Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram við frágang kjarasamninga í gær, kemur fram að hún ætli að standa við kosningaloforð um lagfæringar á skattakerfinu og jafna hlut þeirra sem minnst mega sín.
En á undanförnum árum hafa skerðingarmörk í barnabóta- og vaxtabótakefinu ekki fylgt verðlagsþróun í landinu, sem hefur ásamt öðrum breytingum í skattkerfinu og upptöku þjónustgjalda leitt til þess að skattbyrði á þeim sem minnst hafa milli handanna hefur aukist um 7% umfram þá efnameiri eins og t.d. Indriði Þorlákssons fyrrv. skattstjóri fór ítarlega yfir í nýlegum dagblaðsgreinum. Auk þess má benda á greinar Stefáns Ólafssonar háskólaprófessors um sama efni.
Margir tóku eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn sveigði rösklega inn að miðjunni í kosningabaráttu sinni í fyrra. Það hefur reyndar oft gerst áður á undanförnum áratug, en svo þegar kjördagur var að kveldi kominn, virtist svo að Sjálfstæðismenn gleymdu kosningaloforðunum og hægri stefna réði för. Í kosningabaráttuni í fyrra var þetta mál efst á baugi í gagnrýni á fráfarandi ríkisstjórn og það sem Sjálfstæðismenn áttu hvað erfiðast með að svara.
Í kosningabaráttuni var oft erfitt að greina á milli stefnu Samfylkingarinnar og Sjálfstæðismanna. Það var norrænn svipur á stefnumálum beggja flokka, það líkaði röskum meirihluta landsmanna vel og margir höfðu á orði að Sjálfstæðisflokkurinn væri að færa sig inn á fyrri slóðir sem norrænn demókrataflokkur þar sem flestir íslendingar finna sig. Það kom því ekki á óvart að þessir flokkar unnu kosningarnar og mynduðu ríkisstjórn. Ríkisstjórn studdri af miklum meirihluta krata sem eru á miðju og hægra megin við miðju í báðum flokkum.
Nú finnst mönnum sem eru lengst til hægri í Sjálfstæðisflokknum sem þeir standi uppi sem lúserar, en staðreyndin er reyndar sú að þeir hafa á undanförnum haft mun meiri áhrif á framkvæmd og túlkun hver sé hin "rétta" stefna Sjálfstæðisflokksins, en fjöldi þeirra í flokknum segir til um. Þessi hópur hefur látið sér í léttu rúmi liggja þó svo atkvæðum sé smalað af miðjunni í kosningabaráttu, á grundvelli þess að hægri sjónarmið ráði svo milli kosninga.
Enda ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fjarri því það fylgi sem hann hefur ef hægri sjónarmiðin væru sett efst í kosningabaráttunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli