Ríkistjórnin mun á eftir að loknum venjubundnum morgunfundi föstudags taka á móti sendinefndum atvinnurekenda og launamanna. Báðir aðilar vinnumarkaðs hafa á sínum snærum öflugar hagfræði- og lögfræðideildir ásamt virkum sérfræðingum í þjóðmálum og hafa verið virkir þátttakendur í mótun efnahagstefnunnar og þættingu öryggisnets kjarasamninga við ákvarðanatöku löggjafarvaldsins.
Sendinefnd atvinnurekenda hefur gagnrýnt peningastefnuna kröftuglega og því umhverfi sem fyrirtækjunum er búið með okurvöxtum og mun örugglega koma á framfæri skilaboðum um hvernig ríkisstjórnin eigi að taka á þeim þætti á vorþingi.
Samtök launamanna hafa gagnrýnt hvernig hægri sinnaðar ríkisstjórnir síðustu ára hafa markvisst látið skerðingarmörk bótakerfis sitja eftir í efnahagsþróuninni þannig að skattbyrði hinna efnaminni hefur vaxið um um allt að 7% á undanförnum árum eins og Indriði Þorlákssonn fyrrv. skattstjóri benti á í greinum sínum um skattamál nýverið. Á þetta hafa samtök launamanna bent á undanförnum árum en uppskeran verið takmörkuð. Þá helst í formi greina sendiboða stjórnvalda þar sem beitt er villandi meðaltölum til þess að réttlæta skattastefnuna.
Það kerfi sem ríkisstjórnir undanfarinna ára hefur komið á er ótrúlega galið. Þar má benda á að skerðingar í barnabótakerfinu hefjast við 96 þús. kr. Sem hefur leitt til þess að barnabætur hafa að raungildi lækkað verulega á undanförnum árum. Sama má segja um vaxtabótakerfið skerðingar hefjast við 8 millj. kr eign skerðast út við 13 millj. kr. Vaxtabætur hafa lækkað að raungildi um allt að 3 milljörðum kr. á undanförnum árum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun í landinu og hefst innan við 100 þús. kr. en það mark ætti að vera nær 150 þús. kr.
Ríkisvaldið er auk þess með skattlagningu tekið til við að seilast í þá sjóði sem launamenn og fyrirtækin hafa kosið að greiða í. Kannanir sína að við er langt að baki þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við í stöðu menntamála. Aðilar vinnumarkaðs hafa brugðist við með því að greiða í starfsmenntasjóði, sem ríkissvaldið hefur á sinn mótsangarkennda hátt tekið upp á að skattleggja.
Starfsmenntun í atvinnulífinu og símenntun er forsenda þess að á íslenskum vinnumarkaði séu vel menntaðir starfsmenn sem tryggja sveigjanleika fyrirtækja og þá um leið samkeppnisstöðu þeirra. Stefna íslenskra stjórnvalda gengur þvert á stefnu nágrannaríkja okkar sem gera allt til þess að tryggja öfluga starfsmenntun í formi símenntunar með því að veita til þess umtalsverðu fjármagni og skattfríðindum.
Það er svo sem af mörgu að taka sem reikna má með að aðilar vinnumarkaðs setji á umræðuborð ríkisstjórnarinnar í dag. En það verður að segjast eins það er að íslenskir stjórnmálamenn virðast frekar vera uppteknir við að auka veg framkvæmdavaldsins og sækjast eftir völdum í stað þess að tryggja sjálfstæði sitt með því hafa eftirlit með því.
Stjórnarþingmenn telja sig fremur vera embættismenn en fulltrúar kjósenda, eins og svo glögglega sést hvernig þeir fara ætíð úr límingunum séu þeir truflaðir við iðju sína eftir kjördag með áminngingum frá launamönnum og stjórnendum fyrirtækja, sem eru reyndar líka kjósendur.
Síðustu dagar kjarasamninga bera ætíð með sér sérstakt yfirbragð. Spenna liggur í loftinu, mörkuð af þreytu langra og oftast hrútleiðinlegra funda þar sem aðilar hafa ítrekað notað sömu rökin til þess að sýna fram að tiltekin krafa eigi rétt á sér og svo svar vinnuveitandans um að hún sé of dýr sem muni leiða til gjaldþrots og atvinnuleyis.
Elísabet skrifstofustjóri ríkissáttasemjara og Hjördís aðstoðarkona hennar slá á létta strengi og skella einhverju nýju á borð kaffistofunnar og fá samningamenn til þess skipta um gír og ræða almennt um þjóðmál í léttum tón. En fyrir sumum þeirra blasa við skipbrot óraunsærra yfirboða við undirbúning kröfugerða og forsvarsmenn fyrirtækja naga handarbök sín yfir því að hafa veist ógætilega að rekstrargrundvallarræflinum með laustlátum loforðum við samningaborðið.
Sökudólga er leitað á báða bóga en Ásmundur gengur um Karphúsið og ræðir föðurlega við menn og miðlar mikilli reynslu sinni í tilraun til þess að fá menn til þess að sættast við hlutskipti sitt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli