miðvikudagur, 12. mars 2008

ASÍ 92 ára


Í grein í Dagskrá árið 1896 um "Félagsskap verkamanna" hvatti Einar skáld Benediktsson til þess að stofnuð yrðu verkamannafélög: ."Hér á landi eru slík samtök nær því óþekkt enn, og er þó auðsætt, að þau gætu komið að miklu gagni hér eins og annars staðar, ef þau aðeins væru sniðin rétt eftir öllum ástæðum lands og þjóðar. Sérstaklega gætu samtök verkamanna í Reykjavík hjálpað miklu til þess að bæta kjör hinna fátækari, starfandi borgarastéttar og jafnframt einnig aukið velmegun bæjarins í heild.

Þannig löguð samtök miða að því að varðveita einstakan verkamann eða iðnaðarmann gegn samkeppni eða undirboði stéttarbræðra sinna og um leið halda uppi réttu hlutfalli milli þess hagnaðar, sem vinnuveitandi hefur, og þeirra launa sem hann geldur fyrir vinnuna. Því meiri sem fátæktin er meðal verkamanna og því lægra sem allar vinnuafurðir eru metnar til peninga, því nauðsynlegri er þessi félagskapur og því meiru góðu getur hann komið til leiðar.


Ef verkamennirnir færu að halda saman mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju sem þeir vinna nú að ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annarsstaðar í heimi".


Saga verkalýðshreyfingarinnar hér á landi hófst í raun þegar skútukarlafélagið Báran var stofnað árið 1894. Fyrr það ár höfðu eigendur þilskipa stofnað með sér Félag útgjörðarmanna við Faxaflóa. Aðalforgöngumaður þess var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, en hann hafði þá nýverið beitt sér fyrir því að keyptir voru 8 stórir kútterar til Reykjavíkur.

Árið 1894 voru íbúar Reykjavíkur 4031, en 9797 árið 1906 þegar verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað. Úr vexti bæjarins dró árið 1908 en aftur tók hann kipp árið 1911 og var fólksfjöldinn orðinn liðlega 14.000 í ársbyrjun 1916. Árin 1906-1908 voru gróskuár í upphafi verkalýðshreyfingarinnar.

Sunnudaginn 12. mars árið 1916 var stofnþing ASÍ og Alþýðuflokksins sett í Bárubúð. Fjöldi stofnfélaga var um 1500. Þingið setti Jónas frá Hriflu. Hann var leiðandi maður í samningu stefnuskrár ASÍ og Alþýðuflokksins. Honum er eignuð sú hugmynd að gera þessi tvenn samtök að einni félagslegri heild, en svo var allt til ársins 1940. Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kjörinn fyrsti forseti ASÍ.

Verkamenn unnu stórsigur í bæjarstjórnarkosningum árið 1916. Þessi óvænta uppákoma kom eins og köld vatnsgusa yfir borgarastétt Reykjavíkur. Morgunblaðið sagði frá úrslitunum: "Verkamannahreyfingin hér í bæ minnir á kvennahreyfinguna hér um árið, fer geyst á stað og endar með deyfð og áhugaleysi. Öðru vísi getur ekki farið vegna þess að byggt er á óeðlilegum grundvelli. Það er verið að reyna að æsa verkamenn til stéttarrígs, sem hér hefur ekki þekkst áður, og er það illt verk og óheiðarlegt, getur engu góðu komið til leiðar, en mörgu illu. En vér trúum því að alþýða hér hafi svo næma dómgreind að hún sjái villuna áður en í óefni er komið".

Löngun manna til þess að verða sjálfs sín herra var mikil. Menn vildu öðlast frelsi til þess að afla tekna með eigin vinnuafli og njóta afraksturs vinnu sinnar. Margar lýsingar eru til um vinnutíma verkafólks í Reykjavík áður en verkalýðsbaráttan hófst.

Þetta birtist í Ísafold árið 1889:"Í Reykjavík og víðar í verslunarstöðum gengur sama óreglan, að daglaunamenn verða að vinna hjá kaupmönnum óákveðinn vinnutíma og þar á ofan er þar beitt allmikilli hörku, ég vil segja harðýðgi við verkamennina; verða þeir að vinna frá því snemma á morgnana, stundum frá því stundu fyrir miðjan morgun (þ.e. kl. 5.00) til kl. 22.00 á kvöldin; og þar við bætist, að þeir fá engan ákveðinn tíma til að neyta matar, heldur verða nærri því að stelast til að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur eða siðlausir mannsmenn. Skyldi í nokkrum höfuðstað nokkurs lands vera farið þannig með menn sem eru frjálsir í orði kveðnu? Og á ekki hingað rót sína að rekja sljóleiki sá og hugsunarleysi, deyfð og doði, sem gjörir daglaunamenn almennt svo vanafasta og framtakslausa?"

Á þessum árum var hin alræmda "milliskrift" í algleymingi, þ.e. að vinnulaun voru aldrei greidd í peningum, heldur eingöngu í vörum, er reiknaðar voru hærra en peningaverðið var.

Þjóðólfur komst svo að orði um þessi mál í 32. árg., 180. tbl.: "Hið sanna er, að verstu ævi í þessum höfuðstað vorum eiga gamlir þægir útigangshestar og þar næst gamalt, heilsulaust kvenfólk, sem félaust og munaðarlaust er að reyna að hafa ofan af fyrir sér".

Haraldur Guðnason segir í Vinnunni árið 1945 um "Kjör verkafólks á Íslandi á 19. öld"; "Árið 1870 var hæsta vinnumannskaup á Suðurlandi 48 kr. og auk þess fjögur föt og kindafóður. Sumir vinnumenn sunnanlands höfðu hálfan hlut sinn um vetrarvertíðina í árskaup. Þóttu það hin mestu kostakjör, ef skipsrúm voru góð og miklu betra en 48 kr. Í hlut vinnuveitandans féll svo hálfur vertíðarhluturinn og vinna verkamannsins allt árið utan vertíðar. Vinnukonukaup var 16 kr. á ári að meðaltali eða 12-20 kr., auk 3-4 föt og kindafóður eitt. Kaup norðanlands var svipað víðast hvar.

Verkafólk 19. aldarinnar hafði ekki kosningarétt og konur ekki heldur, þótt húsfreyjur væru. Kosningarétt höfðu einungis búendur. Að vísu höfðu tómthúsmenn kosningarétt, en til þess að öðlast hann, urðu þeir að greiða 6 ríkisdali í útsvar. Með öðrum orðum: eignin hafði kosningarétt. Árið 1855 voru 140 tómthúsmenn í Reykjavík. 6 þeirra greiða 6 rd. í útsvar, 134 eru réttlausir á vettvangi landsmálanna. Árið 1847 var kosningaréttur bundinn við 10 hundraða fasteign. Þá höfðu jafnvel sumir embættismenn ekki kosningarétt, ef þeir áttu ekki áskilda eign."

Pétur Pétursson verkamaður giftist árið 1909 og fór að búa í litlu herbergi með eldunarplássi á Hverfisgötunni. Hann sagði: "Um leið hóf ég þunga göngu sem stóð óslitið í 4 ár og verður mér ógleymanleg eins og ég hugsa að fari fyrir öllum sem hana hafa orðið að þreyta. Ég gekk um eyrina í Reykjavík og snapaði eftir vinnu; elti alla þá, sem höfðu yfir einhverri vinnu að segja, og þá fyrst og fremst verkstjórana. Þarna var ég nafnlaus verkamaður í stórum hóp nafnlausra verkamanna. Ef mér tækist ekki að fá eitthvað að vinna í dag, fengjum við ekkert að éta á morgun. Og allir vorum við undir sömu sökina seldir. Þetta var erfitt líf og niðurlægjandi. Ég fór oft að heiman frá mér án þess í raun og veru að nokkuð væri til á heimilinu; fór eldsnemma morguns og rölti um eyrina, gægðist inn í pakkhúsin og elti verkstjórana. Mjög oft fékk ég ekkert að gera. Gangan heim var þá oft mjög þung en léttari var hún ef manni hafði tekist að næla sér í ýsu á leiðinni heim. En þegar manni tókst að fá eitthvað að gera, virtist manni lífið blasa við, fagurt og heillandi"

1 ummæli:

Gísli Baldvinsson sagði...

Svo það sé á hreinu:
Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kosinn forseti sambandsins, varaforseti varð Ólafur Friðriksson og Jón Baldvinsson ritari. Gegndu þeir
þessum embættum þar til haldið var fyrsta reglulega þing ASÍ síðar sama ár. Þá tók Jón Baldvinsson við sem forseti og Jónas Jónsson frá Hriflu tók við embætti ritara.
-
Þannig er Jón Baldvinsson talinn fyrsti starfandi forseti ASÍ