fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Fjarar undan krónunni

Greinilegt er að íslenskt atvinnulíf er búið að gefa íslensku krónuna upp á bátinn og menn úr atvinnulífinu gantast með að yfir standi jarðaför hennar.

Háttsettur maður í íslensku atvinnulífi sagði eftir að Geir Haarde forsætisráðherra hafði lokið ræðu sinni á nýafstöðnu Viðskiptaþingi, að þetta væri líkast því að stórfjölskylda gamallar og virðulegrar frænku hefði safnast saman við líknarbeð hennar. Nánustu ættingjar frænkunnar neituðu að viðurkenna að hennar tími væri liðinn, en flestir aðrir sæju að komið væri að leiðarlokum.

Það hefur ekki tekist að byggja upp trúverðuga peningastefnu hér á landi og myntbandalag Evrópu er að mata ört vaxandi hóp þeirra sem geta valið um Evru umfram krónuna. Í könnun Viðskiptaráðs kemur fram að 63% fyrirtækja innan ráðsins hafi misst trú á íslenzku krónunni og vilja annan gjaldmiðil. Langflest þeirra vilja taka upp evru í staðinn.

Forsætisráðherra sagði á þinginu að upptaka evru ætti ekki að vera einhver trúarsetning. Þetta er hárrétt hjá Geir, en einhvern veginn finnst manni að hann sé frekar að tala um tiltekinn hóp í Sjálfstæðisflokknum, sem hefur reynst ómögulegt að ræða Evrópumálin af raunsæi og alltaf ýtt þeim málum út af borðinu með órökstuddum klisjum endurteknum í síbilju.

Á meðan margir aðri hafa reynt að halda umræðunni gangandi með hagsmuni íslenskra fyrirtækja og ekki síður heimila fyrir augum. Vinnubrögð þessa tiltekna hóps í Sjálfstæðisflokknum komu svo glögglega fram hjá forsætisráðherra þegar hann tók fram að ríkisstjórnin myndi ekki sækja um aðild að ESB og þar með taka upp evruna.

Við erum allmörg sem höfum talið þörf á tala um þessi mál af raunsæi laus við órökstuddar klisjur. Innganga í ESB er að öllum líkindum besta kosturinn, en hæg evruvæðing sem er að gerast á Íslandi er versti kostur fyrir íslenskt atvinnulíf og heimilunum blæðir út.

Engin ummæli: