sunnudagur, 30. mars 2008

Ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum

Það á ekki að hafa komið neinum á óvart að það yrði niðursveifla þegar hinum miklu framkvæmdum fyrir austan lyki. Allir hagfræðingar landsins hafa boðað þetta frá upphafi framkvæmdanna eða í hartnær 5 ár.

Allir forsvarsmenn stærstu fyrirtækjanna ásamt hagfræðingum samtaka launamanna og fyrirtækja hafa í nokkur ár bent á að huga þyrfti að gjaldmiðlinum og peningastjórn.

Sveiflan er harkaleg og afleiðingarnar stefna í að verða mjög alvarlegar fyrir heimilin og fyrirtækin og allt stendur í ljósum logum. Krónan í frjálsu falli og skuldir heimilanna og fyrirtækja í flugferð upp á við ásamt vöxtum. Við blasir 20 – 30% hækkun á allri dagvöru og eldsneyti, samfara gríðarlegri skuldaaukningu og hækkun greiðslubyrði.

Þá flytur forsætisráðherra ræðu um að það sé þörf að fá erlenda sérfræðinga til þess að skoða málið. Einnig hefur verið tekin ákvörðun um að Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar haldi sinn fyrsta fund í næstu viku.

Ef þeir sem hafa farið með stjórn efnahagsstefnu landsins hefðu tekið á þessum málum af ábyrgum hætti strax þegar þeir lögðu af stað með framkvæmdirnar fyrir austan þá værum við í allt öðrum málum.

Ábyrgðin liggur ekki hjá einhverjum sem hafa nýtt sér ástandið til þess að hagnast undanfarnar vikur. Hún liggur hjá þeim sem hafa farið með stjórn þessara mála. Þeir eru hinir sömu allt frá árinu 1992.

Reyndar liggur fyrir að þeir boðuðu við upphaf þessa tíma að einungis væri ein leið fær, en einhversstaðar á leiðinni hafa þau markmið týnst.

Og öllum byrðunum er velt yfir á almenning.

Engin ummæli: