þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Efnahagsvandinn

Mogginn birtir á miðopnu mikla og vel skrifaða grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar um hina erfiðu stöðu sem við erum í. Ég myndi nú taka þannig til orða, þá erfiðu stöðu sem strákarnir í bönkunum og röng efnahagsstjórn undanfarin áratug hafa komið okkur í.

Eins og svo oft þegar Sjálfstæðismenn líta yfir farinn veg, kjósa þeir ætíð að sleppa hinni veigamiklu aðild sem aðilar vinnumarkaðsins áttu að þeirri endurreisn og uppsveilfu sem hófst með gerð Þjóðarsáttar, og þann stóra þátt sem launamenn hafa átt í að viðhalda stöðugleika síðan þá. Oft þurft að þvinga stjórnvöld inn á réttar brautir. Hér á ég við fyrstu málsgrein greinarinnar.

Það stingur einnig í augu hvernig þeir stilla upp aðild að ESB og upptöku Evru. Mín skoðun er sú að afstaða Sjálfstæðisflokksins til þessa máls, sé ein helsta forsenda þeirrar stöðu sem við erum í og stærstu efnahagslegu mistök þess flokks sem er búinn að fara með stjórn þessa málaflokks undanfarin áratug.

Það er ekki gott þegar tveir vaxandi þungaviktarmenn í þingliði Sjálfstæðisflokksins reyna að veita þessu hjá sér með því að segja, að umræðan um ESB og Evru sé einungis flótti frá vandanum og fráleitt að nálgast þá umræðu út frá tímabundnum erfiðleikum. Við ættum a.m.k að vera kominn á lokastig í umræðu um aðild, en sjálfstæðismenn hafa ætíð sprengt þá umræðu með sífelldri endurtekningu á rakalausum klisjum.

Og svo er komið að launamönnum að axla vandann, að venju. „Verkefnið sem stjórnmálamenn og atvinnulífið þurfa nú að kljást við er talsvert.“ Segja þeir í lokakaflanum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

svo þetta sífellda gjamm um íbúðalánasjóð.