sunnudagur, 2. mars 2008

Lögbrot að segja sannleikann

Í nokkrum tilfellum hefur verið vitnað til deilu starfsmannaleigu við mig vegna ummæla og dóms vegna þeirra og síðar sýknu.

“Formaður Rafiðnaðarsambandsins var dæmdur til að greiða forsvarsmönnum starfsmannaleigu 1,5 milljón króna í miskabætur og málskostnað. Hann hafði látið hörð orð falla um vinnubrögð fyrirtækisins 2B í garð pólskra verkamanna við Kárahnjúka. Hann hafði reynt að gæta hagsmuna lítilmagnans, sem fyrirtækið hafði fótum troðið. Dómurinn fylgir nýjum sið íslenzkra dómstóla að dæma háar fébætur fyrir meiðyrði og brot á persónufrelsi. Þessir misvitru dómar munu smám saman draga úr gegnsæi þjóðfélagsins, efla fasisma og leiða vandræði yfir þjóðfélagið.” jonas.is

“Guðmundur Gunnarsson var dæmdur fyrir sönn ummæli um starfsmannaleigu sem níddist á útlendingum. Það má semsagt fara illa með Pólverja en það er lögbrot að segja frá því.”Dofri Hermannsson

Hæstiréttur sýknaði flestar ómerkingar Héraðsdóms, í nokkrum tilfellum voru það fullyrðingar blaðamannanna sem tóku viðtalið sem Héraðsdómari hafði dæmt ómerk, ekki mín.

En eftir stóðu í niðurstöðu Hæstaréttar svör mín við spurningum blaðamanns um fundargerð fundar sem aðaltrúnaðarmaður hélt með pólverjunum á svæðinu. Þar kom m.a. fram að forsvarsmenn starfsmannaleigunnar hefðu hvatt verkstjóra á svæðinu að ganga í skrokk á pólverjunum, þeir væru vanir því frá heimaslóðum. Túlkur sem var á fundinum ásamt tveim verkstjórum á Kárahnjúkasvæðinu höfðu staðfest það fyrir Héraðsdómi að fundargerðin væri rétt.

Hæstiréttur taldi að þetta væri ekki fullsannað og taldi 250 þús. kr. væri hæfileg sekt. Eftir stendur spurningin ummæli hverra er Hæstiréttur að dæma ómerk.

Það er umhugsunarefni og reyndar einnig áhyggjuefni hvernig fréttamenn fjalla um svona mál. Hvers vegna fjalla þeir ekki um sína aðkomu?

Hvers vegna tóku fréttamenn langt viðtal við forsvarsmann starfsmannaleigunnar þar sem hann úthúðaði verkalýðshreyfingunni og starfsmönnum hennar, þegar dómur Hérðsdóms féll. En þegar Hæstiréttur fellir sinn dóm með sýknu í flestum atriðum og ath.s. við umfjöllun fréttamanna, er ekkert fjallað um þá niðurstöðu.

Í þessu tilfelli má benda á fjölmörg mál þar sem forsvarsmenn fyrirtækja og ekki síður lögmenn þeirra hafa viðhaft gífuryrði um starfsmenn stéttarfélaganna og borið á þá þungar sakir, þar fá þeir frían aðgang að Kastljósi og fréttum, en svo þegar það kemur síðar í ljós að starfsmenn stéttarfélaganna höfðu í einu og öllu rétt fyrir sér, þá er ekki minnst á það einu orði í fréttatímum.

1 ummæli:

Jón Garðar sagði...

Þörf orð í tíma töluð.

Jón Garðar