sunnudagur, 30. mars 2008

Tilraun til sátta


Undanfarna daga hefur heyrst frá nokkrum stjórnarþingmönnum að þörf sé að ná nýrri Þjóðarsátt til þess að koma skútunni á réttan kjöl.

Á sama tíma og þeir hafa beint þessum orðum til almennra launamanna hafa þeir verið að ráða til sín aðstoðarmenn og fjölga skrifstofum. Reksturskostnaður Alþingis hefur hækkað um liðlega milljarð á stuttum tíma. Þar til viðbótar hafa þingmenn með stjórnarþingmenn í broddi fylkingar þvertekið fyrir að endurskoða hin alræmdu eftirlaunalög.

Almennir launamenn stigu fram fyrir skjöldu og gerðu nýverið mjög ábyrga kjarasamninga sem höfðu það að markmiði að stuðla að lækkun verðbólgu, sem aðgerðaleysi stjórnarþingmanna hefur gert að engu á nokkrum vikum.

Af framansögðu er kannski ekki einkennilegt að Ingibjörg Sólrún stígi nú fram og reyna að ná sáttum við launamenn og segi m.a.: “Fátt hefur mælst eins illa fyrir hjá íslenskum almenningi og sú ákvörðun Alþingis í desember 2003 að bæta eftirlaunarétt ráðherra og þingmanna og auka þannig bilið sem er milli þeirra og almenns launafólks. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um að breyta réttindum þeirra eftirleiðis til samræmis við það sem almennt gildir hjá ríkisstarfsmönnum. Ég tel mikilvægt að Alþingi taki á þessu máli og reyni að leiða það til lykta fyrir þinglok.”

Engin ummæli: