mánudagur, 17. mars 2008

Tími háspennulína liðinn!!??


Launafli má líkja við froðu í bjórglasi

Í desember síðastliðnum kom fram að umhverfisnefnd Alþingis vildi skipa nefnd til að móta stefnu um hvernig leggja megi allar raflínur sem nú eru ofanjarðar í jörð á næstu áratugum.

Á forsíðu Moggans í morgun segir varaformaður Orkveitunnar að tími háspennulína sé liðinn, vegna þess að verð á stáli hafi hækkað svo mikið. Jarðstrengir séu í þróunn en háspennulínur ekki. Ósköp væri nú gott ef stjórnmálamenn kynntu sér tækniatriði betur áður en þeir rjúka í fjölmiðla.

Það er skelfilegt þegar stjórnmálamenn detta inn í stjórnir tæknifyrirtækja og valda þar stórkostlegum sköðum með fávisku sinni. Þar er Orkuveitan að verða kennslubókardæmi.

Þeirri stefnu hefur verið fylgt alllengi hér á landi að línur í fjölbýli eru settar í jörð, enda eru þar dreifikerfi sem eru með mun lægri háspennu en eru í flutningslínum frá virkjunum til fjölbýlis. Um allangt skeið hefur verið unnið að því að fella 11 Kv (hér ritaði ég í fljótfærni KW allir sem eitthvað vita um rafmagn sjá það var ekki rétt) milli bæja í sveitum og koma strengjum í jörðu. Í dag fer maður í gegnum heilu sveitarfélögin án þess að sjá loftlínur milli sveitabæja, sérstaklega á Norðurlandi.

Í þessum tilfellum er um að ræða allt aðrar spennustærðir en t.d. eru til stórnotenda eins og t.d. álver. Línurnar þangað bera 220 þús. volt. Það er stórmál að koma stórum línunum í jörð, til þess þarf að byggja mikla steypta stokka og það veldur miklu jarðraski. Þar er mikil olía í notkun og mikil hætta á umhverfisslysum og jarðvatn í mikilli hættu.

Ef koma á 220 þús. volta dreifikerfinu í jörð og hringlínunni, kostar það um 300 milljarða. En það er ekki allur pakkinn. Jarðstrengir auka launafl verulega, sérstaklega á lengri vegalengdum. Launafl veldur miklu orkutapi. Það upphefst mikil orka við launaaflið í strengjunum. Ef allar stóru línurnar okkar verða settar í jörð samsvarar það því að öll orka Búrfells gufaði upp.

Launafli má líkja því við froðu. Á myndinni frá ABB er góð útskýring á því hvað launafl er.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk kærlega fyrir þetta!

Já, stjórnmálamenn geta verið hin mestu skaðræðisdýr, sérstaklega þegar um bessevissera er að ræða eins og þessa Ástu, sem ekki bara hefur ekkert vit á því sem hún er að fjalla um, heldur er í þokkabót blinduð af misskilningi sínum á því hvað best er fyrir umhverfið. Ekki þarf að fjölyrða um þá staðreynd að henni er skítsama hvað best er fyrir mannfólkið, sem þarf að lifa í þessu landi.

Mikið væri gott ef við værum laus við svona fólk hvað umfjöllun og meðferð almanna hagsmuna varðar.

Kveðja,
Siggi Jóns.

Nafnlaus sagði...

Svo má ekki gleyma að rekstraröryggi jarðlínanna er minna er loftlínanna, sérstaklega í hárri spennu. Stórnotendur geta ekki sætt sig við að skerða rekstaröryggi í þeim stærðargráðum sem jarðlínur valda.

Unknown sagði...

Þetta var fróðlegt Guðmundur. Vissi þetta ekki fyrir.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur minn. Ljótt að þú fagmaðurinn skulir detta í þann pytt að tala 11 KW háspennulínu. Við vitum báðir að þær eru 11 kV eða 11.000 volt fyrir þá sem ekki vita muninn á volti og watti. Annars er þetta fín grein!

Nafnlaus sagði...

Ég hef verið að reyna að koam þessu að í umræðunni um nokkurt skeið. Sjá hér: http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/479137/
Auk þess eru háspennuloftlínur ekki úr stáli í dag. Þær eru úr ÁLI!