Það verður að segjast eins og það er þau eru hreint út sagt ótrúleg tilsvör borgarstjóra og fulltrúa Sjálfstæðisflokks undanfarin sólarhring þegar þau eru spurð um níu prósentin.
„Við komum og björguðum borgarbúum undan upplausninni sem ríkti áður en við komumst til valda.“ Þetta er veruleikafirring í toppklassa.
Björn Ingi gafst upp á upplausninni sem ríkti meðal Sjálfstæðismanna í kjölfar REI málsins og myndar meirihluta með hinum. Sá meirihluti nýtur stuðnings meirihluta í könnunum.
Sjálfstæðismenn blindast af hefnigirni og ná að véla Ólaf með því að skrifa undir kosningaloforð hans og kalla það málefnaskrá sína og moka hundruðum milljóna úr borgarsjóð í ónýt hús. Kjartan skipar sjálfan sig formann allra nefnda sem sjáanlegar eru og Ólafur mætir í fjölmiðla og fer í sífellu með hið eina svar sitt við öllum spurningum fréttarmanna.
Algjör vandræðagangur á öllum sviðum. Borgarfulltrúar skammast sín svo fyrir verk sín að þeir neita að taka upp símann og læðast út um kjallaradyr.
Reyndar er hægt að segja eitt þeim til afsökunar, það er ekki bara á sviði borgarmála sem Sjálfstæðisflokkurinn er að lenda vandræðamálum og þeim umræðum er fjarri því lokið eins og reyndar Mogginn tilkynnir daglega. Hann er vanur því að geta sent út svona tilkynningar, frá þeim tíma að vera einn á fjölmiðlamarkaði og geta sett mál á dagskrá og tilkynnt hvenær umræðu er lokið. Héraðsdómaramálið er enn í umræðunni og ekki síður ESB og Evran og afrakstur rangrar efnahagstefnu flokksins.
Niðurstaðan ákaflega fyrirsjáanleg; þeir skora með níu prósent fylgi, það eru enn til níu þrep niður í skalanum. Ef haldið er áfram á "Það er hinum að kenna"-brautinni spái ég því að níu prósentin ekki botninn, eins og félagi Egill spáir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli