Á undanförnum misserum hafa prófessorar í Háskóla Íslands ítrekað bent á það með mjög góðum rökum að skattbyrði tekjuminna fólks hafi hækkað hér á landi á meðan skattbyrði tekjuhárra hafi lækkað.
Þetta hafa hagfræðingar verkalýðshreyfingarinnar staðfest og t.d. hefur sú krafa verið ofarlega hjá stéttarfélögunum að ríkisstjórin leiðrétti barnabóta- og vaxtabótakerfin. En ríkisstjórnin lét skerðingarmörk vera óbreytta í krónum talið og lækkaði bætur í þessum kerfum um nokkra milljarða á síðustu árum. Sama gilti um persónuafslátt.
Þetta var að nokkru leiðrétt í nýgerðum kjarasamningum og ætti að koma til framkvæmda fljótlega þar sem launamenn eru búnir að samþykkja samningana .
Þessum ábendingum var svarað með miklum þjósti af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni í fyrra og bornar kostulegar sakir á þá voguðu sér að vera þeim ekki sammála. Menn kynnu ekki að reikna, eða væru einhver Dyrhólagimpi og hvað það var nú allt saman sem þeir létu svo smekklega frá sér fara.
Í umfjöllum um skattabreytingar sem voru til umræðu við gerð kjarasamninganna kom fram hjá fyrrv. skattstjóra að þetta væri rétt og skattbyrði hjá hinum tekjulægri hefði aukist um 7% í samnsburði við skatta hinna tekjuhærri.
Nú hefur OECD staðfest þetta. En þrátt fyrir það er fjármálaráðherra með kostulega útúrsnúninga í fréttum þegar hann er spurður út í þetta. Það er ekki hægt annað en velta því fyrir sér hver stærðfræðikunnátta hæstvirts fjármálaráðherra sé. Svo notuð séu hans eigin orð.
Er útilokað að fá vitræna umræðu frá íslenskum stjórnmamönnum?
2 ummæli:
Réttara væri að segja að skattbyrði þeirra "tekjuhæstu" hafi lækkað.
Það er náttúrulega alveg hrikalegt að tekjur fólks hækki. Þá náttúrulega hrekkur persónuafslátturinn skemur og skattbyrðin eykst.
Þarftu ekki að skoða dæmið aðeins aftur, Guðmundur?
Skrifa ummæli