Nú virðist það vera svo að komið sé að lokafasa samningaviðræðna. SA hefur svarað tillögum landssambanda og þau eru að undirbúa svör sín. Helst virðist það vera upphafsþættir launaliða, samningstími og endurskoðunarþættir, nú nefndir baksýnispeglar, sem samningaefndir vilja gera aths. við.
Forsvarsmenn samninganefnda liggja nú ásamt hagfræðingum ASÍ yfir Excel töflum og spá í verðlagsþróun og hagkerfið. Aldrei hefur verið eins erfitt og að gera langtímasamning. Óvissuþættirnir eru svo miklir og stórir. Ekki bætti úr fall á markaði eftir áramót og neikvæðar spár um íslensku krónuna. Málið væri allt einfaldara og auðveldara ef stöðugleiki og traustari gjaldmiðill væri til staðar. Kostnaður heimila vegna krónunnar er orðin óbærilegur.
Síðasti þáttur viðræðuskeiðsins verður við ríkisstjórnina, þar verða barna- og vaxtabætur ofarlega á blaði ásamt húsnæðismálum. Verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt ótæpilega þau skerðingarmörk sem síðasta ríkisstjórn setti ásamt vaxtastefnu hennar.
Tillögur verkalýðshreyfingarinnar til ríkisstjórnarinnar lágu fyrir um miðjan desember en SA beitti sér gegn þeim með eftirminnilegum hætti í fyrstu viku þessa árs. Verkalýðshreyfingin var pent sagt óhress með þau vinnubrögð og benti á að margt af því sem sagt var hefði verið útúrsnúningar og dylgjur. Á þeim forsendum má reikna með að verkalýðshreyfingin leggi aftur fram sömu tillögur.
Ef jákvæðni myndast milli aðila er ekki ólíklegt að samningar gætu tekist í byrjun næstu viku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli