föstudagur, 29. febrúar 2008

Fólk er ekki fífl

Hef undanfarna daga verið á flakki víðsvegar um land og hitta fólk á fundum, vegasjoppum, flugstöðvum og í kaupfélaginu. Aldrei er ég sannfærðari en nú að flugstöðin eigi að vera í Reykjavík, hitti hundruð flugfarþega á hverjum degi sem undrast frekju miðbæjarrottanna sem aldrei stígur upp í innanlandsflugvél um að flytja eigi flugvöllinn til Keflavíkur.

Samdóma álit fólks er að það hafi verið góð ákvörðun að beina kröftunum að því að hækka lægstu laun, en marigr gera sér grein fyrir því að þetta vegur þungt hjá mörgum atvinnufyrirtækja í grunnvinnslu og þá ekki síst á landsbyggðinni. Þar berjast menn í bökkum við að halda þessum fyrirtækjum gangandi og þar er fólk nánast allt á lægstu töxtum. Mikil þörf er á að rétta hlut þessa fólks, en getur hugsanlega boðið heim hættu um samdrátt.

Fólk í landinu er ekki fífl eins og svo margir stjórnmálamenn virðast halda í sinni lokuðu bómullarveröld, þar sem þeir opna einn glugga í tvær vikur fyrir kjördag og lofa bót og betrun og henda út litprentuðum bæklingum með loforðum um bót og betrum, en að kvöldi kjördags er glugganum lokað og kjósendum sendur tónnin ef þeir voga sér að trufla þingmenn að störfum næstu 4 árin.

Í sjálfu sér endurspeglast viðhorf þeirra í valdamissi íslenskra valdhafa til ESB. Verði viðræður hafnar um aðild munu koma hingað alvörumenn og gera alsherjarúttekt á íslenskum valdhöfum og efnahagsstefnunni. Hér á landi hefur ákveðinn hópur manna í tilteknum flokki tekið til sín völdin og þeir ætla þeir ekki að sleppa sínu taki, hvað sem það kostar. Útrás íslenskra fyrirtækja eru að opna fyrir mat á þessum hltutum og staðreyndirnar eru að birtast okkur.

Við íslendingar erum ekki að standa okkur neitt ekkert sérstaklega vel á nánast nokkru einasta sviði. Það kom sem gusa yfir okkur þegar skýrslur komu út um að við værum ekki menntaðasta þjóð í Evrópu. Stjórnvöld voru búinn að þusa um það áratugum saman að við værum best menntaða þjóðin, allt í einu kom fram skýrsla sem sýndi að við vorum í annarri deild, með flesta ómenntaða einstaklinga á vinnumarkaði og mesta brottfall.

Við erum að fá þessa dagana upplýsingar að efnahagsmál okkar eru mesta ólestri og hinn mikla velmegun byggð á sandi erlendra lána. Öll útrás hinna „eitursnjöllu“ íslensku fjármálamanna eins og Hólmsteinninn og fleiri hafa haldið að okkur, er ekkert annað en flopp sem í sjálfu sér endurspeglast í því að ákveðin hópur hefur hrifsað til sín ofurbónusa, ofurlaun, ofurkaupréttarsamninga, ofurstarfslokasamninga og ofurstarfsbyrjunarsamninga.

Allir landsmenn fyrir utan Hólmsteininn og hans lið vita að þessir peningar koma ekki af himnum ofan, þeir verða til við að lífeyrisjóðir og sparfjáreigendur sem geyma sparifé sitt í fjárfestingarsjóðum fá minni arð og erlendu lánum fjölgar.

Örvæntingarfullur birtir forysta tiltekins Flokks ásamt Mogganum á hverjum degi yfirlýsingar um að það sé komið í ljós að öll umræða um Evru og ESB sé kominn út af borðinu og fólk eigi barasta strax að hætta þessu bulli.

En fólkið í landinu er annarrar skoðunnar. Það vill breytingar og tiltektir í efnahagsstefnu og fjármálageiranum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það sýnist auðvitað sitt hverjum um flugvallarmálið en mikið óskaplega er ég orðin þreytt á þessum klisjum hvað varðar okkur sem búum í miðbænum og erum afskrifuð sem miðbæjarrottur og eitthvað 101 listamannapakk sem hefur aldrei komið út á land, að minnsta kosti ekki í flugvél (við erum líklegast svo ansi hreint miklir umhverfishippar að við ferðumst bara á puttanum). Þetta er einfaldlega spurning um skoðanir fólks á skipulagsmálum og alger óþarfi að vera með þennan hroka.

En þar fyrir utan...fínn og tímabær pistill:)

Nafnlaus sagði...

Já fínn og tímabær pistill Guðmundur.
En mikið djö... er ég sammála þér með flugvöllinn og gaman að heyra þetta frá manni af höfuðborgarsvæðinu. Ef höfuðborgin á vera höfuðborg allra landsmanna þá ber hún ákveðnar skildur gagnvart öllum landsmönnum. Afhverju megum við landsbyggðarfólkið ekki hafa skoðun á því hvar flugvöllurinn er, sbr. að kjósa um hann eins og R.víkingar. Við notum hann þó.
Þorgerður þetta er enginn hroki, þetta er bara bláköld staðreynd.
Gísli E Arnason

Nafnlaus sagði...

Æi, samdóma álit fólks?? Þú ert nú ekki mjög vísindalegur í gagnasöfnun þinni Guðm.


Mikið vildi ég að fólk stillti hlutunum minna upp svona með og á móti.

Þú kyndir undir fordómum með þessu tali þínu - Höfuðborgarbúar vs. Landsbyggðin. Já eða 101 aumingjar vs. hinar vinnandi stéttir

Vona að þú látir af þessu þar sem ég held að þú hafir oft eitthvað gáfulegt til málana að leggja, en því miður ekki með svona tali