fullyrðingum á borð við „Sósíalíska forræðishyggju“, „Frelsissviptingu“ ,“Brot á frelsi minnihluta“ , „Minnihluti beittur ofbeldi af meirihluta“.
Nú má spyrja hver er að beita hvern ofbeldi. Hvað með ef maður fari með elskunni sinni á góðan matsölustað, splæsir í dýran rétt og fínt vín. En þegar maturinn er borinn á borð tekur maðurinn á næsta borði upp síkarretturnar sínar og reykir hverja á fætur annarri og maður getur ekki annað en hætt borðhaldi og farið heim, kvöldið ónýtt. Hvað með fari maður á pöbb en getur vart séð úr augum vegna mikils reyks og vart mælt vegna andremmu og þegar heim kemur þá er svo mikil fýla af fötum að þau verður að hengja upp utandyra. Hér er ég vitanlega að lýsa viðbrögðum fólks sem ekki er vant þessum reyk. Vitanlega þola sumir reykinn betur og finna ekki hina sterku fýlu sem er af fólki sem reykir.
Rök manna um frelsi og forræðishyggju í umræðu um reykingar skil ég ekki. Sérstaklega frá þingmönnum sem hafa vinnu við að setj a leikreglur í þjóðfélaginu. Af hverju þurfum við Alþingi? Ef maður notar sömu rök og Pétur og Jón þá er klárlega óþarfi að setja 30 km. hámarkshraða við skóla. Það eru örfáir sem gera þetta, flest okkar ökum ekki hratt um þessi svæði. Sama gildir um hámarkshraða á þjóðvegum, langflestir ökumanna aka í samræmi við aðstæður. Lögreglan er óþörf, langflest okkar ráðast ekki að öðru fólki, hvað þá að við meirihlutinn séum að taka bíla annara, jafnvel þó þeirstandi opnir með lykla. Þingmenn eru óþarfir því langflestir kunna almenna háttsemi í fjármálum og tillitsemi gagnvart náunganum.
Við hin fyrir utan Pétur og Jón vitum að það er vegna hinna fáu sem það er nauðsynlegt að hafa Alþingi til þess að setja leikreglur. Á sömu forsendum þurfum við lögguna og líka kjarasamninga og stéttarfélög. Við erum á öllum sviðum sífellt að glíma við minnihluta sem ekki getur sýnt tillitsemi og almenna mannasiði og beitir meirihlutann ofbeldi. Það hefur ekkert með frelsi eða forræðishyggju einhverja sósíalista, komma og vinstri manna að gera, nákvæmlega ekkert.
Við þurfum þingmenn sem skilja þau vandamál sem almenningur glímir við, ekki einhverja sem aldrei geta tekið til máls öðruvísi en með einhverjum bjánalegum og rakalausum klisjum og fullyrðingum.
Tek ofan fyrir Guðlaugi Þór hann er að skipa sér í flokk alvöru þingmanna.
2 ummæli:
Já, Guðlaugur Þór á hrós skilið. Vona að næsta skref hans verði í samræmi við yfirlýsingar.
Ef hægt er að banna reykingar í New York ætti það að vera mögulegt hér.
Ekki hélt ég að þú værir blindur öfgamaður Guðmundur. Mín tillaga er að þeir sem ekki reykja standi úti eða í einangrunarklefum, en við hinir fáum bestu sætin, enda fátt betra en Góður Vindill, Bjórglas eða Koníak og Góður félagsskapur innandyra í hæfilegum hita.
Hættið svo þessu endalausa FyrirhyggjuBulli
Skrifa ummæli