laugardagur, 22. mars 2008

Stefnir í allsherjar uppgjör næsta vetur?

Morgunblaðið er dáldið einkennilegur miðill. Þar er oft mjög vönduð og góð umfjöllun og greining unnin af öflugum blaðamönnum. Þó svo margir láti Staksteina fara í taugarnar á sér, þá sést það víða í bloggheimum a.m.k. að þeir eru lesnir og menn taka allavega það mikið mark á þeim að eyða tíma og rúmi í að fjalla um það sem þar er birt. Sama gildir um Reykjavíkurbréf.

Í Reykjavíkurbréfi páskablaðs Moggans er farið yfir þá erfiðu stöðu sem við erum í. Eins og stundum áður er þar svolítil mótsögn. T.d. stendur framarlega að verkalýðsfélögin séu nýstaðin uppfrá gerð kjarasamninga og einstaka verkalýðsforingjar (ekki ólíklegt að þar sé átt við undirritaðan; sjá nýlegan pistil) hafa sett fram þá kröfu að ríkið komi til skjalana og tryggi samningana, og höfundur segir að það sé auðvitað fullkomlega óraunsætt.

Tveimur dálksentimetrum aftar er fjallað um erfiðastöðu ríkistjórnarinnar og höfundur veltir fyrir sér hvort ríkistjórnin, þá sérstaklega Samfylkingarhluti hennar komi til með að ráða við væntanleg verkefni. Ríkisstjórnin eigi eftir að standa frammi fyrir kröfum frá verkalýðshreyfingunni um einhverjar aðgerðir til að tryggja umsamdar kjarabætur og hún eigi eftir að gera kjarasamninga við ríkisstarfsmenn sem hafi lýst því yfir að þeir vilji ekki semja til langs tíma.

Síðan kemur sú klassíska skýring hvernig Davíð hafi bjargað málunum þegar hann komst til valda 1991. Höfundur segir réttilega að það séu allmargir við stjórn fyrirtækja í dag sem ekki muni þá stöðu sem var upp 1967.

Það þarf svo sem ekki að fara mjög langt aftur til þess að rifja upp niðursveiflur. Flestir sem nú eru við stjórnvölin í verkalýðshreyfingunni komu fram á sjónarsviðið undir stjórn Ásmundar Stefánssonar og ruddu nýjum vinnubrögðum leið í kjölfar inngöngu í Evrópska efnhagssvæði í samvinnu við þáverandi forystu samtaka atvinnulífsins. Við sem vorum í þeim hóp munum vel afstöðu margra ráðandi stjónmálamanna þá.

Einhverra hluta vegna virtust valdastólarnir verða þeim svo kærir að þeir snéru af leið og það er helsta ástæða þeirrar stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í nú, auk afskiptaleysis þeirra af hátterni bankanna undanfarin ár.

Þáverandi aðilar vinnumarkaðs hófu með gerð Þjóðarsáttar markviss afskipti að efnahagstjórn. Ef litið er yfir farinn veg síðan þá blasir við að í hvert skipti síðan þá hafa þeir við gerð kjarasamninga sett stjórnvöldum ákveðin skilyrði um að stjórnin verði að grípa til ákveðinna aðgerða til þess að tryggja stöðugleikann. Sama hefur verið upp á teningunum við árlega endurskoðun kjarasamninga og eins við undirbúning og gerð nýgerðra samninga, eins og líklega hvert mannsbarn man, enda svo stutt síðan.

Sjálfsagt muna flestir hvað var efst á baugi í umræðum aðila vinnumarkaðs í lok nóvember síðastliðnum þegar sett voru fram samningsmarkmið. (Hér er vísað til pistla sem voru birtir hér í desember og byrjun janúar.) Nýta það þrönga svigrúm sem nú væri til þess að hækka lægstu laun nú og betur settir launamenn sættu sig við til þess að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja betur þann kaupmátt sem menn hefðu náð. Krafist var tiltekinna aðgerða ríkisins, en það tók reyndar alllangan tíma og tafði samningsgerð um einn og hálfan mánuð.

Það er ástæða að benda á það að þeir samningar sem gerðir voru nýverið eru til eins árs. En það eru framlengingar möguleikar í þeim til tveggja ára til viðbótar. Það hefur þegar verið rætt meðal þeirra sem tóku þátt í því að móta og ná fram þjóðarsáttinni á sínum tíma og skópu þá stöðu að þvinga fram samstöðu stjórnvalda um gerð hennar, að það virðist stefna í að næsta vetur verði menn að grípa til sömu ráða. Það er að segja ef stjórnvöld ætla að halda áfram á þeirra ófremdarleið sem hún hefur verið á.
Hvers vegna stefnir í að allir kjarasamningar verði lausir eftir um það bil eitt ár? Ekki bara tæpur helmingur eins og var nú í desember. Það er ljóst að nokkrir þungaviktarmenn þar á meðal í forystu Sjálfstæðisflokksins eru búnir að átta sig á hvert stefni og tala um nauðsyn þess að setja upp vegvísa til þess að ná þeim markmiðum sem við verðum einfaldlega að stefna að.

Markmið sem forysta sjálfstæðismanna setti sér fyrir 20 árum síðan en gleymdu af einhverjum ástæðum eins og ég kom að hér framar.

Engin ummæli: