laugardagur, 8. mars 2008

Verðum að taka til

Það er hárrétt sem Össur og Þorgerður sögðu í gær um aðild að Evrópusambandinu kallar á tiltekt. Þetta eru reyndar ekki ný tíðindi, það hefur lengi legið fyrir að staða efnahagsmála hér sé með þeim hætti að uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru. Það er ekki öfugt eins og sumir stjórnarþingmenn hafa haldið fram.

Sú mikla velgengni sem stjórnvöld hafa haldið fram að sé árangur góðrar efnahagsstjórnar, er byggð á sandi ofboðslegrar skuldsetningar og það verður ekki gengið lengra á þeirri braut. Reyndar er það einnig svo að heimilin verða einnig að taka til hjá sér og það er þörf á viðhorfsbreytingu. Það er sama hvert farið er í Evrópu, maður upplifir ekki þar þessa miklu fyrringu og hömlulausu eyðslu og skuldsetningu.

Aðilar atvinnulífsins hafa ítrekað bent á þann óstöðugleika sem stefna stjórnvalda kalli yfir Ísland og það verði að bæta stöðu heimilanna og fyrirtækjanna. Það er óneitanlega dáldið einkennilegt að heyra það fyrst nú frá leiðandi stjórnmálamönnum, að það þurfi tiltekt.

Sé litið til skoðanakannana þá blasir við að það er álit vaxandi fjölda íslendinga, að kolröng efnahagsstjórn, reyndar frekar afskiptaleysi stjórnvalda af þróun efnahagsmála, sé helsta forsenda þeirrar stöðu sem við erum í.

Tiltekt mun opinbera þessa stöðu og þá um leið hversu fráleit rök hafi verið viðhöfð þegar Evrópusambandið hefur borið á góma.

Umræðan um ESB og Evru er ekki flótti frá vandanum. Það er verið að krefjast þess að stjórnmálamenn horfist í augu við þann vanda sem þeir hafa skapað með rangri efnahagsstjórn og tekist verði á við hann. Við ættum ef rétt hefði verið haldið að spilunum að vera á lokastigi tiltektarinnar og við hefðum heldur ekki farið svona illilega út af sporinu.

Engin ummæli: