mánudagur, 11. febrúar 2008

Einkennileg staða í kjarasamningum

Allir fréttartímar helgarinnar hafa einkennst af fréttum sem er í líkingu við þessa frétt Stöðvar 2 „Jákvæður tónn er í talsmönnum beggja samningsaðila á vinnumarkaðnum eftir fund í Karphúsinu síðdegis í gær og taldar góðar líkur á að skrifað verði undir nýja kjarasamninga þegar líður á vikuna. Bæði Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hyggjast þó fyrst banka upp á hjá ríkisstjórninni til að knýja á um framlag stjórnvalda.“

Fréttir hinna fréttamiðlana eru mjög svipaðar og eins þau viðtöl sem hafa verið birt við Vilhjálm Egilsson framkv.stj. SA. Meir að segja er gengið svo langt að setja fram þá fullyrðingu að þessir aðilar séu á leið til ríkisstjórnarinnar í nafni ASÍ.

Samningamenn annarra aðila en Starfsgreinasambandsins sem eru í ASÍ hafa setið undir þessu með undrunarsvip. Lesendum til upplýsingar þá er hér ákveðin leikflétta í gangi.

Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum, þá hefur nánast ekkert verið talað við hið 18 þús. manna iðnaðarmannasamfélag og 30 þús, manna samfélag verzlunarmanna. Þar er um að ræða vel ríflega helming ASÍ. En það sem af er þessu ári hefur Starfsgreinasambandið setið að fundum með SA dag eftir dag.

Það hefur líka komið fram að það sem SA hefur boðið iðnaðarmannasamfélaginu og verzlunarmönnum kostar atvinnurekendur lítið sem ekkert. Nú á að stilla þessum samböndum upp þannig að annað hvort fallist á það tilboð eða þá að þau standi í vegi fyrir að Starfsgreinasambandið nái sínu fram.

Lesanda mínum til skýringar á liggja Starfsgreinasambandsmenn flestir á töxtum, eins og það er kallað og 15 þús. kr. hækkun á lágmarkstöxtum virkar sem klár launahækkun. Á meðan iðnaðarmannasamfélagið er opin markaðslaunakerfi þar sem samið er um eitt gólf. Það gerir það að verkum að tilboð SA skilar litlu sem engu til iðnaðarmanna og verzlunarmanna.

Síðan eru menn með axlabönd og belti og setja inn í launatryggingarákvæðið eina setningu um að til þess að viðkomandi eigi rétt á því ákvæði þá verði hann að hafa unnið á sama vinnustað við sömu störf næstliðna 12 mán. Það núllar út stóran hluta iðnaðarmanna, eins og flestir sjá í hendi sér.

Iðnaðarmenn hafa ítrekað gert aths. við þetta en ekki fengið nein ákveðin svör og verður væntalega stillt sem sakamönnum í fjölmiðlum um að standa í vegi fyrir því að verkamenn fái fyllilega réttmæta launahækkun.

Engin ummæli: