mánudagur, 12. maí 2008
Esjan
Hér sést hvar farið er af aðalleiðinni upp á Þverfellshornið og yfir á skógargötuna upp í Gunnlaugsskarð. Gengið er gegnum skóginn og síðan upp ásana upp í skarðið
Vilji maður ástunda útvist er nauðsynlegt að vera í þokkalegu gönguformi. Ganga eftir malbikuðum stígum eða skokk er fínt en það þarf að þjálfa fleiri vöðva, annars er hætta við harkalegum harðsperrum. Það er uppstigið sem kallar á lítt notaða vöðva og svo ekki síður niðurgangan, sem verður oft erfiði parturinn þegar gengið er á fjöll. Þá eru notaðir vöðvar á framanverðum lærum sem fá sjaldan notkun.
Skokkarar hafa sumir hverjir farið flatt á því að skella sér úr hlaupaskónum í gönguskónna. Hreyfingin er allt öðruvísi. Ónotaðir gönguskór, þó vandaðir séu, geta skafið af skinn á nokkrum kílómetrum. Sérstaklega ef maður er með bakpoka eða aðrar birgðar. Í sambandi við búnað er einnig ástæða að benda á að íslenskt veður getur skipt um skoðun á svipstundu og skellt sér úr sólkinsblíðu yfir í úrhellisrigningu, jafnvel slyddu sé maður fyrir ofan 500 m hæð. Þá verða bómullarbolir gegnblautir af svita að mannsdrápstækjum, verða eins og ísmolar og draga til sín feykilega alla orku. Bómullarbólir eru fín innanhústæki og til þess að pússa bílana þegar þeir eru bónaðir, en eiga ekkert erindi á fjöll.
Það getur verið freistandi að hlaupa við fót niður fjöllin, það kallar á gríðarlega áreynslu á hnjám og bíður heim mikilli hættu á langvinnum hnjámeiðslum, sem er algengasta fótamein gangara. Veljið frekar rólega göngu niður og notið stafi til þess að taka við hluta af niðurstigsátakinu. Stafir eru mjög gott tæki í göngur, með réttri notkun má flytja allt að 30% orkubrunans yfir á handleggi og brjóstvöðva. Einnig eru stafirnir góðir til þess að halda jafnvægi í ósléttri götunni og svo maður tali nú ekki um þegar stökkva þarf yfir læki.
Esjan er besta þjálfunarsvæði höfuðborgarbúa. Hún býður upp á alhliða þjálfun fyrir alla gönguvöðva. Reglulegar göngur auka þol, styrkja stoðkerfið og eyða með því bakverkjum. Æðakerfið og hjartað fær líka lífsnauðsynlega keyrslu. Sérfræðingar segja að göngur séu langbesta og árangursríkasta geðlyf sem fundið hefur verið upp, og fjallgöngur það hraðvirkasta. Flestar bækur um geðrækt byrja á því að benda fólki á að ef það vilji ná valdi á vandamálum hugans þurfi líkamsorku. Esjan er gjaldfrjáls og án virðisaukaskatts. Líkamsræktarstöð opin allt árið - allan sólarhringinn, eitt af því fáa sem ekki hefur verið skattlagt.
Þverfellshornið er 770 m hátt, nokkuð austar er Gunnlaugsskarð, vestan í Kistufellinu sem er 843 m hátt. Ef maður sleppir að klifra alla leið upp þá er farið í um 650 m. hæð.
Þverfellshorn Esjunnar er langalgengasta leiðin, enda góðar götur þar upp og fleiri en eina leið að velja. Þverfellshornið er skylduganga hjá allmörgum a.m.k. einu sinni í mánuði og sumir fara a.m.k. einu sinni í viku allt árið þegar fært er. Það er helst hálka efst í fjallinu sem hamlar ferð. Akureyringar hafa sínar Súlur og flestir bæir hafa sitt bæjarfjall.
Það er ekki nauðsynlegt að klifra síðustu metrana upp klettana í hverri ferð sem farin er á Esjuna. Sérstaklega ef ferðin er eingöngu til þjálfunar og aukins þols. Ég fer oftast bröttu leiðina upp og þegar komið er upp að Steini, fer ég niður hina leiðina og læt klettana eiga sig. Það er fínt að fara á vorin einu sinni í viku og taka svo 3 ferðir á viku þegar maður tekur lokasprettinn.
Þeir sem komast þennan hring án hvíldar á tíma innan við 2 klst. og er ekki aðframkomið að því loknu, er klárt í flestar algengar gönguleiðir þar með talið Hvannadalshnjúkinn. Ég hef farið þrisvar á Hnjúkinn, komst reyndar ekki alla leið í eitt skiptið, lentum í ofsaveðri þegar upp á hásléttuna var komið.
Skógargatan fyrir ofan Mógilsá er skemmtileg. Stafirnir góðu í forgrunni.
Mér finnst reyndar leiðin upp í gegnum skóginn upp í Gunnlaugsskarð skemmtilegust og fara svo eftir jeppaslóðanum þar uppfrá yfir í göturnar sem liggja á Þverfellshornið og þar niður.
En þessar leiðir nýtast ekki bara til þjálfunar fyrir fjallgöngur. Esjan býður upp á frábæra alhliða líkamsrækt, með góðri aftengingu frá amstri hvunndagsins í frísku fjallaloftinu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hlakka til að fylgja góðum ferðaráðum og ganga á góðvinkonu mína aftur - Esjuna, teljum dagana í heimkomu :)
Tóta tengdadóttirin prúða
Skrifa ummæli