mánudagur, 3. mars 2008

Útburður sumarbústaðaeigenda

Hún kemur víða niður græðgisvæðingin. Öll þekkjum við þá ástúð sem fólk tekur við sumarbústað sinn og þá lóð sem honum fylgir. Sumarbústaður er hvíldarstaður frá erli dagsins, þar sem skipt er um umhverfi og horfið frá borgarmenningunni í faðm og frið náttúrunnar. Oftast hefur verið um þann hluta jarða að ræða sem bændur hafa haft minnst not af.

Sumarbústaðaeigendur hafa smá saman komið sér upp íveruhúsi með útsjónarsemi og mikilli vinnu. Jafnframt hefur verið lögð mikil vinna í að gera lóðina að unaðsreit með miklum gróðri sem dafnar vel í skjóli natinnar umhirðu.

Þessi hleðsla batteríanna verður fólki fíkn og skilar borgarmenningunni og fyrirtækjunum þróttmiklum og úthvíldum starfsmönnum á mánudagsmognum, sem jafnframt hafa endurnýjað samskiptin við sjálfan sig og maka sinn.

Nú hafa peningamenn áttað sig á því að þarna eru tækifæri til þess að kvelja út peninga úr fólki. Þeir hafa setið um bændur sem vilja jafnvel draga sig í hlé og gert þeim tilboð í jarðirnar. Daginn eftir undirritun kaupsamnings er saklausu fólki sendar hótanir um að annað hvort kaupi það lóðinu undir bústað sínum fyrir okurfé eða það hafi sig á brott.

Gengið er svo langt í græðginni að krefjast sama lóðarverðs og er í vinsælu þéttbýli. Án tillits til þess að það var sumarbústaðaeigandinn sem hefur skapað öll verðmætin í landbótum, slóðum að lóðinni, veitukerfum og skolplögnum og rotþróm. Til boða stendur takmörkuð þjónusta eins og við sorphirðu og brunavarnir. Það kemur hinum nýju landeigendum ekkert við.

Blindaðir af græðginni eru sett upp verð og leitað til lögmanna, ef þeir eru það ekki sjálfir, og fólki er hótað útburði.

Í trausti þess að fólk hafi tekið svo miklum tilfinningartengslum við sumarbústað sinn og tilbúið að fórna miklu til að fá notið áframhaldandi hvíldar í þeim reit sem viðkomandi hafa búið sér.

Hvers vegna stjórnvaldið hefur verið seint til viðbragða er erfitt að skilja. En fyrir liggur loks drög að löggjöf sem á að tryggja rétt fólks að nokkru, en græðgisvæðingin berst um til að tryggja sinn aðgang að fjármunum fólks, sem hefur unnið sér það til saka að vilja vera í nálægt við náttúruna og skapað sér unaðsreit. Því er nú gert að kaupa þau verðmæti af mönnum sem hafa sölsað þau undir sig í skjóli nætur.

Engin ummæli: