mánudagur, 17. mars 2008

Endalok peningastefnunnar er runnin upp

Í allmörg ár hafa aðilar atvinnulífsins gagnrýnt þá efnahagsstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett hér á landi. Á sama tíma hafa forsvarsmenn þessarar stefnu hrósað sjálfum sér fyrir mikil afrek, samfara því að gera lítið úr ábendingum atvinnulífsins. Því hefur verið haldið að okkur að með þeirri efnahagsstefnu sem frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins hefur markvisst byggt upp sé Ísland að verða að gæðaumhverfi sem fjármálastofnanir vilji komast til. Ekkert er fjær lagi, það er gert gys af íslensku efnahagslífi.

Ekki hafa hinir ofurlaunuðu útrásarpiltar aukið á traust okkar, og þeir eru fáir meðal almennings hér á landi sem það gera. Þeir hafa nýtt sér stöðu sína til þess að hrifsa til sín hluta af þeim arði sem launamenn hafa safnað saman í lífeyrissjóðum frá árinu 1970.

Helstu rök valdhafanna gegn því að ganga til liðs við það efnahagsumhverfi sem nágrannaríki okkar hafa byggt upp með góðum árangri, og við höfum reyndar notið góðs af, hefur verið sú að það sé svo gott að hafa okkar eigin gjaldmiðil því þá getum við varið atvinnulífið fyrir atvinnuleysi.

Það hefur oft komið fram að hlutverk þessa gjaldmiðils er það eitt í augum stjórnenda íslenskra efnahagsmála af hafa af launamönnum umsamdar launahækkanir og halda þeim í ríki ofurvaxta og ofurverðlags fákeppninar.

Sú peningamálastefna sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgir, hefur í raun einungis aukið sveiflurnar í efnahagslífinu. Íslenskt efnahagslíf er fyrir allnokkru vaxið langt upp yfir örkrónuna.
Seðlabankastjóri og fylgisveinar hans í stjórn bankans hljóta að víkja, ásamt því að vikið verði af slóð glötunnar og tekist á við þann vanda sem röng stefna í efnahagsmálum hefur leitt yfir okkur.
Hefja verður skipulagða hreinsun og gera íslenskt efnahagslíf tækt í það evrópska.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvers virði eru nú nýgerðir kjarasamningar?

Nafnlaus sagði...

Sammála þessu. Þeir kasta grjóti úr glerhúsi þessir blessaðir menn í Selðlabankanum. Flest allir seðlabankar í heiminum eru búnir að bregðast við aðstæðum en íslenski ekki neitt. Þeim dettur það ekki til hugar. Sjáið stjórn Seðlabankans er hún líkleg til afreka, Hannes Hólmsteinn, Halldór Blöndal .....

Unknown sagði...

Það eru 3 seðlabankastjórar, hvern þeirra áttu við?