fimmtudagur, 1. maí 2008

1. maí og stakir frídagar

Fyrir 3 árum lagði ég fram tillögur um að stéttarfélögin í Reykjavík endurskoðuðu fyrirkomulag hátíðarhaldanna 1. maí og færðu þau yfir í svipað form er er gert annarsstaðar á landinu. Ég benti á að tilltölulega fáir launamenn mættu í kröfugönguna og ýmsir öfgahópar væru þar jafnvel meira áberandi. Á sama tíma bjóða stéttarfélögin til fjölskylduhátíða í öllum stærstu veitingasölum borgarinnar og þar er fullt út úr dyrum. Þangað mæta margfallt fleiri en í kröfugöngunni.

Mín tillaga var að stéttarfélögin legðu undir sig Laugardalinn, þangað væri stormað í mikilli göngu. Börnum boðið í húsdýragarðinn, frítt í laugarnar og á skauta. Stéttarfélögin kynntu starfsemi sína í Laugardalshöllinni, þar væri boðið upp á léttar veitingar, samfara því væri boðskap 1. maí komið á framfæri ásamt því að fá topplistamenn til þess að taka lagið. Með þessu myndum við koma sjónarmiðum okkar til mun stærra hóps.

Það verður að segjast eins og er að ég var nánast tekinn af lífi fyrir að hafa hafa orðað þetta. Þá sérstaklega hjá Ögmundi Jónassyni og hans fólki bæði á hans heimasíðu og eins á Múrnum, sem mér þótti reyndar leiðinlegra vegna þess að ég mat Múrinn alltaf mikils.

Það örlaði ekki á málefnanlegri umfjöllun hjá Ögmundi og hans fólki. Persónulegar svívirðingar ásamt því að mér voru gerðar upp allskonar skoðanir m.a. að ég ætlaði að eyðileggja gjörvalla baráttu stéttarfélaganna og leggja 1. maí niður. Ekkert af því sem Ögmundur hans fólk hélt fram hafði ég sagt.

Í sinni einföldustu mynd þá hefur samskonar fyrirkomulag verið í nánast öllum stærri sveitarfélögum á Íslandi. Gengið er nokkurn spotta í viðkomandi sveitarfélagi og farið í íþróttahús bæjarins þar sem boðið er upp barátturæðu, skemmtiatriði og tónlist ásamt kaffi og með því. Ég nennti ekki að eltast við Ögmund og félaga, enda var hann að fjalla um allt annað en ég lagði til.

Ég er reyndar sannfærður um að tillaga mín mun í einu eða öðru formi ná fram að ganga. T.d. var mér bent á það um daginn að eitt af aðildarfélögum BSRB hefði stungið upp á því að reysa risavaxið sirkustjald á hafnarbakkanum 1. maí.

Stakir frídagar
Samfara 1. maí tillögunni lagði ég til að hinir stöku fimmtudagsfrídagar sem eru á vorin væru fluttir að helgum eins og búið er að gera í allmörgum löndum. T.d. á drottningin í Englandi alltaf afmæli á mánudegi, en það er löghelgur frídagur í því landi. Stundum halda menn fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt.

Ég lagði til að það mætti t.d. taka upp samskonar fyrirkomulag og er í sumum kjarasamninga rafiðnaðarmanna á hinum norðurlandanna, að setja þessa frídaga við þjóðhátíðardag þannig að þá yrði alltaf a.m.k. þriggja daga helgi. Ef 17. júní væri á fimmtudegi þá væri frí á föstudag líka, ef hann væri á þriðjudegi væri frí á mánudegi og ef hann lenti inn á helgi þá væri frí á mánudag. Ef hann lenti á miðvikudegi þá væri frí fimmtudag og föstudag. Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er bæði fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta.

Í þessu sambandi má einnig benda á að í mörgum landa er alltaf frí á mánudag lendi löghelgur frídagur inn á helgi, t.d. nýársdagur eða 1. maí. Nú erum við að tapa einum frídegi þar sem 1. maí er líka uppstigningardagur.

Ég ætla ekki að lýsa því hvaða kveðjur ég fékk fyrir þessar tillögur. En það er nefnilega hægt að skapa fleiri fjölskylduhelgar með því sem við erum með í dag.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góðar tillögur hjá þér. Ég held nú að við myndum frekar mæta á samkomu í Laugardalnum en á Laugarvegin. En svona er þetta, ótrúleg íhaldsemi hér á landi.

Hvernig er það annars, er engin barátta í fólki hérna? Við erum nýkomin frá Danmörku og erum alveg kjaftstopp hvað fólk lætur bjóða sér! Svo ekki sé nú talað um það að það var með eindæmum slæm hugmynd að flytja aftur á klakann eftir námið. Erum alvarlega að íhuga að fara bara aftur út.

Kveðja Agnes

p.s. frábært blogg hjá þér

Nafnlaus sagði...

þetta er hárrétt hjá þér Guðmundur það er furðulegt að ekki skuli meiri umræða um þetta hjá verkalýðsforustunni.
Þessir stöku frídagar nýtast illa og við ættum að líta til grannþjóða okkar í þessum efnum ekki alltaf að vera basla að finna upp hjólið

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Er ekki tilvalið að setja hér inn tengilinn á greinina á Múrnum sem þér sárnaði svo mjög - og segir að hafi ekki örlað á málefnalegri gagnrýni í? Þá geta lesendur dæmt sjálfir: http://murinn.is/eldra_b.asp?nr=1556&gerd=Frettir&arg=6