föstudagur, 8. febrúar 2008

Eigum við að lengja vinnudaginn?

Norræn efnahagstefna hefur skilað besta árangri í heiminum. Þar spilar sterk verkalýðshreyfing stærsta hlutverkið og sama hefur verið upp á teningnum hér. Flestir eru sammála um þennan mikla og góða árangur. Ég hef lúmsk gaman af þessu, því það eru ekki mörg ár síðan að Hannes Hólmsteinn og aðrir ungir sjálfstæðismenn spáðu því að norræna stefna gæti ekki annað en skattpýnt sjálfa sig í rúst.

Það var þessi stefna sem verkalýðshreyfingin ásamt samtökum atvinnurekenda með Ásmund Stefánss. og víkinginn Einar Odd í broddi fylkingar lögðu upp með Þjóðarsáttinni og hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag, ásamt framsýni Jóns Baldvins á sínum tíma með gerð viðskiptasamnjnga við Evrópuríkin. Aðilar vinnumarkaðsins hafa síðan þá ítrekað þurft að taka slaginn við stjórnvöld til að vernda þann árangur, eins og fram hefur komið í hvert skipti við endurnýjun kjarasamninga. Hannes Hólmsteinn segir aftur á móti að Þjóðarsáttin hafi ekkert verið nema stutt verðstöðvun, það hafi verið Davíð og hann sem einhendis hafi skapað þennan árangur.

Valda hærri skattar minni starfslöngun? Hvers vegna ættum við snúa stefnu okkar um 180° og fara að vinna meira? Í viðræðuþætti í sjónvarpinu vék Prescott sér undan þvi að svara þessum spurningum. Evrópubúar hafa flestir fjögurra til fimm vikna sumarfrí og átta stunda vinnudag. Þetta eru þau lífsgæði sem við höfum barist fyrir í áratugi. Rafiðnaðarmenn hafa með markvissri baráttu stytt vinnuviku sína úr 60 tímum í 46 á þjóðarstáttartíman og vilja ná lengra.

Í Bandaríkjunum er sumarfrí ein til tvær vikur. Þar er velþekkt að starfsmenn þora ekki að taka sér sumarfrí af ótta við atvinnumissi. Þar er vinnudagurinn er miklu lengri en í Evrópu. Efnahagsframfarir okkar á norðurlöndum eru mun meiri en í Bandaríkjunum. Þar verða hinir ríku enn ríkari og millistéttin hefur steypt sér í skuldir samfara því að fátæku fólki hefur fjölgað.

Almenningur í Bandaríkjunum gagnrýnir heiftarlega heilbrigðiskerfið, þar er staðan sú að ef fyrirvinnan lendir í einhverju óláni þá er fjölskyldan kominn á vonarvöl. Frjálshyggjumennirnir telja lausnina á þessu liggja í aukni striti og lengri vinnudegi. Enga leti hjá almúganum takk fyrir, þá getur hann ekki greitt öll nýju þjónustugjöldin, sem sett eru til þess að vega upp á móti skattalækkunum. Það eru örugglega margir af þeim sem liggja fyrir ofan miðju tekjustiganum til í að lækka skatta. Vilja menn fórna einkalífinu, sumarfríunum, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu fyrir það?

Hagfræðingar við Háskóla Íslands hafa sýnt fram á með haldgóðum rökum að kaupmáttaraukning hafi verið ójöfn. Gini stuðull ráðstöfunartekna er að hækka mest þar sem markvist hefur verið dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Minnkandi tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins má rekja til nokkurra þátta:
· Persónuafslátturinn lækkaði á árunum 1993-2006.
· Hátekjuskatturinn hefur verið aflagður.
· Skattur af fjármagnstekjum er lægri en af öðrum tekjum. Vaxandi vægi fjármagnstekna í heildartekjum hefur þess vegna leitt til þess að munur á tekjudreifingu heildartekna fyrir og eftir skatt hefur minnkað.
· Meðaltekjur hinna tekjuhæstu hækkað umfram tekjur annarra, einkum fjármagnstekjur þeirra.
· Tekjur hinna lægst launuðu hækkað það mikið að margir þeirra sem áður voru skattlausir greiða nú skatt.

Það eru launamenn sem sitja eftir í skattkerfinu á meðan peningamenn flytja sína peninga til annarra landa og eru ekki þátttakendur í rekstri þjóðfélagsins, einungis neytendur. Persónuafsláttur hefur ekki hækkað í samræmi við verðbólgu, vaxtabætur minnkað, barnabætur lækkað, skerðingarmörk öryrkja og aldraðra aukist. Það eru ákvarðanir stjórnvalda sem hafa mest áhrif á kaupmátt og ekki síst hjá þeim lægstlaunuðu. Nær öll vestræn ríki hafa aukið jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna á meðan við höfum stefnt í öfuga átt hér.

Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep.Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi. Einnig hafa frítekjumörk og skerðingarákvæði stjórnvalda valdið fátæku fólki hér á landi miklum skaða.

Það er eins og sumir forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins skammist sín fyrir þróun efnahagsmála. Á svona ráðstefnum og í stórblöðum erlendis hrósa þeir sér af því að hafa haft sjónarmið Frjálshyggju að leiðarljósi við mótun efnahagsstefnu á Íslandi og náð lengra en þau ríki sem talin eru hafa náð lengst í þessum málum. Þeir vilja alls ekki kannast við árangur sinn hér á landi, eins og kemur fram í raðgreinum Hannesar Hólmsteins í Fréttablaðinu.

Engin ummæli: