Einstaklega vönduð stjórnsýsla er sú einkunn sem viðskiptaráðherra gefur sjálfum sér og ríkisstjórninni. Þrátt fyrir að það blasi við að undanfarin ár hefur fjöldi aðila bent henni á að efnahagstjórnin sér ekki ásættanleg og mig minnir reyndar að núverandi viðskiptaráðherra hafi verið í þeim hóp og líklega fengið drjúgan hluta sinna atkvæða sakir þess málflutnings. Þessar vikurnar eru við að fá staðfestingu á að þessar ábendingar voru réttar. Það er að bitna á heimilum þessa lands ásamt fyrirtækjum í verktaka- og byggingariðnaði og er undirrtót mótmæla verktaka á flutningabílum. Seðlabankastjóri og höfundur efnahagsstefnunnar viðurkennir loks í gær að það geti orðið alvarlegt ástand næstu 2 árin.
Efnahagsmistökin eru fólgin í því að bönkunum var sleppt lausum inn á byggingamarkaðinn og þennslan nýtt til þess að halda genginu háu. Ríkisstjórnin setti upp fölsuð leiktjöld um velgengni í efnhagsmálum og duldi almenning stöðunni með falinni verðbólgu . Öll munum við svör forvarsmanna stjórnarflokkanna í síðustu kosningabaráttu og hvernig þeir hreyttu ónotum í þá sem bentu á að ástandið væri ekki með þeim hætti sem ríkisstjórnin vildi að við trúðum.
Allt frá áramótum hafa aðilar vinnumarkaðs farið fram á að tekið yrði á vandanum til þess að lágmarka skaðann. Þeir gerðu kjarasamninga með það að markmiði að undirbúa þá lækningu. En ríkisstjórnin hefur sýnt einstakt ábyrgðarleysi, og ekki látið ná í sig og fremur lagst í heimsreisur en taka á vandanum. Það var fyrst í þessari viku sem fundurinn var haldinn. Á fundinum gerðist ekkert annað en að það fram kom að ríkisstjórnin hafði ekkert gert, nákvæmlega ekkert.
Afleiðingar efnahagstefnunnar birtast í því að Ísland getur ekki fengið erlend lán nema með afarkostum og ríkisstjórnin virðist ætla að bíða þangað til ástandið verði þannig að lánskjör verði betri. Niðurstaða fundarins var að næstu mánuði verði vandinn kortlagður, bíddu augnalok er það ekki búið að liggja á borðinu undanfarna mánuði!! Forsætisráðherra vill að við kennum einhverjum í útlöndum um hvernig komið er fyrir íslensku efnahagslífi. En öll vitum við að svo er ekki nema að litlum hluta og þegar Ísland getur fengið lán á venjulegum kjörum þá er vandinn horfinn. Ef farinn er leið ríkisstjórnarinnar verður holskeflan óþarflega djúp og vandinn lendir á heimilunum. Þau verða látin fjármagna lausn vandans.
Vill viðskiptaráðherra að við álítum að sé einstaklega vönduð vinnubrögð? Þessi ummæli viðskiptaráðherra eru óheppileg og segja okkur að það er ekki að ástæðulausu að fylgið hrynur af Samfylkingunni. Grandalausir hafa ráðherrar þvælst um heiminn í veizluhöldum með ræðum um vandamálalausnir í öðrum heimsálfum og undirritun viljayfirlýsinga um lausn á þeim vanda.
Á meðan hefur almenningur hér heima fylgst því með hvernig leiktjöldin hafa fallið hvert af öðru og nakinn veruleiki efnahagsvandans blasir við. Það eru ummæli ráðherra Samfylkingarinnar að undanförnu sem valda því að Sjálfstæðisflokknum er enn einu sinni að takast að láta samstarfsflokk axla ábyrgð á efnahagsstefnu fyrri ríkisstjórna, jafnvel þó hann hafi ekki verið þátttakandi í því máli.
Þetta er leitt því viðskiptaráðherra og aðstoðarmaður hans hafa sýnt að þeir geta svo mikið meir.
1 ummæli:
Hver átti að hindra bankana í að koma inn á íbúðamarkaðinn?
Innkoma þeirra er afleiðing af því að þeir voru einkavæddir og þar með ekki lengur stjórnað af mjög mis-vitrum stjórnmálamönnum og svo stækkuðu þeir mikið og áttu þess vegna auðveldara með fjármögnun.
Má ekki jafnvel segja að þeir séu ekki nógu og stórir eins og þeir eru í dag, stærri bankar = auðveldara aðgengi að lánsfé.
Í öllum öðrum löndum eru það bankar en ekki opinberir sjóðir sem fjármagna húsnæði.
Hvers vegna ekki hér líka?
Skrifa ummæli