Undanfarna daga hafa komið fram hugmyndir um að dómarar taki þátt í umræðu um dóma. Kvartað er undan því að þeir sitji undir ósanngjarnri umræðu og niðurstöður þeirra dregnar í efa.
Það er mitt mat að þarna sé umfram annað um að kenna óvandaðri umfjöllun fréttamanna um dóma. Oft fjalla fréttamenn einungis um aðra hlið málsins og fram kemur að þeir hafa lítt kynnt sér dómsorð og rök dómara. Ef dómur er lesinn þá koma þar fram á hvaða forsendum dómari hafi dæmt.
Stundum er það svo að lögmaður er fengin sem álitsgjafi um eigin mál og niðurstöðu dómara. Þetta á sérstaklega við fréttastofu Sjónvarps og Kastljósið. Ítrekað eru það sömu lögmenn sem fengnir eru til þess að mæta.
Þeir úthúða ætíð gagnaðila og hafa jafnvel í frammi allskonar hótanir um meiðyrðamál og fleira. Hér vísa ég sérstaklega til nokkurra mála sem snúa að réttindamálum erlendra launamanna og ummæli um starfsmenn stéttarfélaga sem þessir lögmenn viðhafa.
Maður tekur svo eftir að þegar Hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu þá kallar fréttastofa Sjónvarpsins ekki á þann aðila sem var úthúðað skömmu áður. Reyndar varð á þessu athyglisverð 180°breyting í vikunna þegar Hannes Hólmsteinn fékk sinn dóm. Þá var eins og áður kallað í lögmann hans og hann var með harla einkennilegar yfirlýsingar um dóminn og þann „sigur!!?“ sem hann hefði unnið. Ekki var rætt við fjölskyldu Halldórs.
Mér finnst það einkennilegt að hæstaréttardómarar finni hjá sér þá þörf að útskýra sína persónlegu skoðun. Maður stendur allavega í þeirir trú að þeir dæmi eftir lögum eins og þau eru hverju sinni. Ef það kemur í ljós að viðhorf þjóðfélagsins hafi breyst þá er það vitanlega löggjafans að breyta lögum eða setja ný.
1 ummæli:
Ég er sammála því sem kemur fram í leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu. Dómarar þurfa að gæta orða sinna. JSG er ekki þannig dómari.
Skrifa ummæli