laugardagur, 23. febrúar 2008

Brothætt staða

Hagfræðingar telja að nýir kjarasamningar séu byggðir á réttri hugmyndafræði, með því að nýta það svigrúm sem til var að hækka laun hinna lægst launuðu. Fyrir lá að hækkun lægstu launa mun koma þyngra niður á mörgum framleiðslufyrirtækjum, og getur orðið mörgum fyrirtækjum sérstaklega út á landi dýrt. Sakir þess að þar er svo hátt hlutfall starfsmanna sem liggur á lægstu töxtum.

Brestur loðnuveiðanna getur leitt til 12 milljarða lækkunar á tekjum þjóðarbúsins og leitt yfir okkur afleiddan tekjusamdrátt. Til viðbótar er olíuverð hækkandi ásamt vöxtum og hækkunum á matvælum og hrávöru. Almennar launakostnaðarhækkanir í framleiðslu og þjónustugreinum eru töluverðar í byrjun og geta numið allt að 10% og heildarhækkanir á samningstímanum í kringum 17-20%. Þar á móti kemur skattalækkanir á fyrirtækjum. En Víglundur heldur því fram að íslenskir framleiðslu- og þjónustuatvinnuvegir muni ekki bera þessa hækkun og þeir muni umsvifalaust velta henni út í verðlagið.

Þessi staða er bein afleiðing nánasarháttar ríkisins gagnvart verkafólki, sem er hreint út sagt ótrúlegur. Þær upphæðir sem ríkið lætur af hendi rakna eru um 20 milljarðar, en á móti kemur aftur inn í ríkissjóð um 7 milljarðar í tekjum á móti. Þetta er nettó um 15 milljarðar sem dreift er á 3 ár. Ríkisvaldið lætur bændur hafa á hverju ári í beina styrki 9-10 milljarða. Eins og lesendur mínir vafalaust muna þá vildi verkalýðshreyfingin fara þá leið að létta stöðu þessa hluta atvinnulífsins með því að gera breytingar á skattkerfinu, en því var hafnað. Verði kjarasamninga felldir munu öll spjót augljóslega beinast að ríkisstjórnini, bæði frá fyrirtækjunum og launamönnum.

Það hefur margoft komið fram að skattbyrði hefur verið að aukast á undanförnum árum, þá sérstaklega hjá hinum lægst launuðu. Síðastliðin 10 ár hefur hlutur hins opinbera í þjóðartekjum landsmanna verið að aukast stig af stigi og er nú kominn í 48,2% og skattbyrði hinna lægst launuðu aukist um 7% umfram hinna tekjumeiri, eins og Indriði fyrrv. skattstjóri hefur ásamt mörgum öðrum bent á.

Þessu til viðbótar eru óbeinir skattar sem koma í gegnum fyrirtækin og eru í raun teknir af launum fólks, hér er um að ræða veikindadaga, sjúkrasjóði og lífeyrissjóði, þá eru skattar hér á landi um 60%. Þessu til skýringar er rétt að benda á að sjúkrasjóðir veikindadagar og lífeyrissjóðir eru í gegnum almenna skattkerfið í flestum öðrum ríkjum, en þar sem íslenskar ríkisstjórnir höfnuðu því alfarið að lagfæra bótakerfið á fyrri hluta síðustu aldar þá varð verkafólk að þvínga það fram í gegnum kjarasamninga og það kostaði minni launahækkanir. Ef þessir skattar yrðu aflagðir og tekið upp samskonar kerfi og þar þá þyrfti að hækka skatta hér á landi um 14%, en jafnframt hægt að hækka laun sem því næmi.

Verkalýðshreyfingin lagði til við undirbúning kjarasamninganna nú, að tekið yrði upp lægra skattþrep á laun undir 300 þús. kr. og auka með því ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu um 40 þús. kr. á mán. Þessu hafnaði ríkisstjórnin algjörlega. Stjórnarþingmenn, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, kvarta sáran undan því hvers vegna verkalýðshreyfingin sé sífellt að gera kröfur um að ríkið láti eitthvað af hendi rakna. Það þarf í raun ekki að skýra það, svarið er að finna í textanum hér að ofan. Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa nánast staðið að skipulagðri aðför að hinum tekjulágu.

Einnig hlýtur verkafólk að spyrja hvers vegna stimpilgjaldi sem er beinlínis samkeppnishamlandi skattur, er ekki aflagt. Nú blasir við að margir verða að skuldbreyta á komandi misserum og taka lán hjá öðrum sem býður betri vexti og svo framvegis. En þar er ríkiskrumlan á frðinni og sem kemur í veg fyrir það að fátækt fólk geti leitað ódýrari leiða.

Engin ummæli: