Í dag voru umfangsmiklir samningafundir og þar á meðal þeir fyrstu þar sem rætt er af alvöru við iðnaðarmannafélögin, en í þeim eru um 15 þús. manns. Samningaviðræður SA undanfarin mánuð eða frá því að viðræður sem voru vel á veg komnar vori sprengdar í loft upp, hafa nær eingöngu beinst að Starfsgreinasambandinu, reyndar hafa SA-menn aðeins hafið viðræður við verzlunarmenn að undanförnu.
Eftir þessa vinnu Starfsgreinasambandsins og SA liggja frammi liggja drög að samning til eins árs með framlengingarmöguleikum til tveggja ára. Þetta er í samræmi þá miklu óvissu sem er um stöðu efnahags- og þá um leið atvinnumála næsta vetur.
Eðli málsins samkvæmt þá eru allar stærðir í þeim tillögum sem liggja fyrir sniðnar að Starfsgreinasambandinu þar sem uppistaðan eru stórir hópar á taxtalaunakerfum. Iðnaðarmenn og verzlunarmenn eru aftur á móti langflestir með töluvert öðruvísi samsett og opin markaðslaunalaunakerfi. Samningsdrögin ná þar af leiðandi ekki til stórra hópa í þessum samböndum.
Auk framangreindra draga hafa allmörg sameiginleg tæknileg atriði sem snerta almenn réttindi í kjarasamningum verið til endurskoðunnar í vinnuhópum skipuðum samningamönnum frá ASÍ og landssamböndunum. Þar ber hæst áfallatryggingasjóður, ýmis atriði sem hafa valdið deilum í ráðningarsamningum eins og uppsagnarákvæði, ákvæði um ráðningu hjá samkeppnisaðila, útreikninga á yfirvinnu og desember- og orlofsuppbótum og fl.
Í lok dagsins lá það fyrir að raunsætt er að gera ráð fyrir að um komandi helgi verði ljóst hvort alvöruskriður komist á viðræður. Það byggist á því að náist samkomulag við iðnaðarmannasamfélagið um útfærslur á framangreindum drögum. Ef það tekst ekki má allt eins gera ráð fyrir að allt fari í hnút og endanlega slitni upp úr samfloti ASÍ félaganna. Það gæti leitt til mjög alvarlegra og snarpra átaka á vinnumarkaði. Ábyrgðin á því liggur í skauti þeirra sem stóðu að því að splundra þeirri vinnu sem var vel á veg kominn um áramótin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli