mánudagur, 11. febrúar 2008

Stjórnmálamenn eru ekki friðhelgir

Það er ekki ásættanlegt fyrir kjósendur að kjörnir fulltrúar láti fjölmiðla ekki ná í sig dögum saman. Það er eitthvað mikið að þegar tveir af þeim sem vilja láta telja sig í farabroddi borgarstjórnarmanna og hugsanlegur valkostur sem borgarstjóraefni skuli læðast út af fundi um kjallaratröppur svo fjölmiðlar ná ekki til þeirra með spurningar kjósenda.

Ég skrifaði pistil hér ekki fyrir löngu þar sem ég gagnrýndi Pétur Blöndal, en hann fer alltaf úr límingunum ef stéttarfélögin leita eftir því að Alþingi skoði eitt eða annað. Það virðist vera skoðun nokkurra stjórnarþingmanna að kjósendur hafi einungis aðgang að þeim nokkra daga fyrir kjördag.

Hjá sömu mönnum hefur einnig ítrekað komið fram sú skoðun að það eigi ekki að láta almenning komast upp með að hafa áhrif með mótmælum. Það sé betra að taka ekkert tillit til andmæla almennings og sitja af sér andófið. Almenningur gefist alltaf upp eftir stuttan tíma í andófi sínu.

Þetta kom m.a. fram í ummælum stjórnarþingmanna þegar almenningur mótmælti fjölmiðlalögum, eftirlaunalögum og sérstökum og ítrekuðum hækkunum launa þingamanna langt umfram það sem hafði verið samið um í kjarasamningum. Fleiri mál má nefna og svo núna þegar sömu aðilar vilja ekki koma til móts við athugasemdir almennings við athafnir borgarstjórnar og eins má minna á skipan héraðsdómara.

Eða svo borgarstjóra í kvöld sem virtist einungis kunna eitt svar og fór með þetta eina svar við öllum spurningum spyrils Kastljósins. Atriðið verður líklega í næstu Spaugstofu.

Engin ummæli: