þriðjudagur, 11. mars 2008

Afgreiðsla kjarasamninga


Það gilda svoköllið Pálslög um gerð kjarasamninga. Þar segir að þegar ekki er lengra komist í Karphúsinu verði að bera fyrirliggjandi samningsdrög undir þá félagsmenn sem þiggja laun samkvæmt viðkomandi kjarasamning. Sama gildir um þau fyrirtæki sem eiga að greiða þau laun sem samið er um.

Það er niðurstaða þessara kosninga sem ákvarða hvort samningsdrögin taki gildi. Það er ekki samninganefnd stéttarfélaganna sem tekur þessa ákvörðun, eins og allmargir sem fjalla um kjarasamninga virðast halda.

Sumir taka þannig til orða, oftast stjórnmálamenn, að það sé viðkomandi stéttarfélag sem einhendis geri kjarasamninga við sjálft sig og það sé samninganefnd viðkomandi stéttarfélagi til skammar hversu lág laun hún semji um.

Hér eru stjórnmálamenn að lýsa eigin vinnubrögðum, sem með sjálftöku lagfæra eigin laun, eins og mikið hefur verið rætt að undanförnu. Þeir hafa svo að auki tekið sér það vald að hafna kröfum skattgreiðenda með því að beita fyrir sig kerfisköllum sem eru settir sem formenn nefnda.
Steininn tekur svo úr þegar aðalkerfiskall Alþingis mætir í fjölmiðla og hreykir sér af því hversu mörgum óþægilegum málum honum hafi tekist að stinga undir stól og sendir landsmönnum tóninn með sínu einstaklega hrokafulla orðalagi eins og „Auðvitað er .....“, „Augljóst er....“, „Vitanlega sjá allir...“, "Það þarf ekki að ræða það frekar......."

Það er eins og sumir telji að stéttarfélögin starfi í sama umhverfi og þeir. Atkvæðagreiðsla félagsmanna skipti engu, þó svo þeir hafi nú sjálfir sett umrædd lög um hvernig eigi að framkvæma þær. Ætla má sé litið til orða þeirra að formaður viðkomandi stéttarfélags leggi fyrir forsvarsmenn fyrirtækjanna tilbúinn kjarasamning og þau samþykki hann umyrðalaust.

Ef félagsmenn samþykkja samningin er málið dautt, eins og menn segja í dag. Þá eru stéttarfélögin bundin friðarskildu til næstu samninga. Ef félagsmenn aftur á móti fella samningsdrögin, þá fyrst geta samninganefndarmenn leitað eftir verkfallsheimildum eða öðru til að þrýsta á um að ná lengra.

Kjarasamningar voru hér á árum áður ætíð afgreiddir á félagsfundum með handaruppréttingu. Sem leiddi til þess að oftast var verið að afgreiða kjarasamninga með ákaflega lágu þátttökuhlutfalli og sá fjöldi fór sífellt lækkandi. Enda fólk ekki duglegt við að sækja þannig fundi.

Í framangreindum Pálslögum var tekið á þessu máli og sett það skilyrði að ef kjarasamningur væri afgreiddur á félagsfundi þá urðu að vera amk 20% sem greiddu atkvæði, ef þátttaka var undir því skoðast samningurinn samþykktur sama hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er.

En ef kjarasamningur er afgreiddur með allsherjar póstatkvæðagreiðslu þá gildir einfaldur meirihluti.

Þeir samningar sem nú er verið að afgreiða snúast um að hækka lægstu laun sérstaklega. Það virðist vera svo að þeir fjölmörgu sem ekki eru að fá launabreytingar nú vegna þessa, vilji ekki taka þátt í kosningum um samningana. Þetta sé aðgerð sem þeir vilja ekki skipta sér að.

Reyndar er það svo að það er verið að afgreiða óvenjuleg mörg atriði sem hafa staðið deilur um á undanförnum árum, enda eru kjarasamningarnir allmargar blaðsíður og munu marka tímamót í nokkrum málum.

Engin ummæli: