mánudagur, 24. mars 2008

Aukning á alvarlegum slysum á byggingarstöðum

Vaxandi fjöldi byggingarmanna í vestur hluta Evrópu kemur frá löndum eystri hluta Evrópu eða frá löndum utan álfunnar. Þekking þessa fólks á aðstæðum og tækjum er oft töluvert ábótavant. Starfsmenn stéttarfélaganna hafa gagnrýnt fyrirtækin og ekki síður það opinbera að gera öllum nýjum launamönnum á vinnumarkaðnum að sækja öryggisnámskeið áður en þeir hefja störf.

Á Bretlandseyjum hafa undanfarið ár orðið tvö dauðaslys á byggingarstað í hverri viku, auk fjölda slysa sem leiða til langvarandi veikinda eða örkumlum. Fórnarlömbin eru í yfirgnæfandi meirihluta bláfækir launamenn frá fjarlægum löndum.

Rannsóknir hafa sýnt að í 90% tilfella hefði mátt komast hjá þessum slysum. Viðkomandi fyrirtæki höfðu ekki kynnt starfsmönnum sínum einföldustu öryggisatriði, í nokkrum tilfellum jafnvel fjarlægt viðvörunarbúnað. Oft er erlendum starfsmönnum gert að vinna við aðstæður sem eru fjarri öllum lágmarkskröfum og lög og reglur vísvitandi þverbrotnar til þess eins að standast tímakröfur um hraða uppbyggingar.

Starfsmenn stéttarfélaga hafa bent á að yfirvöld taki drukkna ökumenn og ökuþóra föstum tökum valdi þeir slysum með athæfi sínu, en láti þetta framferði athugasemdalaust.

Í Bretlandi og Írlandi hafa stéttarfélög krafist þess að sambærileg lagaákvæði verði látin ná yfir verkstjóra eða forsvarsmenn fyrirtækja, sem verða uppvísir að fara vísvitandi ekki að reglum um öryggisbúnað um aðbúnað starfsmana sinna. Það eina sem gerist er að dagblöðin fjalla um slysin og birta viðtöl við ekkjur eða föðurlaus börn og ömurlega stöðu þeirra.

Ef trúnaðarmaður eða forsvarsmaður stéttarfélags fer í fjölmiðla og bendir á hvað hefði í raun farið úrskeiðis og valdið slysinu, þá er hann umsvifalaust dregin fyrir dómstóla og sakaður um meiðyrði og dæmdur til að greiða svimandi háar sektir. Það er bannað að segja sannleikann um dólgana.

Þetta könnumst við vel við hér á landi, oft hafa lögmenn eða blaðafulltrúar fyrirtækja sem hafa setið undir ásökunum frá trúnaðarmönnum þurft að sitja undir alvarlegum ávirðingum í fréttatímum Sjónvarpsins.

Hinir raunverulegu sakamenn búa í skjóli dómara og slakra stjórnmálamanna. Í blóðugri slóð dólganna liggja látnir eða örkumla menn, örvæntingafullar fjölskyldur sem hafa misst alla framfærslu og eina úræði þeirra er að senda börnin til dólganna og biðja þá auðmjúklega um vinnu, sama hver launin eru og hvaða aðstæður þeim eru búnar.

Frjálshyggjan leiðir okkur lengra inn á slóðir villta vestursins. Fari launamaðurinn fram á völlinn og mótmæli, er hann úthrópaður sem æsingamaður með skrílslæti af stjórnvöldum.

Engin ummæli: