Og svo komu páskarnir með venjubundinni spurningakeppni Ævars og maður varð enn einu sinni svo undrandi yfir því hvers vegna fréttamenn vissu ekki hvað hefði staðið á blaðsíðu 2 og 3 í blöðunum, en voru svo aftur á móti alveg klárir á atriðum sem ekki höfðu verið í blöðunum.
Fórum í sumarbústað bænadagana. Samfara vinnu við að ljúka frágangi við nýja bústaði hitti maður menn úr sveitinni. Svo mikið á jörðinni og með staðgóða þekkingu á hvað væri að gerast í þjóðfélaginu og nákvæmari skilgreiningar en koma fram í spallþáttunum með stjórnmálamönnunum, sem eru fyrir löngu fluttir til Reykjavíkur og búa þar í einangruðu samfélagi. Slitnir í samvistum við fólkið í landinu.
Farið í heitu pottana að loknum vinnudegi og horft í stjörnurnar og á norðurljósin. Svo hressandi að fá kaldan gustinn í kollinn áður en sest var að spilum. Manni rúllað upp, en hvað á maður að gera svo mikið lélegri en hinir.
Vitanlega kom páskahretið og rokið, en svo birti til og föstudagurinn langi bauð upp á frábært færi til langrar skíðagöngu í Hverahlíðum Hellisheiðar milli orkumikilla borholna Orkuveitunnar og til Skálafells þar sem útsjón er svo glæsileg yfir Suðurlandið.
Umhugsunarvert hversu umsvifamikil svæði er búið að leggja undir borholur, vegi og pípulagnir. Mikið stærra svæði en fer undir eitt uppistöðulón.
Heimildarmynd Þorsteins Jónssonar um Ástþór Skúlason bónda á Rauðasandi var áhrifamikil og grípandi. Sagði manni í hverju myndskeiðinu á fætur öðru hversu litla reynslu við höfum sem erum fullfrísk og höfum báða fætur.
Tek mörgum sinnum ofan fyrir Ástþór. Alþýðuhetja sem á skilið allar Fálkaorðunar sem veittar verða á þessu ári.
Séu menn að leita eftir mótframboði við Ólaf Ragnar þá er Ástþór rétti maðurinn. Hann myndi rúlla Ólafi upp án þess að flytja eina einustu kosningaræðu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli