laugardagur, 1. mars 2008

Falleinkunn borgarstjórnar og Impregilo

Hef verið á Austurlandi síðasta sólarhring. Ótrúleg uppbygging hvert sem litið er í bæjarfélögunum næst álverinu. Samt heyrir maður kvartað undan því að vanti meiri kraft í félagslega afþreyingu, og svo hið svimandi verð á flugmiðum. Vilji hjón skreppa til höfuðborgarinnar, kostar það 50 þús. kall.

Margir eru svektir á stefnu- og ráðaleysi borgarstjórnar Reykjavíkur í flugvallarmálum, sem hefur leitt til þess að sífellt dregst að Flugfélagið fái samkeppni. Er ekki undrandi á því að borgarstjórnin fái falleinkun hjá landsmönnum.

Algengt er að heyra í samræðum þar sem við starfsmenn stéttarfélaganna komum samanburð á byggingaraðilum Fjarðaáls og svo Kárahnjúka nú þegar framkvæmdum er að ljúka.

Við byggingu Fjarðaáls störfuðu fleiri en við Kárahnjúka. Þrátt fyrir það voru engin slys á fólki og almenn ánægja með öll samskipti við Bechtel, sem í öllu gættu jafnræðis og að í öllu væri farið samkvæmt íslenskum reglum við uppgjör launa og samskipti við hið opinbera. Aðbúnaður í skálum og mötuneytum til fyrirmyndar.

Það slær alveg á hinn kantinn þegar verktakan við Kárahnjúka ber á góma. Fólk er ósátt við að Landsvirkjun skuli hafa staðið að því að dengja þessu fyrirtæki yfir íslenskan vinnumarkað. Endalausar deilur um launakjör og aðbúnaður fyrir neðan allar hellur.

Slys á Kárahnjúkum voru fleiri en svo að menn muni þá tölu og sum mjög alvarleg. Rætt er um að enn fleiri starfsmenn hafi brotnað saman vegna framkomu og vinnuaðstæðum. Lýsingar sem maður heyrir um framkomu hinnar ítölsku hástéttar eru þess eðlis að þær eru ekki prenthæfar.

Fáir skildu hvers vegna fjölmiðlafulltrúinn, eða orðhákurinn mikli eins og hann er oftast nefndur, fékk ekki sjálfur meiðyrðadóm, samskipti hans við fólk hafa ekki þótt til fyrirmyndar. Ég sá á einhverju blaðanna á leið í bæinn, að hann hafi unað sér svo einstaklega vel í þessum hóp að hann er búinn að ráða sig til annars ítalsks fyrirtækis sem mun reisa verksmiðju á Akureyri.

Það þarf svo sem ekki endilega að þýða að það fyrirtæki taki upp samskonar framkomu við launamenn og austfirðingar lýsa að tíðkuð hafi verið hjá fyrri vinnuveitanda hans.

Engin ummæli: