laugardagur, 15. mars 2008

Flugkúnstir borgarstjórnar

Skrifstofuglugginn minn snýr að Grafarvoginum þar er mikið fuglalíf. Vogurinn tæmist á fjöru og upp koma leirur með fullar af æti. Suðurbakki vogsins er nokkuð brattur og oft uppstreymi sem krummi og mávarnir nýta til þess að svífa fram og tilbaka.

Ef hvessir bregða krummarnir á leik. Það gaman sjá til flugkúnsta þeirra í uppstreyminu. Þeir fljúga oftast tveir og tveir saman. Velta sér og fljúga á hvolfi velta sér og fara kollhnýsa. Oft tekur einhver þeirra spýtukubb og þeir slást um að ná honum á fluginu. Mest gaman er að horfa til flugæfinganna þegar einhver þeirra tekur steinvölu flýgur með hana hátt upp og sleppir henni síðan. Þá steypa þeir sér á eftir henni og keppast um hver sé fyrstur á ná völunni. Snillingar í loftfimleikum.

Við blasir botn vogsins þar sem stendur ónýtt Keldnalandið. Besta staðsetning Landspítalans. Vegamót Vesturlands og Suðurlandsvegar eru við Keldnalandið. Greiðar leiðir til miðborgarinnar og byggðanna sem eru sunnan við höfuðborgina og til Suðurnesja. Stutt til Geldingarnessins þar sem innanlandsflugið og samgöngumiðstöð væru vel staðsett eftir að Sundabrautin er kominn.

Og við myndum minnka umferð um Miklubrautarhnútinn um einn 5000 manna vinnustað.

En við höfuðborgarbúar höfum kosið háskólakrakka í borgarstjórn og þau kunna ekkert til verklegra framkvæmda og hafa engan áhuga á öðru en opnun listviðburða og tónleikum og lífinu á kaffihúsum 101. Þar fer líka fram þjálfun ungliða flokkanna. Milli þess að þau sitja námskeið í útúrsnúningatækni og keppa svo í þeim leik í sínu starfi.

Engar niðurstöður nást á borgarstjórnarfundum sakir þess að þau eru ekki þjálfuð til þess að taka ákvarðanir. Þau eru þjálfuð til þess eins að koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái árangri í starfi. Það hrökkva reyndar í gegn ákvarðanir um hækkun nefndarlauna og launa borgarstjórnarmanna, ásamt fríum tölvum og nýjustu tegund GSM síma.

Laun fyrir að sitja einn ákvarðanalausan fund eru jöfn mánaðarlaunum leiksskólaliða eða um 130 þús. kall. En stelpurnar í borgarstjórn telja að þær geti ekki komist af við rekstur sinna heimila með minna en 600 þús. til milljón á mánuði. En þær samþykkja svo að senda kynsystrum sínum frímiða í sund og á málverkasýningar til þess að bæta upp 130 þús. kallinn og mæta svo í Silfrin og Kastljósin með ræður um launabætur borgarstarfólks, sem eru svo arfavitlausar að maður skiptir yfir á Sýn og horfir frekar á gamlan fótboltaleik.

Á þetta spilar svo samgönguráðherra og nýtir stöðu sína til þess að eyða tugum milljarða í vegaframkæmdir í kjördæmi sínu. Hann ætlar svo að eyða nokkrum milljörðum í að tvöfalda veg sem Vegargerðin hefur nýlokið við að gera góðan. En láta vegaspottan milli Hveragerðis og Selfoss eiga sig, þó svo að safnist upp hver krossinn á fætur öðrum við Kögunarhól til minningar um fallna samborgara á þessari leið.

Og krummarnir leika sér í hver sér snjallastur í flugkúnstum og borgarstjórnarmenn apa það eftir.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill nafni.

Nafni í Hafnarfirði

Nafnlaus sagði...

Vel gert Guðmundur, með því skárra.

Halla sagði...

Góður pistill. Hef oft verið að velta fyrir mér flugi "hrafnanna".