föstudagur, 29. febrúar 2008

Fólk er ekki fífl

Hef undanfarna daga verið á flakki víðsvegar um land og hitta fólk á fundum, vegasjoppum, flugstöðvum og í kaupfélaginu. Aldrei er ég sannfærðari en nú að flugstöðin eigi að vera í Reykjavík, hitti hundruð flugfarþega á hverjum degi sem undrast frekju miðbæjarrottanna sem aldrei stígur upp í innanlandsflugvél um að flytja eigi flugvöllinn til Keflavíkur.

Samdóma álit fólks er að það hafi verið góð ákvörðun að beina kröftunum að því að hækka lægstu laun, en marigr gera sér grein fyrir því að þetta vegur þungt hjá mörgum atvinnufyrirtækja í grunnvinnslu og þá ekki síst á landsbyggðinni. Þar berjast menn í bökkum við að halda þessum fyrirtækjum gangandi og þar er fólk nánast allt á lægstu töxtum. Mikil þörf er á að rétta hlut þessa fólks, en getur hugsanlega boðið heim hættu um samdrátt.

Fólk í landinu er ekki fífl eins og svo margir stjórnmálamenn virðast halda í sinni lokuðu bómullarveröld, þar sem þeir opna einn glugga í tvær vikur fyrir kjördag og lofa bót og betrun og henda út litprentuðum bæklingum með loforðum um bót og betrum, en að kvöldi kjördags er glugganum lokað og kjósendum sendur tónnin ef þeir voga sér að trufla þingmenn að störfum næstu 4 árin.

Í sjálfu sér endurspeglast viðhorf þeirra í valdamissi íslenskra valdhafa til ESB. Verði viðræður hafnar um aðild munu koma hingað alvörumenn og gera alsherjarúttekt á íslenskum valdhöfum og efnahagsstefnunni. Hér á landi hefur ákveðinn hópur manna í tilteknum flokki tekið til sín völdin og þeir ætla þeir ekki að sleppa sínu taki, hvað sem það kostar. Útrás íslenskra fyrirtækja eru að opna fyrir mat á þessum hltutum og staðreyndirnar eru að birtast okkur.

Við íslendingar erum ekki að standa okkur neitt ekkert sérstaklega vel á nánast nokkru einasta sviði. Það kom sem gusa yfir okkur þegar skýrslur komu út um að við værum ekki menntaðasta þjóð í Evrópu. Stjórnvöld voru búinn að þusa um það áratugum saman að við værum best menntaða þjóðin, allt í einu kom fram skýrsla sem sýndi að við vorum í annarri deild, með flesta ómenntaða einstaklinga á vinnumarkaði og mesta brottfall.

Við erum að fá þessa dagana upplýsingar að efnahagsmál okkar eru mesta ólestri og hinn mikla velmegun byggð á sandi erlendra lána. Öll útrás hinna „eitursnjöllu“ íslensku fjármálamanna eins og Hólmsteinninn og fleiri hafa haldið að okkur, er ekkert annað en flopp sem í sjálfu sér endurspeglast í því að ákveðin hópur hefur hrifsað til sín ofurbónusa, ofurlaun, ofurkaupréttarsamninga, ofurstarfslokasamninga og ofurstarfsbyrjunarsamninga.

Allir landsmenn fyrir utan Hólmsteininn og hans lið vita að þessir peningar koma ekki af himnum ofan, þeir verða til við að lífeyrisjóðir og sparfjáreigendur sem geyma sparifé sitt í fjárfestingarsjóðum fá minni arð og erlendu lánum fjölgar.

Örvæntingarfullur birtir forysta tiltekins Flokks ásamt Mogganum á hverjum degi yfirlýsingar um að það sé komið í ljós að öll umræða um Evru og ESB sé kominn út af borðinu og fólk eigi barasta strax að hætta þessu bulli.

En fólkið í landinu er annarrar skoðunnar. Það vill breytingar og tiltektir í efnahagsstefnu og fjármálageiranum.

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Eyjan fáfróð um verkalýðsmál

Það er yfirleitt talin nokkuð góður kostur að þeir sem skrifi fréttir kynni sér um hvað þeir eru að fjalla.

Blaðamaður Eyjunnar ber saman starfsemi Landssambanda sem ná yfir allt landið og eru með fjölda aðildarfélaga hiklaust saman við eitt stéttarfélag sem er starfrækt á einu svæði.

Samningaréttur liggur hjá stéttarfélögum ekki landssamböndum, stundum framselja aðildarfélög stéttarfélaga samningsrétt til landssambanda og stundum eru kosningar í einu lagi innan landssambanda og stundum fer atkvæðagreiðsla fram í hverju félagi. Stundum fer atkvæðagreiðsla fram á fundum og stundum er hún framkvæmd með póstatkvæðagreiðslu.

En í öllum tilfellum fara fram fundir þar sem félagsmönnum er gefin kostur á því að koma fram spurningum til samningamanna og fá skýringar.

Landssambönd þurfa því að ferðast um land allt til þess að hitta félagsmenn.

Það segir ekkert um hvernig atkvæðagreiðsla fer svo fram.

Póstatkæðagreiðsla er í flestu sama og rafræn atkvæðagreiðsla, t.d. eru allar upplýsingar sendar til viðkomandi félagsmanna og atkvæðaseðlar annað hvort í formi raflykils eða atkvæðaseðils.

Rafrænar atkvæðagreiðslur þarf að framkvæma eftir mjög störngum reglum hvað það varðar að engin komist að rafrænum grunni og eins þarf að vera tryggt að allir félagsmenn geti greitt atkvæði, það er því framkvæmanlegt þar sem hægt er að hafa samtímis í gangi rafræna atkvæðagreiðslu og opnum kjörstað.

Rafiðnaðarsambandið hefur oft notað rafrænar atkvæðagreiðslur við sérsamninga og staðbundna og var fyrst til þess af stéttarfélögunum fyrir allmörgum árum.

Kosningar hjá Starfsgreinasambandinu og Rafiðnaðarsambandinu eru með gjörólíkum hætti, eins formgerð þeirra við samninga.

T.d. vita flestir landsmenn fyrir utan blaðamann Eyjunnar að sératkvæðagrieðslru fara fram í sumum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins eins og Eflingar og annarra félaga í svokölluðu Flóabandalagi.

Greinilegt er að sá blaðamaður sem skrifar um verkalýðsmál á Eyjunni hefur takmarkaða þekkinga á því sem hann er að skrifa um.

Ég hélt að það væru stunduð vandraðri vinnubrögð hér á Eyjunni.

Endurskrifaðar fréttir

Það er mikið talað um rætni og skammarleg ummæli á netinu birt í nafnleysi og það er sannarlega full ástæða til þess.

En ritskoðun og endurskrifaðar fréttir eru mun hættulegri. Rifjaðust upp fyrir mér þegar ég er að fletta nýju Mannlífi greinar sem fyrrv. blaðamaður á DV hinu fyrra, undir stjórn hóps sem flutti sig yfir á Viðskiptablaðið, skrifaði og lýsti því þegar maður, sem hefur tekið það að sér að gagnrýna aðra blaðamenn reglulega fyrir óvandaða háttsemi, tók sig ætíð til og umskrifaði viðtöl og fréttir ef honum þóttu þau ekki túlka stöðu tiltekins flokks undir stjórn tiltekins manns á nægilega heppilegan hátt.

Í Mannlífi er rifjuð upp hin magnþrungna fjölmiðladeila og birta drög tiltekins manns úr tilteknum flokki um Fjölmiðlalög. Af hverju vildu þessir menn koma í veg fyrir umræðu á opnum vettvangi?

Eða þá prýðilegar lýsingar af því hvernig málin ganga fyrir sig í vöggu lýðveldisins á hinni stórgóðu síðu freedomfries hér á Eyjunni undir stjórn Republikana og hyskisins í kringum Bush með Karl Rove fremstan í flokki.

Og svo forsíðufrétt Fréttablaðsins um hvernær vandamálið við skipan dómara hófst og viðbrögð tiltekinna manna í tilkteknum flokki við umræðu um þau mál.

Hvers vegna grein geðlæknis um efnahagslífið fékkst ekki birt í Mogganum.

Flestir íslendingar hafa áhyggjur af efnahagsástandinu þessa dagana og velta því fyrir sér hver sé rót þess að tilteknir menn í tilteknum flokki fara alltaf úr límingunum þegar minnst er á Evrópusambandið og Evruna.

Og Mogginn birtir reglulega kostulegar og heimasamdar lýsingar á því hvernig málin ganga fyrir sig í ESB.

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Um glerhús og staksteina


Hér er loft ásamt snjóskafli hrunið í rúm starfsmanns Impregilo. Hann var svo heppinn að vera ekki í rúmminu þegar það gerðist. Þessar búðir tók starfsmenn stéttarfélaganna alllangan tíma að fá lagaðar.

Þau eru svo oft mótsagnarkennd viðbrögð tiltekinna manna sem hafa tiltekna pólitíska skoðun. Þeir eru svo innilega sannfærðir um að þeir einir hafi rétt fyrir sér og allir aðrir komi úr „vinstra liðinu“ og það gefi þeim rétt að kalla megi þá sem ekki eru sammála þeim öllum hugsanlegum ónöfnum.

Eins og t.d. tiltekinn lögmaður, sem er þekktur stuðningsmaður tiltekins flokks og fær birtar innrammaðar greinar í Mogganum þar sem þeir sem ekki eru sammála pólitískum skoðunum hans eru nefndir „Thalibanar.“

Einnig má benda á svör ungs þingmanns úr tilteknum þingflokki sem var nýlega í Kastljósi að fjalla um tiltekin ummæli Össurs iðnaðarráðherra um tiltekinn borgarfulltrúa tiltekins flokks í Reykjavík, þegar Helgi Seljan spurði þingmanninn unga um færslu hans um Björn Inga í haust.

Einnig má benda á nafnlausa umfjöllun Staksteina um Ingibjörgu Sólrúnu og skoðanabræður hennar.

Svo kom dómur í gær, Eftir að hafa skoðað dómskjölin og Staksteinakennd ummæli tiltekins blaðafulltrúa um VG fólk, kvenfólk og náttúruvernd, hlýtur maður að velta fyrir sér hvers vegna var blaðafulltrúinn að höfða mál og á hvaða forsendum er hann að fagna sigri?

Tek það fram að ég er algjörlega sammála þeim skoðunum um að persónulegt skítkast á netinu eru alltof oft langt fyrir utan öll mörk.

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Góð viðbót á vinnumarkaði

Í dag var skrifað skrifaði í dag undir samninga um nýtt gagnaver á Keflavíkurflugvelli. Mjög góð viðbót við atvinnumöguleika hér á landi. Þetta býður upp á mörg góð störf, en þessar framkvæmdir kalla á aukna raforku og fleiri virkjanir. Össur hefur staðið sig vel í þessu máli og á hrós skilið.

Um nokkurn tíma hefur legið fyrir hratt vaxandi þörf á stækkun og fjölgun gagnavera. Ef við vildum vera gjaldgeng á þeim markaði, var forsenda þess væri að Ísland yrði betur tengt við Evrópu og Ameríku með öflugum samskiptastrengjum.

Mörg fyrirtæki á þessum markaði hafa horft til Íslands vegna möguleika á orku og landrými og ekki síður gnótt af svölu loftslagi og kælivatni sem leiðir til mun minni orkunotkunar.

Svæðið á Keflavíkurflugvelli tilvalin kostur fyrir staðsetningu gagnaverum og mjög vel staðsett í öllu tilliti. Með þessum samning fæst góð nýting á mörgum þeirra húsa og skála sem eru á svæðinu, en kallar jafnframt á mjög hraða endurnýjun á hinu ameríska rafkerfi, dreifikerfum á öllu svæðinu og spennum.

Endurnýjunin rafkerfisins kostar nokkra milljarða, sem einhverra hluta „gleymdist“ að geta um þegar forsvarsmenn Þróunnarfélagsins kynntu svæðið í upphafi og nýtingarmöguleika þess. Forsvarsmönnum Rafiðnaðarsambandsins var óspart sendur tónninn þegar þeir voru svo „ógætnir“ að benda á ónákvæmni Þróunnarfélagsins.

Ríkisstjórnin greip þá til þess ámælisverða úrræðis að setja bráðbirgðalög og kippti öllum íslenskum og evrópskum rafmagnsreglugerðum úr sambandi á svæðinu til þess að bjarga málunum, en þverbraut með því jafnræðisreglur.

Allt saman óþarfi því íslenska rafmagnseftirlitið hafði ári áður bent Þróunnarfélaginu á hvað það þyrfti að gera til þess að svæðið uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru um rafmagnsöryggi gagnvart öðrum fyrirtækjum og almenning hér á landi.

Loksins samkeppni í innanlandsflugið

Iceland Express fær lóð í Vatnsmýrinni

Flugfélagið Iceland Express hefur fengið vilyrði fyrir lóð í Vatnsmýrinni og getur undirbúningsvinna vegna innanlandsflugs nú hafist af fullum þunga. Flugfélagið treystir sér til að hafa lægri fargjöld en nú eru á markaði.

Efnahagsvandinn

Mogginn birtir á miðopnu mikla og vel skrifaða grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar um hina erfiðu stöðu sem við erum í. Ég myndi nú taka þannig til orða, þá erfiðu stöðu sem strákarnir í bönkunum og röng efnahagsstjórn undanfarin áratug hafa komið okkur í.

Eins og svo oft þegar Sjálfstæðismenn líta yfir farinn veg, kjósa þeir ætíð að sleppa hinni veigamiklu aðild sem aðilar vinnumarkaðsins áttu að þeirri endurreisn og uppsveilfu sem hófst með gerð Þjóðarsáttar, og þann stóra þátt sem launamenn hafa átt í að viðhalda stöðugleika síðan þá. Oft þurft að þvinga stjórnvöld inn á réttar brautir. Hér á ég við fyrstu málsgrein greinarinnar.

Það stingur einnig í augu hvernig þeir stilla upp aðild að ESB og upptöku Evru. Mín skoðun er sú að afstaða Sjálfstæðisflokksins til þessa máls, sé ein helsta forsenda þeirrar stöðu sem við erum í og stærstu efnahagslegu mistök þess flokks sem er búinn að fara með stjórn þessa málaflokks undanfarin áratug.

Það er ekki gott þegar tveir vaxandi þungaviktarmenn í þingliði Sjálfstæðisflokksins reyna að veita þessu hjá sér með því að segja, að umræðan um ESB og Evru sé einungis flótti frá vandanum og fráleitt að nálgast þá umræðu út frá tímabundnum erfiðleikum. Við ættum a.m.k að vera kominn á lokastig í umræðu um aðild, en sjálfstæðismenn hafa ætíð sprengt þá umræðu með sífelldri endurtekningu á rakalausum klisjum.

Og svo er komið að launamönnum að axla vandann, að venju. „Verkefnið sem stjórnmálamenn og atvinnulífið þurfa nú að kljást við er talsvert.“ Segja þeir í lokakaflanum.

mánudagur, 25. febrúar 2008

Hvað á nýja tónlistarhúsið að heita?

Samkvæmt skilgreiningu á nafnið að falla vel að íslenskri tungu, vera þjált á erlendum tungumálum og vera lýsandi fyrir starfsemi hússins.

Hmmm;.... Björk , það nafn uppfyllir að mínu mati þessi skilyrði.

ennn, líklega er ég ekki hlutlaus.

Náttúruperlur í forina

Össur sagði á Alþingi í dag, að ríkisstjórnin hafi verið að taka sér ný stjórntæki, sem eigi að koma í veg fyrir að náttúruperlum verði kastað í forina. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er að vinna hagrænt mat á áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf sem á að vera tilbúið í vor.

Á stundum erfitt að átta mig hvert Össur er að fara með myndlíkingum sínum, en er sammála að klára eigi Rammaáætlun og fara svo eftir henni. Var einn af mörgum sem kom að gerð hennar og veit að þar var vel unnið.

Ég hef áður haldið því fram hér á Eyjunni að viðhorf til náttúruverndar eru tekjutengd. Þar á ég við að ef atvinnuástand slaknar mikið hér á næstunni þá munu viðhorf íslendinga breytast yfir í að menn munu hiklaust líta í kringum sig í leit að næsta virkjunarstað.

Og þá munu kjósendur gera sömu kröfur til þingmanna og gerðar voru fyrir nokkrum árum, sem leiddi til Kárahnjúka og álvers í Reyðarfirði.

Þar spái ég að menn beri niður í neðri hluta Þjórsár. Þær virkjanir eru ódýrar og nýta vel þau lón sem þegar eru fyrir og skora vel í Rammaáætlun. Menn eru búnir að sjá það á Hellisheiði að gufuaflsvirkjanir taka meira pláss en vatnsaflsvirkjanir.

Auk þess verða umbrot á landi við neðri virkjanir Þjórsár ámóta og fara undir einn golfvöll, og engin leitar til náttúruverndarráðs þegar ákvörðun um slíkt mannvirki er tekin.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Vorhreingerningu í bönkunum

Talsmenn bankanna hafa þessa vikuna keppst við að telja okkur í trú um að hið gríðarlega háa skuldatryggingálag sem þeir þurfa að greiða í dag endurspegli ekki raunverulega stöðu þeirra. Það getur vel verið, en það eru samt sem áður greinilega allnokkrir sem telja að íslensku bankarnir hafi farið of geyst.

Innlendir fjármálaspekingar eru stórt tekið sammála um að staða bankanna sé góð, en maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvort þar ráði að einhverju leiti eigin hagsmunir.

Það berast ekki miklar upplýsingar um stöðu bankanna erlendis, en þegar íslenskir bankar búa við skuldatryggingar og bankar og lýðveldi sem við teljum langt fyrir neðan okkur, þá er eitthvað eins og það á ekki að vera.

Það blasir við að íslenska ríkið ásamt bönkunum verði að vinda sér í öfluga ímyndarherferð erlendis til að útskýra raunstöðu Íslands.

En mörgum landanum finnst þó að þeir ættu að byrja á því að afla sér traust hér heima með því að taka til í launum, þóknunum, starfsloka og starfsbyrjunarsamningum. Þar eru efstu stjórnunarlög bankanna einfaldlega að hrifsa til sín drjúgan hlut af þeim arði sem á að renna til hluthafanna, þar á meðal þeirra sem eiga sitt sparifé í lífeyrissjóðunum. Einnig mæti lækka eða fjarlægja eitthvað af öllum þóknunum og seðilgjöldunum.

Nú koma þessir menn vælandi til lífeyrissjóðanna og vilja fá peninga þar. Þeir verða að taka til í eigin heimagarði áður en af því verður.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Brothætt staða

Hagfræðingar telja að nýir kjarasamningar séu byggðir á réttri hugmyndafræði, með því að nýta það svigrúm sem til var að hækka laun hinna lægst launuðu. Fyrir lá að hækkun lægstu launa mun koma þyngra niður á mörgum framleiðslufyrirtækjum, og getur orðið mörgum fyrirtækjum sérstaklega út á landi dýrt. Sakir þess að þar er svo hátt hlutfall starfsmanna sem liggur á lægstu töxtum.

Brestur loðnuveiðanna getur leitt til 12 milljarða lækkunar á tekjum þjóðarbúsins og leitt yfir okkur afleiddan tekjusamdrátt. Til viðbótar er olíuverð hækkandi ásamt vöxtum og hækkunum á matvælum og hrávöru. Almennar launakostnaðarhækkanir í framleiðslu og þjónustugreinum eru töluverðar í byrjun og geta numið allt að 10% og heildarhækkanir á samningstímanum í kringum 17-20%. Þar á móti kemur skattalækkanir á fyrirtækjum. En Víglundur heldur því fram að íslenskir framleiðslu- og þjónustuatvinnuvegir muni ekki bera þessa hækkun og þeir muni umsvifalaust velta henni út í verðlagið.

Þessi staða er bein afleiðing nánasarháttar ríkisins gagnvart verkafólki, sem er hreint út sagt ótrúlegur. Þær upphæðir sem ríkið lætur af hendi rakna eru um 20 milljarðar, en á móti kemur aftur inn í ríkissjóð um 7 milljarðar í tekjum á móti. Þetta er nettó um 15 milljarðar sem dreift er á 3 ár. Ríkisvaldið lætur bændur hafa á hverju ári í beina styrki 9-10 milljarða. Eins og lesendur mínir vafalaust muna þá vildi verkalýðshreyfingin fara þá leið að létta stöðu þessa hluta atvinnulífsins með því að gera breytingar á skattkerfinu, en því var hafnað. Verði kjarasamninga felldir munu öll spjót augljóslega beinast að ríkisstjórnini, bæði frá fyrirtækjunum og launamönnum.

Það hefur margoft komið fram að skattbyrði hefur verið að aukast á undanförnum árum, þá sérstaklega hjá hinum lægst launuðu. Síðastliðin 10 ár hefur hlutur hins opinbera í þjóðartekjum landsmanna verið að aukast stig af stigi og er nú kominn í 48,2% og skattbyrði hinna lægst launuðu aukist um 7% umfram hinna tekjumeiri, eins og Indriði fyrrv. skattstjóri hefur ásamt mörgum öðrum bent á.

Þessu til viðbótar eru óbeinir skattar sem koma í gegnum fyrirtækin og eru í raun teknir af launum fólks, hér er um að ræða veikindadaga, sjúkrasjóði og lífeyrissjóði, þá eru skattar hér á landi um 60%. Þessu til skýringar er rétt að benda á að sjúkrasjóðir veikindadagar og lífeyrissjóðir eru í gegnum almenna skattkerfið í flestum öðrum ríkjum, en þar sem íslenskar ríkisstjórnir höfnuðu því alfarið að lagfæra bótakerfið á fyrri hluta síðustu aldar þá varð verkafólk að þvínga það fram í gegnum kjarasamninga og það kostaði minni launahækkanir. Ef þessir skattar yrðu aflagðir og tekið upp samskonar kerfi og þar þá þyrfti að hækka skatta hér á landi um 14%, en jafnframt hægt að hækka laun sem því næmi.

Verkalýðshreyfingin lagði til við undirbúning kjarasamninganna nú, að tekið yrði upp lægra skattþrep á laun undir 300 þús. kr. og auka með því ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu um 40 þús. kr. á mán. Þessu hafnaði ríkisstjórnin algjörlega. Stjórnarþingmenn, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, kvarta sáran undan því hvers vegna verkalýðshreyfingin sé sífellt að gera kröfur um að ríkið láti eitthvað af hendi rakna. Það þarf í raun ekki að skýra það, svarið er að finna í textanum hér að ofan. Ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa nánast staðið að skipulagðri aðför að hinum tekjulágu.

Einnig hlýtur verkafólk að spyrja hvers vegna stimpilgjaldi sem er beinlínis samkeppnishamlandi skattur, er ekki aflagt. Nú blasir við að margir verða að skuldbreyta á komandi misserum og taka lán hjá öðrum sem býður betri vexti og svo framvegis. En þar er ríkiskrumlan á frðinni og sem kemur í veg fyrir það að fátækt fólk geti leitað ódýrari leiða.

föstudagur, 22. febrúar 2008

Fréttamat

Viðsjárverð tíðindi hafa borist okkur á hverjum degi hina 50 daga sem eru liðnir af árinu 2008.

Kvóti skorinn niður, útgerðir sitju uppi með umtalsverðar skuldir vegna fjárfestingar í kvóta sem ekki er lengur til. Fiskvinnuslufólki sagt upp svo hundruðum skipti.

Hlutbréf falla, bankar í vanda og íslenska krónan sveiflast eins og laufblað í vindi.

Íslenskt atvinnulíf gerir kjarasamninga og þarf að þvinga stjórnvöld til þess að standa við kosningaloforð og yfir standa kosningar um þá niðurstöðu.

Loðnuveiðar bannaðar og heilu byggðirnar horfast í augu við gjaldþrot.

Við efnahagslífi Íslands blasa hugsanlega mestu erfiðleikar sem upp hafa komið um alllangt skeið vegna skorts á efnahagsstjórn.

Þá er Kastljósi sjónvarps allra landsmanna undirlagt af innihaldslausum umræðum tveggja stjórnmálamanna um hvort Össur hafi notað rangar myndlíkingar við að lýsa skoðun sinni á stöðu Gísla Marteins.

Restinn af pressunni fjallar um þingmann sem spilað 21.

Landsliðsnefnd finnur ekki þjálfara og íslendingar skella sér á Fod and fun.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Allt annað en ESB og Evru

Nú er svo komið að það er að renna upp fyrir andstæðingum ESB og Evrunnar að allar fullyrðingar sem þeir hafa staglast á standast ekki.

Það er viðurkennd hernaðarlist í pólitík að skjóta óþægilega umræðu út af borðinu, hafna rökum og stara á tærnar en ekki fram á við. Það er skelfilegt þegar forystumenn í stjórnmálum leggja stór mál í umræðufarveg í þeim tilgangi einum að komast hjá umfjöllun og fá niðurstöðu.

Örvæntingarfullt er spurt hvort ekki sé hægt að gera eitthvað annað, bara eitthvað, svo ekki þurfi að viðurkenna þá stöðu sem kominn er upp. Tökum upp dollar, svissneskan franka, eða breska pundið, bara eitthvað annað en Evru.

Í viðtali við forsætisráðherra í Fréttablaðinu í dag kemur enn ein flóttaleiðin, Kína. Land þar sem allar reglur hvað varðar aðbúnað og öryggi launamanna eru þverbrotnar. Mannréttindi vikta lítið.

Í kjölfar Viðskiptaþingsins hafa sömu menn gripið í enn eitt hálmstráið og keppast við að lýsa því yfir að hugmyndin um einhliða upptöku annars gjaldmiðils sé komin út af borðinu og fullyrt að eingöngu séu tvær leiðir færar: aðild að ESB, eða óbreytt ástand. Hjúkk þvílík einföldun.

Þessar fullyrðingarnar hafa ekkert verið rökstuddar frekar en fyrri daginn. Einföldun umræðunnar þjónar náttúrlega pólitísku gjaldþroti í umræðu sem var að hefja sig til flugs.

Þessi tiltekni hópur verður að viðurkenna stöðuna og hætti að gera tilraunir til þess loka fyrir tímabæra rökræðu, sem var kominn á fleygiferð.

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Vilja fá sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum

Landsmenn hafa verið áhorfendur að ofsafengnu peningaspili ákveðins hóps á fjármálamarkaði á undanförnum árum. Vel hefur virst ganga og margir fengið vel launaða vinnu og keypt sér dýr hús og bíla og annað sett af enn dýrari húsum og bílum í London og flugvélar til þess að ferðast á milli.

Almenning hefur ofboðið ofurlauna- og kaupréttarsamningar ásamt glæstum starfslokasamningum og nú síðast 300 millj. kr. til eins manns væri hann tilbúinn að mæta í vinnuna. Í Karphúsinu í síðustu viku kom fram að sá samningur einn dugaði til þess að greiða launakostnaðauka vegna nýgerðs kjarasamnings 20 þús. VR-inga.

Mörgum landsmönnum hefði þótt eðlilegra að lækka vexti og þjónustugjöld bankanna, og greiða hluthöfum meiri arð, t.d lífeyrisjóðunum. En þar er um að ræða almenning í landinu sem geymir sparifé sitt í lífeyrissjóðunum til elliáranna, eða ef það verður fyrir því óláni að verða fyrir örorku.

Vilhjálmur Bjarnason hefur gert athugasemdir við þetta hátterni og hefur svo sannarlega náð eyrum almennings með fyrirspurn sinni til aðalfundar Glitnis.

Eigendur lífeyrissjóðanna, það eru launamenn þessa lands, eru nú spurðir af aðalfundi Glitnis hvort þeir séu tilbúnir að setja meira af sparifé sínu til þess að bjarga fjármálastofnunum, þær fá ekki lengur lánsfjármagn erlendis frá.

Þessi fyrirspurn berst á sama tíma og eigendur lífeyrisjóðanna eru að greiða atkvæði um hvort þeir eigi að samþykkja að mánaðarlaun þeirra hækki um 50 þús.kr. á næsti 3 árum

Hætt er við að margir af eigendum lífeyrissjóðanna vilji sjá meiri niðurskurð í launakjörum yfirstéttar fjármálageirans, en lækkun fundarsetugjalds á stjórnarfundi um sem nemur tvöföldum mánaðarlaunum meðalverkamanna. Almenningur vill að allur arður af hlutfjáreign þeirra renni í lífeyrissjóði þeirra, ekki til örfárra einstaklinga.

Reyndar hefur það vakið undrun margra að nokkrir virðast líta svo á að sparifé eigenda lífeyrissjóðanna sé til ráðstöfunar í ýmis gæluverkefni eins og t.d. uppbyggingar og rekstur hjúkrunarheimila.

Eða til þess að kaupa Landsvirkjun, sem hefur verið að skila að mér skilst um 2% arði.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið það ríkasta í heimi

Eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu er í fyrsta skipti orðnar þær mestu í heimi.

Margar aðrar þjóðir horfast í augu við umtalsverð efnahagsleg vandamál vegna þess að þær hafa ekki sýnt sömu fyrirhyggju og aðilar íslenska vinnumarkaðsins sýndu árið 1969 með ákvörðun um uppbyggingu lífeyrissjóðakerfis.

Alltaf þegar ég les svona fréttir koma fram í huga minn yfirlýsingar og samþykktir ungliða stjórnmálaflokks, sem sumir hverjir eru nú orðnir þingmenn og jafnvel ráðherrar, um að leggja ætti niður þennan 10% skatt til verkalýðsfélaganna!!?

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Arðsemi iðnnáms meiri en margra háskólagreina

Þegar litið er til náms á framhaldskólastigi kemur í ljós að arðsemi náms í rafeindavirkjun er hæst eða um 16%. Meðaltekjur þeirra eru hærri en margra háskólamenntaðra hópa. Rafvirkjar fylgja þar fast á eftir með um 13% arðsemi. Arðsemi náms verkfræðinga er liðlega 20%, hjá læknum tæplega 20% og hjá viðskipta- og hagfræðingum liggur arðsemin milli rafeindavirkja og rafvirkja.

Bakarar og prentarar eru aðeins á eftir rafvirkjun. Framhaldskólakennarar og sálfræðingar eru með um 5% arðsemi náms.

Það er geysileg vöntun á fagmönnum ekki síst í rafiðnaðargreinum. Ef t.d. er litið nýju álveranna þá hefur gengið erfiðast að fullmanna rafiðnaðarverkstæðin.

En viðhorf þjóðfélagsins til verknáms endurspeglast mjög vel í umræðum og ákvörðunum Alþingis, verknám er svelt fjárhagslega, skólarnir fá ekki fjármuni fyrir nauðsynlegum kennslutæjum og nemar í verknámi er gert að greiða margskonar efnisgjöld og skólagjöld þeirra er um 50 þús. kr. hærri en á bóknámsbrautum.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Greining RÚV á kjarasamningum

RÚV hefur í dag fjallað um nýja kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ. Áberandi er í þeirri umfjöllun að álitsgjafar í síðdegisútvarpi eru valdir úr hópi stjórnmálamanna og samtökum opinberra starfsmanna, en forðast að fá fólk úr forystu ASÍ.

Í umræðu í dag hefur í því sem ég hef heyrt enn ekki komið fram neitt um þær grunnforsendur sem aðilar notuðu við undirbúning kjarasamninganna. Það er þróun efnahagsmála, verðbólga og vextir.

Líklega er enn einu sinni að endurtaka sig sú saga að launamenn og fyrirtæki á almennum markaði eru þeir einu sem eiga að bera ábyrgð blessuðum stöðugleikanum og rekstrargrundvallarræflinum.

Kratar í meirihluta í ríkisstjórn

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram við frágang kjarasamninga í gær, kemur fram að hún ætli að standa við kosningaloforð um lagfæringar á skattakerfinu og jafna hlut þeirra sem minnst mega sín.

En á undanförnum árum hafa skerðingarmörk í barnabóta- og vaxtabótakefinu ekki fylgt verðlagsþróun í landinu, sem hefur ásamt öðrum breytingum í skattkerfinu og upptöku þjónustgjalda leitt til þess að skattbyrði á þeim sem minnst hafa milli handanna hefur aukist um 7% umfram þá efnameiri eins og t.d. Indriði Þorlákssons fyrrv. skattstjóri fór ítarlega yfir í nýlegum dagblaðsgreinum. Auk þess má benda á greinar Stefáns Ólafssonar háskólaprófessors um sama efni.

Margir tóku eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn sveigði rösklega inn að miðjunni í kosningabaráttu sinni í fyrra. Það hefur reyndar oft gerst áður á undanförnum áratug, en svo þegar kjördagur var að kveldi kominn, virtist svo að Sjálfstæðismenn gleymdu kosningaloforðunum og hægri stefna réði för. Í kosningabaráttuni í fyrra var þetta mál efst á baugi í gagnrýni á fráfarandi ríkisstjórn og það sem Sjálfstæðismenn áttu hvað erfiðast með að svara.

Í kosningabaráttuni var oft erfitt að greina á milli stefnu Samfylkingarinnar og Sjálfstæðismanna. Það var norrænn svipur á stefnumálum beggja flokka, það líkaði röskum meirihluta landsmanna vel og margir höfðu á orði að Sjálfstæðisflokkurinn væri að færa sig inn á fyrri slóðir sem norrænn demókrataflokkur þar sem flestir íslendingar finna sig. Það kom því ekki á óvart að þessir flokkar unnu kosningarnar og mynduðu ríkisstjórn. Ríkisstjórn studdri af miklum meirihluta krata sem eru á miðju og hægra megin við miðju í báðum flokkum.

Nú finnst mönnum sem eru lengst til hægri í Sjálfstæðisflokknum sem þeir standi uppi sem lúserar, en staðreyndin er reyndar sú að þeir hafa á undanförnum haft mun meiri áhrif á framkvæmd og túlkun hver sé hin "rétta" stefna Sjálfstæðisflokksins, en fjöldi þeirra í flokknum segir til um. Þessi hópur hefur látið sér í léttu rúmi liggja þó svo atkvæðum sé smalað af miðjunni í kosningabaráttu, á grundvelli þess að hægri sjónarmið ráði svo milli kosninga.

Enda ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fjarri því það fylgi sem hann hefur ef hægri sjónarmiðin væru sett efst í kosningabaráttunni.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Enn hiti í samningamönnum

Nú er hilla undir að skrifað verði undir kjarasamninga, lægstu laun hækka um 18 þús. kr. og aðrir fá 5.5% launatryggingu. Það er ef launamenn hafa ekki fengið 5.5% hækkun launa síðastliðna 12 mán. Eiga þeir rétt á henni eða þá það seum upp á vantar. Orlof lengist um 2 daga og fer upp í 30 daga. Veikindadagar vegna barna verða einnig 2 dögum fleiri eða 12 á ári. Slysatryggingar hækka umtalsvert og einnig eru óvenjumörg atriði í textum kjarasamninga lagfærð, þá með tilliti til dómsmála og deilna sem risið hafa á undanförnum misserum.

Ríkistjórnin er búinn að spila út sínum spilum. Ekki eru allir sáttir við það útspil og er deilum enn ekki lokið, sem hefur orðið til þess að undirritun hefur dregist fram eftir degi, en menn vonast til þess að það verði í kvöld. Húsaleigubætur hækka töluvert, ásamt viðmiðum í vaxtabótakerfinu. Skerðingarmörk barnabóta hækka úr 94 þús. kr. í 120 þús. og eftir eitt ár upp í 150 þús. Ýmislegt annað er í spilunum.

Persónuafsláttur hækkar um 7 þús. kr. í þrem áföngum 2 þús. kr. 2009 og aftur 2010 og svo um 3 þús. kr. 2011. Ríkistjórnin vill fá sinn hlut í hækkun lægstu launa. Þriðjungur þeirra rennur beint í ríkiskassann til að byrja með.

Þetta var það atriði sem ASÍ lagði upp með í sinni útfærslu og kynnti þaðfyrir ríkisstjórninni 12. des. um að komið yrði í veg fyrir þetta með sértækri hækkun persónuafsláttar um 20 þús. kr. sem myndi deyja út við 300 þús. kr. tekjur. Þetta sló ríkisstjórnin út af borðinu um áramótin eins og kunnugt er með einkennilegum fullyrðingum t.d. um að jaðarskattar myndu hækka um 67%. Þeir sem til þekkja vita að sú hækkun var einungis í Excel töflun fjármálaráðherra, því ekkert fólk er á því tekjubili sem þetta ástand skapaðist.

föstudagur, 15. febrúar 2008

Geir býður ASÍ og SA í kaffi

Ríkistjórnin mun á eftir að loknum venjubundnum morgunfundi föstudags taka á móti sendinefndum atvinnurekenda og launamanna. Báðir aðilar vinnumarkaðs hafa á sínum snærum öflugar hagfræði- og lögfræðideildir ásamt virkum sérfræðingum í þjóðmálum og hafa verið virkir þátttakendur í mótun efnahagstefnunnar og þættingu öryggisnets kjarasamninga við ákvarðanatöku löggjafarvaldsins.

Sendinefnd atvinnurekenda hefur gagnrýnt peningastefnuna kröftuglega og því umhverfi sem fyrirtækjunum er búið með okurvöxtum og mun örugglega koma á framfæri skilaboðum um hvernig ríkisstjórnin eigi að taka á þeim þætti á vorþingi.

Samtök launamanna hafa gagnrýnt hvernig hægri sinnaðar ríkisstjórnir síðustu ára hafa markvisst látið skerðingarmörk bótakerfis sitja eftir í efnahagsþróuninni þannig að skattbyrði hinna efnaminni hefur vaxið um um allt að 7% á undanförnum árum eins og Indriði Þorlákssonn fyrrv. skattstjóri benti á í greinum sínum um skattamál nýverið. Á þetta hafa samtök launamanna bent á undanförnum árum en uppskeran verið takmörkuð. Þá helst í formi greina sendiboða stjórnvalda þar sem beitt er villandi meðaltölum til þess að réttlæta skattastefnuna.

Það kerfi sem ríkisstjórnir undanfarinna ára hefur komið á er ótrúlega galið. Þar má benda á að skerðingar í barnabótakerfinu hefjast við 96 þús. kr. Sem hefur leitt til þess að barnabætur hafa að raungildi lækkað verulega á undanförnum árum. Sama má segja um vaxtabótakerfið skerðingar hefjast við 8 millj. kr eign skerðast út við 13 millj. kr. Vaxtabætur hafa lækkað að raungildi um allt að 3 milljörðum kr. á undanförnum árum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun í landinu og hefst innan við 100 þús. kr. en það mark ætti að vera nær 150 þús. kr.

Ríkisvaldið er auk þess með skattlagningu tekið til við að seilast í þá sjóði sem launamenn og fyrirtækin hafa kosið að greiða í. Kannanir sína að við er langt að baki þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við í stöðu menntamála. Aðilar vinnumarkaðs hafa brugðist við með því að greiða í starfsmenntasjóði, sem ríkissvaldið hefur á sinn mótsangarkennda hátt tekið upp á að skattleggja.

Starfsmenntun í atvinnulífinu og símenntun er forsenda þess að á íslenskum vinnumarkaði séu vel menntaðir starfsmenn sem tryggja sveigjanleika fyrirtækja og þá um leið samkeppnisstöðu þeirra. Stefna íslenskra stjórnvalda gengur þvert á stefnu nágrannaríkja okkar sem gera allt til þess að tryggja öfluga starfsmenntun í formi símenntunar með því að veita til þess umtalsverðu fjármagni og skattfríðindum.

Það er svo sem af mörgu að taka sem reikna má með að aðilar vinnumarkaðs setji á umræðuborð ríkisstjórnarinnar í dag. En það verður að segjast eins það er að íslenskir stjórnmálamenn virðast frekar vera uppteknir við að auka veg framkvæmdavaldsins og sækjast eftir völdum í stað þess að tryggja sjálfstæði sitt með því hafa eftirlit með því.

Stjórnarþingmenn telja sig fremur vera embættismenn en fulltrúar kjósenda, eins og svo glögglega sést hvernig þeir fara ætíð úr límingunum séu þeir truflaðir við iðju sína eftir kjördag með áminngingum frá launamönnum og stjórnendum fyrirtækja, sem eru reyndar líka kjósendur.

Síðustu dagar kjarasamninga bera ætíð með sér sérstakt yfirbragð. Spenna liggur í loftinu, mörkuð af þreytu langra og oftast hrútleiðinlegra funda þar sem aðilar hafa ítrekað notað sömu rökin til þess að sýna fram að tiltekin krafa eigi rétt á sér og svo svar vinnuveitandans um að hún sé of dýr sem muni leiða til gjaldþrots og atvinnuleyis.

Elísabet skrifstofustjóri ríkissáttasemjara og Hjördís aðstoðarkona hennar slá á létta strengi og skella einhverju nýju á borð kaffistofunnar og fá samningamenn til þess skipta um gír og ræða almennt um þjóðmál í léttum tón. En fyrir sumum þeirra blasa við skipbrot óraunsærra yfirboða við undirbúning kröfugerða og forsvarsmenn fyrirtækja naga handarbök sín yfir því að hafa veist ógætilega að rekstrargrundvallarræflinum með laustlátum loforðum við samningaborðið.

Sökudólga er leitað á báða bóga en Ásmundur gengur um Karphúsið og ræðir föðurlega við menn og miðlar mikilli reynslu sinni í tilraun til þess að fá menn til þess að sættast við hlutskipti sitt.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Síðustu metrarnir í kjarasamningum

Nú er að nást samkomulag milli ASÍ og SA um launaþátt kjarasamninga og endurskoðunarákvæði. Stefnt er að samningstími verði til október 2010. Hækkun almennra launtaxta verði 18.000 kr. við undirskrift. 13.500 kr. árið 2009 og 6.500 kr. árið 2010.

Hjá iðnaðarmönnum með sveinspróf verður hækkunin 21.000 kr. við undirskrift, 17.500 kr. árið 2009 og kr. 10.000 árið 2010. Launatrygging fyrir starfsmenn sem hafa verið hjá sama vinnuveitanda frá 1. jan. 2007 verði 5.5% og 4.5% fyrir starfsmenn sem hefja starf síðar og fyrir sept. 2007. Launaþróunnartrygging árið 2009 verður 3.5%. Síðan er samið um 2,5% almenna hækkun launa og launatengdra liða 1. Jan. 2010.

Þessa stundina standa yfir viðræður við landssamböndin um fjölmargar sérkröfur, þar ber hæst lenging á orlofi og virðist stefna í að það verði lengt upp í 30 daga á ári.

Einnig voru settar fram sameiginlegar kröfur í nafni ASÍ. Þar er um ræða allmörg atriði sem hafa oft staðið um harkalegar deilur milli fyrirtækja og starfsmanna. Eins og t.d. uppsagnir og skýringar á forsendum þeirra, stórhækkunm slysatrygginga og skilmerkari skilmálar þeirra, skilgreiningar á atvinnusjúkdómum, vikulegir frídagar, aukin námsfrí á launum og breytingar á fríum vegna veikinda barna.

Reiknað er með að seinni partinn í dag verði þessi þættir langt komnir og þá verði stærsti þröskuldurinn hvort ríkisstjórnin vilji koma að þessum samningum, eða hvort hún velji þá leið sem hún valdi um áramótin að sprengja allt í loft upp á kostulegri rakaleysu.

Fjarar undan krónunni

Greinilegt er að íslenskt atvinnulíf er búið að gefa íslensku krónuna upp á bátinn og menn úr atvinnulífinu gantast með að yfir standi jarðaför hennar.

Háttsettur maður í íslensku atvinnulífi sagði eftir að Geir Haarde forsætisráðherra hafði lokið ræðu sinni á nýafstöðnu Viðskiptaþingi, að þetta væri líkast því að stórfjölskylda gamallar og virðulegrar frænku hefði safnast saman við líknarbeð hennar. Nánustu ættingjar frænkunnar neituðu að viðurkenna að hennar tími væri liðinn, en flestir aðrir sæju að komið væri að leiðarlokum.

Það hefur ekki tekist að byggja upp trúverðuga peningastefnu hér á landi og myntbandalag Evrópu er að mata ört vaxandi hóp þeirra sem geta valið um Evru umfram krónuna. Í könnun Viðskiptaráðs kemur fram að 63% fyrirtækja innan ráðsins hafi misst trú á íslenzku krónunni og vilja annan gjaldmiðil. Langflest þeirra vilja taka upp evru í staðinn.

Forsætisráðherra sagði á þinginu að upptaka evru ætti ekki að vera einhver trúarsetning. Þetta er hárrétt hjá Geir, en einhvern veginn finnst manni að hann sé frekar að tala um tiltekinn hóp í Sjálfstæðisflokknum, sem hefur reynst ómögulegt að ræða Evrópumálin af raunsæi og alltaf ýtt þeim málum út af borðinu með órökstuddum klisjum endurteknum í síbilju.

Á meðan margir aðri hafa reynt að halda umræðunni gangandi með hagsmuni íslenskra fyrirtækja og ekki síður heimila fyrir augum. Vinnubrögð þessa tiltekna hóps í Sjálfstæðisflokknum komu svo glögglega fram hjá forsætisráðherra þegar hann tók fram að ríkisstjórnin myndi ekki sækja um aðild að ESB og þar með taka upp evruna.

Við erum allmörg sem höfum talið þörf á tala um þessi mál af raunsæi laus við órökstuddar klisjur. Innganga í ESB er að öllum líkindum besta kosturinn, en hæg evruvæðing sem er að gerast á Íslandi er versti kostur fyrir íslenskt atvinnulíf og heimilunum blæðir út.

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Vill Fréttastofa RÚV vera aðili viðræðna?

Fréttir RÚV af gangi viðræðna undanfarinn sólarhring hafa valdið undrun meðal samningamanna ASÍ. Seinni partinn í gær var ákveðið að beina nokkurm óformlegum spurningum til SA svo menn vissu betur um stöðuna.

Fréttatofa RÚV birti í kvöldfréttum sínum mjög ónákvæmar fréttir af þessu. Þar m.a. var talað um kröfu um 6% launahækkun það er ekki rétt. Eins og glöggir lesendur frétta undanfarið vita, þá hefur ekki verið rætt um beina launahækkun, ætíð talað um krónutölu inn í lægstu taxta og svo launatryggingarákvæði.

Í hádeginu í dag var svo frétt hjá RÚV um fund formanna landssambanda í dag þar sem ætti að undirbúa kröfugerð gagnvart ríkisstjórn og talinn upp allnokkur mál sem beina ætti inn á fund ríkistjórnar í fyrramálið. Þessi frétt er öll skáldskapur.

Það liggur fyrir að núna bíða samninganefndarmenn eftir svörum SA við spurningunum. Þá fyrst er möguleiki til þess að hefja lokastig viðræðna. Það liggur líka fyrir að ef svör SA verða neikvæð þá verður líklega um þjár meginsamninga að ræða.

Stjórnvöld munu ekki koma að lausn kjaradeilunnar milli samtaka verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda fyrr en sér til lands í viðræðunum.

Viðræður eru á mjög viðkvæmu stigi og ónákvæmur fréttaflutningur RÚV hefur skapað leiðindi milli samninganefnda. Samningamenn velta því fyrir sér þessa stundina hvort fréttastofa RÚV sé að reyna að hafa áhrif á gang viðræðna með þessu hátterni, eða hver er tilgangur fréttastofu sem hefur það orð á sér að vera ákaflega vönd virðingar sinnar.

þriðjudagur, 12. febrúar 2008

Lokafasi samninga?

Nú virðist það vera svo að komið sé að lokafasa samningaviðræðna. SA hefur svarað tillögum landssambanda og þau eru að undirbúa svör sín. Helst virðist það vera upphafsþættir launaliða, samningstími og endurskoðunarþættir, nú nefndir baksýnispeglar, sem samningaefndir vilja gera aths. við.

Forsvarsmenn samninganefnda liggja nú ásamt hagfræðingum ASÍ yfir Excel töflum og spá í verðlagsþróun og hagkerfið. Aldrei hefur verið eins erfitt og að gera langtímasamning. Óvissuþættirnir eru svo miklir og stórir. Ekki bætti úr fall á markaði eftir áramót og neikvæðar spár um íslensku krónuna. Málið væri allt einfaldara og auðveldara ef stöðugleiki og traustari gjaldmiðill væri til staðar. Kostnaður heimila vegna krónunnar er orðin óbærilegur.

Síðasti þáttur viðræðuskeiðsins verður við ríkisstjórnina, þar verða barna- og vaxtabætur ofarlega á blaði ásamt húsnæðismálum. Verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt ótæpilega þau skerðingarmörk sem síðasta ríkisstjórn setti ásamt vaxtastefnu hennar.

Tillögur verkalýðshreyfingarinnar til ríkisstjórnarinnar lágu fyrir um miðjan desember en SA beitti sér gegn þeim með eftirminnilegum hætti í fyrstu viku þessa árs. Verkalýðshreyfingin var pent sagt óhress með þau vinnubrögð og benti á að margt af því sem sagt var hefði verið útúrsnúningar og dylgjur. Á þeim forsendum má reikna með að verkalýðshreyfingin leggi aftur fram sömu tillögur.

Ef jákvæðni myndast milli aðila er ekki ólíklegt að samningar gætu tekist í byrjun næstu viku.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Stjórnmálamenn eru ekki friðhelgir

Það er ekki ásættanlegt fyrir kjósendur að kjörnir fulltrúar láti fjölmiðla ekki ná í sig dögum saman. Það er eitthvað mikið að þegar tveir af þeim sem vilja láta telja sig í farabroddi borgarstjórnarmanna og hugsanlegur valkostur sem borgarstjóraefni skuli læðast út af fundi um kjallaratröppur svo fjölmiðlar ná ekki til þeirra með spurningar kjósenda.

Ég skrifaði pistil hér ekki fyrir löngu þar sem ég gagnrýndi Pétur Blöndal, en hann fer alltaf úr límingunum ef stéttarfélögin leita eftir því að Alþingi skoði eitt eða annað. Það virðist vera skoðun nokkurra stjórnarþingmanna að kjósendur hafi einungis aðgang að þeim nokkra daga fyrir kjördag.

Hjá sömu mönnum hefur einnig ítrekað komið fram sú skoðun að það eigi ekki að láta almenning komast upp með að hafa áhrif með mótmælum. Það sé betra að taka ekkert tillit til andmæla almennings og sitja af sér andófið. Almenningur gefist alltaf upp eftir stuttan tíma í andófi sínu.

Þetta kom m.a. fram í ummælum stjórnarþingmanna þegar almenningur mótmælti fjölmiðlalögum, eftirlaunalögum og sérstökum og ítrekuðum hækkunum launa þingamanna langt umfram það sem hafði verið samið um í kjarasamningum. Fleiri mál má nefna og svo núna þegar sömu aðilar vilja ekki koma til móts við athugasemdir almennings við athafnir borgarstjórnar og eins má minna á skipan héraðsdómara.

Eða svo borgarstjóra í kvöld sem virtist einungis kunna eitt svar og fór með þetta eina svar við öllum spurningum spyrils Kastljósins. Atriðið verður líklega í næstu Spaugstofu.

Einkennileg staða í kjarasamningum

Allir fréttartímar helgarinnar hafa einkennst af fréttum sem er í líkingu við þessa frétt Stöðvar 2 „Jákvæður tónn er í talsmönnum beggja samningsaðila á vinnumarkaðnum eftir fund í Karphúsinu síðdegis í gær og taldar góðar líkur á að skrifað verði undir nýja kjarasamninga þegar líður á vikuna. Bæði Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hyggjast þó fyrst banka upp á hjá ríkisstjórninni til að knýja á um framlag stjórnvalda.“

Fréttir hinna fréttamiðlana eru mjög svipaðar og eins þau viðtöl sem hafa verið birt við Vilhjálm Egilsson framkv.stj. SA. Meir að segja er gengið svo langt að setja fram þá fullyrðingu að þessir aðilar séu á leið til ríkisstjórnarinnar í nafni ASÍ.

Samningamenn annarra aðila en Starfsgreinasambandsins sem eru í ASÍ hafa setið undir þessu með undrunarsvip. Lesendum til upplýsingar þá er hér ákveðin leikflétta í gangi.

Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum, þá hefur nánast ekkert verið talað við hið 18 þús. manna iðnaðarmannasamfélag og 30 þús, manna samfélag verzlunarmanna. Þar er um að ræða vel ríflega helming ASÍ. En það sem af er þessu ári hefur Starfsgreinasambandið setið að fundum með SA dag eftir dag.

Það hefur líka komið fram að það sem SA hefur boðið iðnaðarmannasamfélaginu og verzlunarmönnum kostar atvinnurekendur lítið sem ekkert. Nú á að stilla þessum samböndum upp þannig að annað hvort fallist á það tilboð eða þá að þau standi í vegi fyrir að Starfsgreinasambandið nái sínu fram.

Lesanda mínum til skýringar á liggja Starfsgreinasambandsmenn flestir á töxtum, eins og það er kallað og 15 þús. kr. hækkun á lágmarkstöxtum virkar sem klár launahækkun. Á meðan iðnaðarmannasamfélagið er opin markaðslaunakerfi þar sem samið er um eitt gólf. Það gerir það að verkum að tilboð SA skilar litlu sem engu til iðnaðarmanna og verzlunarmanna.

Síðan eru menn með axlabönd og belti og setja inn í launatryggingarákvæðið eina setningu um að til þess að viðkomandi eigi rétt á því ákvæði þá verði hann að hafa unnið á sama vinnustað við sömu störf næstliðna 12 mán. Það núllar út stóran hluta iðnaðarmanna, eins og flestir sjá í hendi sér.

Iðnaðarmenn hafa ítrekað gert aths. við þetta en ekki fengið nein ákveðin svör og verður væntalega stillt sem sakamönnum í fjölmiðlum um að standa í vegi fyrir því að verkamenn fái fyllilega réttmæta launahækkun.

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Sundabraut þrítug

Vegna fámennis er mjög dýrt er að byggja upp og reka almenningssamgöngur hér landi og það liggur fyrir að um alllangt árabil verðum við að treysta á einkabílinn. Veður eru mislind og landinn ekki spenntur fyrir því að vaða slabbið í rokinu út á næstu strætóstoppistöð. Þetta eru staðreyndir sem við komumst ekki framhjá.

Vitanlega væri það gott að hafa járnbrautalest frá Hellu upp í Bifröst og suður á Keflavíkurflugvöll og strætisvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem maður þyrfti aldrei að bíða lengur en 5 mín. eftir næsta vagni eins og við þekkjum t.d. í Kaupmannahöfn. Og svo sem ágætt í viðbót að fá staðviðrið sem þar er og sléttlendið svo maður geti hjólað nokkuð greiðlega í vinnuna.

Við erum tilneidd að bæta ökuleiðir um borgina. Það er rétt sem bent hefur verið á að umferðarhnútar hér á landi eru "pís of cake" miðað við það sem þekkist í borgum erlendis. Borgaryfirvöld þar ætla sér ekki að bæta þar úr og segja við borgabúum að nota neðanjarðarkefið og strætisvagnanna. Á grundvelli framanritaðs er það harla ótrúlegt hvernig íslenskir stjórnmálamenn hafa velt á undan sér Sundabraut allt af frá árinu 1977. Hún var tekinn í aðalskipulag 1984 og í þjóðvegaáætlun 1994.

Ég var þá borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sat fundi þar sem rætt var um fyrirkomulag brautarinnar. Mikið var rætt um gott byggingarland í Geldinganesi og eins á Álfsnesi. Byggingalóðir nálægt sjónum eru alltaf vinsælar, vinsælli en land sem er í hæðunum inn landið. Jarðvegur í göngum nýtist til stækkunar á uppfyllingum við Örfirisey og forsenda nýrrar byggðar á stærð við Grafarvogshverfið.

En það er ekki nóg að þurfum að sætta okkur við framantalda galla við það að búa hér á landi, við búum einnig við stjórnmálamenn sem verja öllum sínum tíma í útúrsnúninga og telja það sitt helsta hlutverk að koma í veg fyrir framkvæmdir því þá skapist hætta á að pólitískur andstæðingur geti talist sigurvegari.

Það eina sem stjórnmálamenn geta náð saman um er margskonar sjálftaka úr ríkissjóð í formi hækkandi launa og eftirlauna. Fleiri nefnda og sértækra nefndarlauna ofan á föst laun, þó svo nefndarstarf fari fram í þegar greiddum vinnutíma. Byggingu betri aðstöðu fyrir stjórnmálamenn og fjölgun aðstoðamanna og byggingu aðstöðu fyrir þá og reykherbergja fyrir allt það fólk og mötuneyti fyrir fólkið og ráðning starfsfólks í mötuneytin og bílastæðahús fyrir það fólk og ráðningu starfsmannastjóra fyrir allt fólkið og vitanlega launadeildar og skrifstofur fyrir það fólk. Og ekki má gleyma ört hækkandi styrkjum til starfsemi stjónmálaflokkana og aðstoðamanna þar og byggingu skrifstofa fyrir það fólk allt saman.

Fyrir þetta líður almenningur en stjórnmálamenn samþykkja þá hert skattalög, en árangur í markmiðstefningu og framkvæmdum er engin.

laugardagur, 9. febrúar 2008

Íslenskir stjórnmálamenn

Við búum í landi þar sem stjórnmálamenn vilja að við trúum því að allt hið góða sé frá þeim komið. Landi þar sem litlir rakkar setjast að stjórnmálamönnum, mynda um þá verndarmúr og kóa með þeim og fá í staðinn bita af köku hins opinbera. Til rakkanna renna dómara- og prófessorsstöður ásamt stjórnarsætum í opinberum stofnunum, þar sem þeir hafa samþykkt að þeir sjálfir skuli vera með tvöföld laun almennra starfsmanna fyrir hvern nefndarfund.

Rakkarnir þurfa svo ekki að mæta í vinnuna, þeir fá laun sín inn á bankareikninginn meðan þeir sitja í Brasilíu og endurskrifa söguna og hrósa þar stjórnmálamönnum fyrir góða stjórnarhætti og halda ráðstefnur með heimasmíðuðu efni um að þeir hafi bjargað fátækum á Íslandi með því að lækka skatta á þeim ríkustu. Almúginn má vita það að það eru bara aumingjar sem vilja vera heima hjá sér bótum. Við í frjálshyggjunni viljum lengja vinnudaginn enga leti takk fyrir.

Okkur almúganum er kennt að ekki eigi að trufla stjórnmálamenn eftir kjördag. Þeir geti hjálparlaust sett sín eftirlaunalög og haft sín reykherbergi. Selt sínum rökkum í eigin þróunnarfélögum eignir hins opinbera og úthlutað hliðhollum hlutabréfum á O gengi. Almúganum sé jafngott að vera ekki að skipta sér að því.

En ef svo illa fer að einhver hlaupi útundan sér og snurða hlaupi í plottið, þá skipa stjórnmálamenn sjálfa sig í nefndir og fara mildum höndum um hvorn annan í Reyklausum skýrslum. Jú það eru allar líkur á að þeir hinir sömu lendi í svipuðum vanda og þá er gott að eiga inni prik þegar að því kemur að skrifa næstu skýrslu.

Álit stjórnmálamanna á almúganum kemur glögglega fram í Kastljósum og Silfrum þar sem þeir víkja sér undan að svara öllum spurningum og hika ekki við að ljúga upp í opið geð þjóðarinnar. Best líður stjórnmálamönnum fái þeir að sitja einir í Kastljósunum og Silfrunum, þá geta geta þeir sviðsett umræður þar sem hvergi er komið að neinum málefnum og umræðunni er ætíð snúið upp í keppni um hver sé flínkastur í að snúa út úr og finna smjörklípur.

Það eru reyndar ekki bara stjórnmálamenn sem koma fram við almúgann eins og hann sé fífl. Tryggingarfélag auglýsir í gríð og erg að það vilji taka það sérstaklega fram að það sé farið að greiða út tyggingarbætur ef viðkomandi hlutur sé tryggður.

Stjórnmálamenn krefjast þess að almúganum sé umsvifalaust sagt upp störfum ef eitthvað kemur upp á, og þeir setja lög um að almúginn verði dreginn fyrir dómstóla verði honum eitthvað á í messunni og hótað meiðyrðamálum segi hann sannleikann. Meðan stjórnmálamenn svamla óáreittir í gegnum sitt fúafen í trausti þess að minni almúgans sé ekkert og hann sé fífl.

Í sjálfu sér er það rétt ályktað hjá stjórnmálamönnum, sé litið til þróunnarinnar. Almúginn sem treður marðvaðan og kýs endurtekið yfir sig sömu trúðana til þess eins að hafa eitthvað til þess að tala um á kaffistofunum og fyrir hendi sé nægilegt efni fyrir áramótaskaupið og spaugstofurnar. Öll vitum við að íslenskir stjórnmálamenn eru ekki nýtir til annars brúks.

Það er svo hlutverk aðila vinnumarkaðsins að stjórna efnhagslífinu eins og þeir hafa gert frá því Þjóðarsáttin var gerð. Fram að þeim tíma höfðu stjórnmálamenn viðhaldið óðaverðbólgu og fyrirtækin kominn að fótum fram og atvinnuleysið 10 – 15%. Jón Baldvin bjargaði málunum í horn með því að sjá svo um að reglur Evrópubandalagsins tækju hér sjálfvirk gildi, enda nauðsynlegt því íslenskir stjórnmálamenn hafa engan tíma til þess og umboðsmaður Alþingis sagði okkur um daginn að drjúgur hluti þeirra laga sem íslenskir stjórnmálamenn settu væru svo vitlaus að engu tali tæki. Þau stönguðust á þvers og kruss og oft þvert á Stjórnarskránna.

Fyrrverandi forsætsiráðherra svaraði því að það væri svo sem nó problemm; „Þá breytum við bara Stjórnarskránni“. En hafið stjórnmálamenn afsakaða þeir taka ekki símann til þess að svara óþægilegum spurningum, þeir eru svo uppteknir við að skara eld að eigin köku.

föstudagur, 8. febrúar 2008

Blekkingar frjálshyggjunar

Í Fréttablaðinu í dag birtir Hannes Hólmsteinn blaðagrein eina af sínum kostulegu blaðagreinum. Prescott var kynntur í fyrra sem sérfræðingur í skattamálum og því haldið fram að við skilum ekki nægilega löngum vinnudegi. Því fer fjarri að Prescott hafi fengið verðlaunin fyrir þekkingu sína í lækkun skatta eins og haldið hefur verið fram í kynningu á honum. Hann fékk verðlaun fyrir stærðfræðilegt líkan af hagsveiflum.

Prescott hefur einungis skrifað eina fræðigrein um samband skatta og vinnutíma og hún hefur verið harkalega gagnrýnd. Prófessorar við Harvard og MIT hafa rannsakað mismunandi vinnutíma í vestrænum þjóðfélögum mun meir en Prescott og kannað skýringargildi annarra þátta en skatta. Niðurstöður eru að skattar skýri aðeins lítinn hluta af breytilegu vinnumagni þjóða, það er styrkur og skýr stefna launþegahreyfinga sem skipti þar öllu máli ásamt umfangi velferðarríkja og tekjuskipting.

Sé litið til fullyrðinga Prescotts þá ættu Íslendingar að vinna mun minna en Bandaríkjamenn, við greiðum hærri skatta. Við vinnum hins vegar meir, sé miðað er við atvinnuþátttöku og meðalvinnutíma. Norðurlandabúar ættu að vinna minna en aðrir í Evrópu en atvinnuþátttaka þeirra er mun meiri en hjá öðrum Evrópumönnum og meiri en í Bandaríkjunum.

Grein Harvardmanna er að finna á: http://econweb.fas.harvard.edu/hier/2005papers/HIER2068.pdf

Í niðurstöðum kemur fram að hver vinnandi einstaklingur í Bandaríkjunum vinni að meðaltali 25,1 vinnustundir á viku en í Þýskalandi er meðaltalið 18,6 vinnustundir. Bandaríkjamaðurinn vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári en Frakkinn 40 vikur. Gögn, sem byggja á athugunum á vinnutilhögum, benda til þess að skattar útskýri aðeins lítinn hluta þessa bils.

Harvard menn setja fram vel rökstuddar kenningar um að sterk verkalýðshreyfing á evrópskum vinnumarkaði séu meginástæða þessa munar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, með kröfunni um “Styttri vinnutími, vinna fyrir alla”. Í byrjun áttunda áratugarins voru vinnustundir álíka margar í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. Nú eru þær næstum 50 prósentum færri í Evrópu en Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn vinna að meðaltali 25,1 vinnustundir á hvern vinnandi einstakling á meðan þær eru um 18 í Vestur-Evrópu.

Hver vinnandi einstaklingur í Bandaríkjunum vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári, í Frakklandi eru þær 40,5 og í Svíþjóð 35,4. Bandaríkjamenn vinna nú álíka mikið og árið 1970 en Evrópubúar vinna mun minna. Fræðimenn og stefnumótendur hafa upp á síðkastið beint sjónum að fækkun vinnustunda í Evrópu.

Aðalniðurstaðan er sú að ef skattar væru eini munurinn á Bandaríkjunum og Evrópu þyrfti sveigjanleiki framboðs á vinnuafli að vera mun meiri. Hér skipta máli áhrif verkalýðsfélaga í kjölfar áfalla innan atvinnugreina eins og þeirra sem áttu sér stað í Bandaríkjunum og Evrópu á 8. og 9. áratugnum. Ef framboð á vinnuafli fer upp á við, eykur slíkt vinnustundir. Þar sem samdáttur er í hagkerfi þar sem verkalýðsfélög eru til staðar, hefur slíkt leitt til fækkunar vinnustunda. Við sama áfall í hagkerfi án verkalýðsfélaga aukast vinnustundir.

Bendi einnig á næstu grein mína hér á undan

Eigum við að lengja vinnudaginn?

Norræn efnahagstefna hefur skilað besta árangri í heiminum. Þar spilar sterk verkalýðshreyfing stærsta hlutverkið og sama hefur verið upp á teningnum hér. Flestir eru sammála um þennan mikla og góða árangur. Ég hef lúmsk gaman af þessu, því það eru ekki mörg ár síðan að Hannes Hólmsteinn og aðrir ungir sjálfstæðismenn spáðu því að norræna stefna gæti ekki annað en skattpýnt sjálfa sig í rúst.

Það var þessi stefna sem verkalýðshreyfingin ásamt samtökum atvinnurekenda með Ásmund Stefánss. og víkinginn Einar Odd í broddi fylkingar lögðu upp með Þjóðarsáttinni og hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag, ásamt framsýni Jóns Baldvins á sínum tíma með gerð viðskiptasamnjnga við Evrópuríkin. Aðilar vinnumarkaðsins hafa síðan þá ítrekað þurft að taka slaginn við stjórnvöld til að vernda þann árangur, eins og fram hefur komið í hvert skipti við endurnýjun kjarasamninga. Hannes Hólmsteinn segir aftur á móti að Þjóðarsáttin hafi ekkert verið nema stutt verðstöðvun, það hafi verið Davíð og hann sem einhendis hafi skapað þennan árangur.

Valda hærri skattar minni starfslöngun? Hvers vegna ættum við snúa stefnu okkar um 180° og fara að vinna meira? Í viðræðuþætti í sjónvarpinu vék Prescott sér undan þvi að svara þessum spurningum. Evrópubúar hafa flestir fjögurra til fimm vikna sumarfrí og átta stunda vinnudag. Þetta eru þau lífsgæði sem við höfum barist fyrir í áratugi. Rafiðnaðarmenn hafa með markvissri baráttu stytt vinnuviku sína úr 60 tímum í 46 á þjóðarstáttartíman og vilja ná lengra.

Í Bandaríkjunum er sumarfrí ein til tvær vikur. Þar er velþekkt að starfsmenn þora ekki að taka sér sumarfrí af ótta við atvinnumissi. Þar er vinnudagurinn er miklu lengri en í Evrópu. Efnahagsframfarir okkar á norðurlöndum eru mun meiri en í Bandaríkjunum. Þar verða hinir ríku enn ríkari og millistéttin hefur steypt sér í skuldir samfara því að fátæku fólki hefur fjölgað.

Almenningur í Bandaríkjunum gagnrýnir heiftarlega heilbrigðiskerfið, þar er staðan sú að ef fyrirvinnan lendir í einhverju óláni þá er fjölskyldan kominn á vonarvöl. Frjálshyggjumennirnir telja lausnina á þessu liggja í aukni striti og lengri vinnudegi. Enga leti hjá almúganum takk fyrir, þá getur hann ekki greitt öll nýju þjónustugjöldin, sem sett eru til þess að vega upp á móti skattalækkunum. Það eru örugglega margir af þeim sem liggja fyrir ofan miðju tekjustiganum til í að lækka skatta. Vilja menn fórna einkalífinu, sumarfríunum, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu fyrir það?

Hagfræðingar við Háskóla Íslands hafa sýnt fram á með haldgóðum rökum að kaupmáttaraukning hafi verið ójöfn. Gini stuðull ráðstöfunartekna er að hækka mest þar sem markvist hefur verið dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Minnkandi tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins má rekja til nokkurra þátta:
· Persónuafslátturinn lækkaði á árunum 1993-2006.
· Hátekjuskatturinn hefur verið aflagður.
· Skattur af fjármagnstekjum er lægri en af öðrum tekjum. Vaxandi vægi fjármagnstekna í heildartekjum hefur þess vegna leitt til þess að munur á tekjudreifingu heildartekna fyrir og eftir skatt hefur minnkað.
· Meðaltekjur hinna tekjuhæstu hækkað umfram tekjur annarra, einkum fjármagnstekjur þeirra.
· Tekjur hinna lægst launuðu hækkað það mikið að margir þeirra sem áður voru skattlausir greiða nú skatt.

Það eru launamenn sem sitja eftir í skattkerfinu á meðan peningamenn flytja sína peninga til annarra landa og eru ekki þátttakendur í rekstri þjóðfélagsins, einungis neytendur. Persónuafsláttur hefur ekki hækkað í samræmi við verðbólgu, vaxtabætur minnkað, barnabætur lækkað, skerðingarmörk öryrkja og aldraðra aukist. Það eru ákvarðanir stjórnvalda sem hafa mest áhrif á kaupmátt og ekki síst hjá þeim lægstlaunuðu. Nær öll vestræn ríki hafa aukið jöfnunaráhrif skatt- og velferðarkerfa sinna á meðan við höfum stefnt í öfuga átt hér.

Skattleysismörkin eru sá þáttur skattkerfisins sem helst jafnar tekjuskiptinguna þegar aðeins er eitt skattþrep.Ef skattleysismörk fylgja ekki launavísitölu er gengið í átt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi. Einnig hafa frítekjumörk og skerðingarákvæði stjórnvalda valdið fátæku fólki hér á landi miklum skaða.

Það er eins og sumir forsvarsmanna Sjálfstæðisflokksins skammist sín fyrir þróun efnahagsmála. Á svona ráðstefnum og í stórblöðum erlendis hrósa þeir sér af því að hafa haft sjónarmið Frjálshyggju að leiðarljósi við mótun efnahagsstefnu á Íslandi og náð lengra en þau ríki sem talin eru hafa náð lengst í þessum málum. Þeir vilja alls ekki kannast við árangur sinn hér á landi, eins og kemur fram í raðgreinum Hannesar Hólmsteins í Fréttablaðinu.

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Við erum stolt af skýrslunni okkar

Nú er borgarstjórn Reykjavíkur búinn að verja nokkrum dögum í að ritskoða skýrslu sem var unnin um vinnubrögð hennar í REI málinu og allri þeirri spillingu sem þar var í gangi. Stjórnmálamenn algjörlega reynslulausir í viðskiptum blindaðir af auðhyggju. Ráðalaus ginningarfífl í höndum harðsnúinna og reynslumikilla viðskiptamanna.

Manna sem á nokkrum dögum töldu borgarstjórnarfulltrúum í trú um að þeir væru með í höndunum fyrirtæki, sem þeir sjálfir verðmátu á 63 milljarða. Fyrirtæki sem átti ekki neitt nema yfirlýsingar skrifaðar á blað. Kosningastjóri var skyndilega settur í að höndla eignir Reykvíkinga, birti myndir á heimsíðu brallaranna af Nesjavallavirkjun og Reykjanesvirkjun.

Landsvirkjun með allar sínar Þjórsárvirkjanir, Sogsvirkjanir, Blöndu-, Kárahnjúka- og Kröfluvirkjun, nokkur hundruð km af háspennulínum og háspennuvirkjum víða um land var metinn á minna en minnisblöð brallaranna. Og iðnaðarráðherra fór yfir hálfan hnöttinn til þess að græða nokkra milljaðra.

Menn voru allt í einu orðnir stórir gæjar, en blaðran sprakk og hnífasettin hafa gengið á milli aðila og eins í aldagamla vini sem unnu sér það eitt til saka að reyna að gera sitt besta við að uppfylla skipanir þávrandi borgarstjórnar. En þá skipuðu borgarfulltrúar sjálfa sig í nefnd til þess að gera stjórnsýsluúttekt á sínum eigin athöfnum.

Skyldi þeir hafa greitt sjálfum sér yfirvinnulaun auk ritþóknunar við þessa iðju? Er ekki komið nóg af þessu fólki? Getum við einhvern veginn ekki losnað við það úr ráðhúsinu?

„Við eru öll mjög sammála um að þetta sé ótrúlega góð skýrsla hjá okkur og við munum vinna traust fólksins“, segir borgarstjóri þessa hóps.

Já það er rétt hjá honum kjósendur hafa ótrúlega lélegt minni.

Verð að viðurkenna að Björn Ingi var ekki ofarlega á mínum lista, en hann er sá eini sem kemur standandi út úr þessu.

Eru þingmenn óþarfir?

Ég var einn af mörgum sem sat gáttaður og hlustaði á innlegg Péturs Blöndal og Jóns Magnússonar um reykingaumræðuna fyrr í þessari viku. Þeir slógu um sig með fullyrðingum á borð við „Sósíalíska forræðishyggju“, „Frelsissviptingu“ ,“Brot á frelsi minnihluta“ , „Minnihluti beittur ofbeldi af meirihluta“.

Nú má spyrja hver er að beita hvern ofbeldi. Hvað með ef maður fari með elskunni sinni á góðan matsölustað, splæsir í dýran rétt og fínt vín. En þegar maturinn er borinn á borð tekur maðurinn á næsta borði upp síkarretturnar sínar og reykir hverja á fætur annarri og maður getur ekki annað en hætt borðhaldi og farið heim, kvöldið ónýtt. Hvað með fari maður á pöbb en getur vart séð úr augum vegna mikils reyks og vart mælt vegna andremmu og þegar heim kemur þá er svo mikil fýla af fötum að þau verður að hengja upp utandyra. Hér er ég vitanlega að lýsa viðbrögðum fólks sem ekki er vant þessum reyk. Vitanlega þola sumir reykinn betur og finna ekki hina sterku fýlu sem er af fólki sem reykir.

Rök manna um frelsi og forræðishyggju í umræðu um reykingar skil ég ekki. Sérstaklega frá þingmönnum sem hafa vinnu við að setj a leikreglur í þjóðfélaginu. Af hverju þurfum við Alþingi? Ef maður notar sömu rök og Pétur og Jón þá er klárlega óþarfi að setja 30 km. hámarkshraða við skóla. Það eru örfáir sem gera þetta, flest okkar ökum ekki hratt um þessi svæði. Sama gildir um hámarkshraða á þjóðvegum, langflestir ökumanna aka í samræmi við aðstæður. Lögreglan er óþörf, langflest okkar ráðast ekki að öðru fólki, hvað þá að við meirihlutinn séum að taka bíla annara, jafnvel þó þeirstandi opnir með lykla. Þingmenn eru óþarfir því langflestir kunna almenna háttsemi í fjármálum og tillitsemi gagnvart náunganum.

Við hin fyrir utan Pétur og Jón vitum að það er vegna hinna fáu sem það er nauðsynlegt að hafa Alþingi til þess að setja leikreglur. Á sömu forsendum þurfum við lögguna og líka kjarasamninga og stéttarfélög. Við erum á öllum sviðum sífellt að glíma við minnihluta sem ekki getur sýnt tillitsemi og almenna mannasiði og beitir meirihlutann ofbeldi. Það hefur ekkert með frelsi eða forræðishyggju einhverja sósíalista, komma og vinstri manna að gera, nákvæmlega ekkert.

Við þurfum þingmenn sem skilja þau vandamál sem almenningur glímir við, ekki einhverja sem aldrei geta tekið til máls öðruvísi en með einhverjum bjánalegum og rakalausum klisjum og fullyrðingum.

Tek ofan fyrir Guðlaugi Þór hann er að skipa sér í flokk alvöru þingmanna.

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Funheit staða í kjaraviðræðum

Í dag voru umfangsmiklir samningafundir og þar á meðal þeir fyrstu þar sem rætt er af alvöru við iðnaðarmannafélögin, en í þeim eru um 15 þús. manns. Samningaviðræður SA undanfarin mánuð eða frá því að viðræður sem voru vel á veg komnar vori sprengdar í loft upp, hafa nær eingöngu beinst að Starfsgreinasambandinu, reyndar hafa SA-menn aðeins hafið viðræður við verzlunarmenn að undanförnu.

Eftir þessa vinnu Starfsgreinasambandsins og SA liggja frammi liggja drög að samning til eins árs með framlengingarmöguleikum til tveggja ára. Þetta er í samræmi þá miklu óvissu sem er um stöðu efnahags- og þá um leið atvinnumála næsta vetur.

Eðli málsins samkvæmt þá eru allar stærðir í þeim tillögum sem liggja fyrir sniðnar að Starfsgreinasambandinu þar sem uppistaðan eru stórir hópar á taxtalaunakerfum. Iðnaðarmenn og verzlunarmenn eru aftur á móti langflestir með töluvert öðruvísi samsett og opin markaðslaunalaunakerfi. Samningsdrögin ná þar af leiðandi ekki til stórra hópa í þessum samböndum.

Auk framangreindra draga hafa allmörg sameiginleg tæknileg atriði sem snerta almenn réttindi í kjarasamningum verið til endurskoðunnar í vinnuhópum skipuðum samningamönnum frá ASÍ og landssamböndunum. Þar ber hæst áfallatryggingasjóður, ýmis atriði sem hafa valdið deilum í ráðningarsamningum eins og uppsagnarákvæði, ákvæði um ráðningu hjá samkeppnisaðila, útreikninga á yfirvinnu og desember- og orlofsuppbótum og fl.

Í lok dagsins lá það fyrir að raunsætt er að gera ráð fyrir að um komandi helgi verði ljóst hvort alvöruskriður komist á viðræður. Það byggist á því að náist samkomulag við iðnaðarmannasamfélagið um útfærslur á framangreindum drögum. Ef það tekst ekki má allt eins gera ráð fyrir að allt fari í hnút og endanlega slitni upp úr samfloti ASÍ félaganna. Það gæti leitt til mjög alvarlegra og snarpra átaka á vinnumarkaði. Ábyrgðin á því liggur í skauti þeirra sem stóðu að því að splundra þeirri vinnu sem var vel á veg kominn um áramótin.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Hefur Sjálfstæðisflokkurinn stefnu?

Það er nánast útilokað að átta sig á því hvert Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í nánast öllum málaflokkum, nema þá að markmiðin séu, sama hvað það kosti, að halda völdum. Hér má nefna auðlindamálin, vilja þeir REI en ekki REI annarsstaðar. Vilhjálmur og fylgismenn hans benda á að veitufyrirtækin snerti grunnöryggi almennings og falli ekki til samkeppnisrekstrar og hann eigi því að ráða ferðinni innan slíkra fyrirtækja.

Sífellt verður erfiðara að halda Sjálfstæðisflokknum saman, hann sveigir inn á miðjuna í aðdraganda kosninga og frjálshyggjumönnum er sagt að hafa sig hæga, nú þurfi að ná atkvæðafjölda. En að kosningum loknum lenda menn í vaxandi vanda með að fullnægja kröfum kratanna í flokknum og svo hinna ungu þingmanna sem hefur farið fjölgandi og eiga sífellt erfiðara með að sætta sig við að vera krossfestir reglulega. Þeir krefjast þess að þjóðareignir verði seldar í hendur einkaaðila og ekki megi binda í lög að auðlindir skuli vera þjóðareign.

Hvernig ætla sjálfstæðismenn að afgreiða frumvarp Össurar um opinbera eign á orkulindum? Ætla þeir alfarið að leiða hjá sér úrskurð mannaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótamálið? Hver er stefnan í Evrópumálum? Um hvað snérist málflutningum þeirra um skipan dómara og þrígreiningu valdsins? Af hverju er ekki kláruð vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar?

mánudagur, 4. febrúar 2008

Ég hef fulla samúð með Evrópusambandinu

Með evrópska efnahagssvæðinu varð til stærsta samræmda markaðssvæði heims sem telur um 450 millj. íbúa í 28 ríkjum. Samningurinn felur í sér frjáls vöruskipti með iðnvarning, þjónustuviðskipti, fjármagnsviðskipti og frjálsan atvinnu- og búseturétt alls staðar á svæðinu. Ísland er aðili að EES samningnum og hann er undirstaða aukins stöðugleika í efnahagslífinu og hefur leitt til stórstígra framfara í íslenski þjóðfélagi ásamt aukins frjálsræðis og nútímanlegri stjórnunarhátta.

Ef taka á upp Evru krefst það aðgerða sem krefjast mikils pólitísks vilja og geta verið mjög áhættusamar og kostað atkvæði. Sameiginlegt myntbandalag í Evrópu varð það ekki að veruleika fyrr en 30 árum eftir stofnun ESB, með upptöku Evrunnar í 11 löndum. Það sýnir þrautsegju sem einkennir alvöru stjórnmálamenn, en því miður hefur verið skortur á þeim hér á landi.

Finnar tóku upp Evruna árið 1999 og í yfirliti seðlabankastjóra Finnlands um reynsluna af Evrunni kemur fram að upptaka hennar hafi haft jákvæð áhrif á efnahagslífið, en fátt hafi komið fram af því sem andstæðingar Evrunnar héldu fram. Verðbólga í Finnlandi hafi verið með því lægsta í Evrópu, en hagvöxtur hafi verið meiri en meðaltalið innan ESB.

Meginhlutverk stjórnvalda er að stuðla opinberri umræðu og taka þátt í henni af skynsemi og raunsæi. Ummæli forsætisráðherra á Alþingi um að hann hafi fulla samúð með Evrópusambandinu og því öllu eru langt fyrir neðan þá kröfu sem við gerum til hans um innlegg í umræðu um hryggbein íslensks efnahagslífs. Þessi ummæli lýsa dugleysi hans til að horfast í augu við þann vanda sem hluti Sjálfstæðisflokksins ýtir á undan sér.

Björn rökfastur

Ég er einn þeirra sem hef talið að Björn Bjarnason hafi oft þurft að sitja undir ómaklegri gagnrýni. Björn kom sjónarmiðum sínum vel fram í Silfrinu í gær. Ekki svo að ég sé sammála Birni í öllu og þá sérstaklega Evrópumálum og efnistök hans á gagnrýni við skipan dómara. En Björn fékk marga plúsa fyrir að falla ekki í sömu gryfju mörg flokksystkini hans, að gera faðerni skipaðs dómara að aðalatriði, enda kom það málinu aldrei við.

Tillögur Björns hvað varðar öryggisgæslu eru raunsæjar. Okkur ber skylda til þess að vera undir það búin að þurfa að taka á þessu og svo ekki síður hvernig við eigum að gera það í svona fámennu þjóðfélagi.

sunnudagur, 3. febrúar 2008

Raðmorð á Hótel Búðum


Búðakirkja

Það er óneitanlega nokkuð sérstök upplifun að fá afhentan miða þegar maður kemur á hótel, með feitletruðum skilaboðum um að manni er algjörlega bannað að reyna lífgunartilraunir á gestum hótelsins, taki þeir upp á því að hrökkva upp af. Það hafi skapast vandræðaleg augnablik við svoleiðis aðstæður.

En þú er rétt kominn inn á bar þegar maðurinn vil hlið þér hnígur í gólfið, engist þar sundur og saman og er látinn skömmu síðar. Og svona til þess að komast á barinn er vitanlega leiðinlegt að þurfa sífellt að klofa yfir eitthvert lík, svo við skutlum því inn í kæli og fáum okkur svo einn stórann og spáum í hver þeirra sem séu á barnum hafi laumað eitri í glas aumingja mannsins.

Eða svo maður tali nú ekki um að við kvöldverðarborðið gerist svipað og í ljós kemur að hinn látni var þekktur fyrir að selja fölsuð málverk. Fráfall hans gerist með svo miklum látum að diskar og glös falla í gólfið og brotna í mél. „Eins og það sé nú ekki nógu erfitt að reka hótel út á landsbyggðinni“, segjum við ábúðarfull og ábyrg húsmóðir spyr; „Ætli það sé nóg pláss í kælinum fyrir öll þessi lík?“

Hvað gerir maður ef lík finnst út í bíl sem hafi verið kyrkt á hrottalegan hátt og fartölvunni hans stolið. Það kemur í ljós hann er öryggisfulltrúi yfir tölvukerfi banka og í tölvunni séu lykilorð að tölvukerfi bankans. Og á sama tíma er einhver að táldraga konu hins látna á barnum og fá hana til þess að koma upp í herbergi og skuggalegur útlenskur gestur birtist og það kemur í ljós að hann er með langan sakalista og starfar hjá starfsmannaleigunni; „Tökum að okkur að hreinsa allt, hvað sem er“

Allt þetta er þetta vitanlega full á stæða til þess að draga augað í pung og setjast niður og velta fyrir sér hver hótelgestanna sé ósvífin morðingi. Gestirnir fara upp á herbergi og „change for the dinner.“ Allir mæta svo í matsalinn uppá klæddir smókinga og í fullu samræmi við það sem við höfum séð í enskum morðkvikmyndum.

Til þess að heilasellurnar geti starfað á fullu, er á borð borinn 6 rétta málsverður, þar sem hver réttur tekur hinum fyrri fram og maður stötrar suðræna vínberja djúsa til þess að koma þeim niður áður þeim næsta er skellt á borðið og fær sér kaffi og koníak á eftir og fylgist íbyggin með öllum í salnum. Reynir að draga upp úr þeim í lævísu samtali hvort þeir hafi verið tengdir á einhvern hátt við hina myrtu. Davíð Þór og Ævar Örn hvísla svo í eyru gesta með hæfilegu millibili hintum um þennan eða hinn eða kannski bara næstum alla í salnum. Hver hafi sofið hjá hverjum og hvers vegna einn hafi horfið milli 21.45 og 21.55 og annar sem allt í einu búinn að skipta um skyrtu og hann hafi unnið með mági systur frænku þess sem var myrtur.

Hótel Búðir bjóða upp akúrat það mistíska umhverfi með útstreymi jökulsins og nálægð svarta og úfna hraunsins, sem nægir til þess að allir eru tilbúnir í að upplifa raðmorð, falleraðar eiginkonur og úrilla eiginmenn.

Hver skyldi vera drepinn næst? Skál asskoti er þetta gott rauðvín.

Reykherbergið á Hótel Búðum


Skemmti mér við að leysa morðgátur á Hótel Búðum um helgina. Frábær staður þó það væri ansi svalt úti við og það tók í að skreppa út í göngutúra. Eldhús hótelsins með þeim betri og gáturnar sem Ævar Örn og Davíð Þór setja saman reyna vel á ímyndunarafl gesta og kalla á miklar vangaveltur.

En það vefst ekki fyrir þeim í sveitinni að leysa vanda reykingafólksins, sem ekki fær að ástundað iðju sína inni við en það tekur í að standa úti í 15 stiga gaddi og norðan golu. Fengin var að láni gamall Landróver og honum stillt upp við andyri hótelsins.

Varð ekki var við að sveitarstjórn eða opinberir embættismenn gerðu nokkrar athugasemdir við þetta hátterni, þaðan af síður gestirnir sem sátu í góðu yfirlæti við sína iðju í afturbekkjum Róversins og pældu í hver hefði myrt hvern og til hvers.

föstudagur, 1. febrúar 2008

Vilja refsilækkun vegna hetjudáða dópsmyglara

Hvernig á að taka tillögum lögmanna meintra dópsmyglara um að þeir eigi að fá refsilækkun vegna þess að þeir vinni það afrek að sigla til Íslands með fulla skútu af dópi og fleiri kaldranaleg rök.

Það er sagt að þetta séu léttir brandarar. Þeir eru örugglega afar fáir foreldrar þeirra unglinga sem hafa lent í klóm þessara manna og þá ekki síður unglingarnir sjálfir, sem hafi smekk fyrir svona kímni.

Þeir eru orðnir kannski svona brynjaðir fyrir þessu lögmenn þessara manna, það virðist vera svo að það séu alltaf sömu lögmennirnir sem eru í þessum málum. En það er ekki afsökun, þetta er grafalvarlegt mál, dauðans alvara.

Heimildamaður samgönguráðherra

Ein af þekktum leiðum valdamanna til þess að koma vilja sínum fram er að nýta stöðu sína til þess að strá efasemdum um fyrirætlanir sem eru þeim ekki þóknanlegar. Í fréttum útvarpsins í gærkvöldi var ein aðalfréttin um að það nú væri komið í ljós að ekki væri þörf fyrir Sundabraut.

Þetta er haft eftir heimildarmanni fréttastofu Útvarps. Hann var látinn segja okkur að leysa mætti umferðarvanda höfuðborgarinnar á mun einfaldari máta sem kosti einungis brotabrot af þeirri miklu framkvæmd. Þetta eru stórtíðindi, hvers vegna var heimildarmaður nafnlaus.

Þessi heimildarmaður segir að Sundabraut hafi lengi verið á áætlunum í því skyni að bæta umferðarflæði fyrir minnihluta íbúa í Grafarvogshverfinu og nokkra úr Mosfellsveit, aðrir muni nota gömlu leiðina. Þetta sé gríðarlega dýr framkvæmd, kosti 30 til 40 miljarða króna, en stytti leiðina út á land frá Reykjavík um aðeins 7 kílómetra. Og svo bætir heimildarmaðurinn nafnlausi við að Norðlendingar bíði eftir að göng verði gerð undir Vaðlaheiði.

Undanfarin ár hefur verið vaxandi umferðarhnútur á hverjum einasta morgni og hverjum einasta eftirmiðdegi inn og út úr borginni. Á hverjum föstudagseftirmiðdegi er algjört öngþveiti og á hverjum sunnudagseftirmiðdegi er um 70 km. löng röð og það tekur fólk allt að 3 klst. að komast ofan úr Hvalfirði niður í Árstúnsbrekkuna. Þetta hefur valdið umtalsverðum vandræðum við sjúkraflutninga og eins vel þekkt vandamál í fjölskyldubifreiðum.

Eru þetta einungis minnihluti Grafarvogsbúa og nokkrir einstaklingar úr Mosfellssveit? Heimildarmanni til upplýsingar, en hann þekkir greinilega mjög lítið til á höfuðborgarsvæðinu, þá er þetta fólk úr öllum hverfum Reykjavíkur og nágrannabyggðum. Fólk af Suðurnesjum og svo fólk sem býr utan suðvesturhornsins en á leið þangað.

Það blasir við öllum sem til þekkja, að það munu það verða nánast allir aðrir en Grafarvogsbúar, bæði meiri og minnihluti og eins íbúar Mosfellsveitar sem komi til með að nota Sundabrautina.

Því má svo bæta við heimildarmanninum nafnlausa til upplýsingar, að það er búið að flytja töluvert af hafnarumferð upp á Grundartanga og í fréttum nýverið kom fram að mörg af fyrirferðarmiklum fyrirtækjum í Sundahöfn eru þegar byrjuð að undirbúa frekari flutninga þangað og muni það verða á þessu ári og því næsta.

Hvers vegna lét fréttamaður RÚV heimildarmanninn nafnlausa komast upp með það athugasemdalaust að halda fram jafn augljósum fáránleika, að það verði einungis minnihluti Grafarvogsbúa og nokkrir úr Mosfellssveit sem komi til með að nota Sundabraut.

Hvers vegna spurði fréttamaður heimildarmanninn nafnlausa ekki út í að ef þetta væri svona einfalt og ódýrt, af hverju er þá ekki búið að leysa þennan vanda fyrir löngu. Höfum við þá eftir allt verið með algjörlega ónýtt lið í samgönguráðuneytinu og erum enn.

Einnig má benda á að í næstu frétt fyrir framan lýsti Gísli Marteinn því prýðilega hvernig byggð muni þróast í Reykjavík næstu 3 áratugina eða svo. Það muni bætast við 30 – 50 þús. íbúar og sú fjölgun muni að mestu verða í mið- og vesturbænum. Hvaða leið mun það fólk velja út úr bænum fari það vestur eða norður og hvaða leið mun það velja inn í bæinn. Fólk sem kemur að norðan og er á leið vestur í bæ eða til nágrannabyggðarlaga leitar á Sæbrautina eða Reykjanesbrautina. Beinasta leiðin þangað verður um Sundabraut.

Það blasir við að heimildarmaður er á vegum núverandi samgönguráðherra, sem ætlar sér að halda áfram á sömu braut og forveri hans að sniðganga höfuðborgarsvæðið og halda áfram framkvæmdum í sínu kjördæmi. Sé litið til þekkingar heimildarmanns á staðháttum og framsetningu hans þá verður ekki hjá því komist að ætla að heimildarmaður komi úr sama kjördæmi og samgönguráðherra með þeim skilning að góð nýtingu fjármuna til vegaframkvæmda séu t.d. Héðinsfjarðargöng.

Svo maður noti nú fáránleika röksemda heimildarmanns þá búa um 40 þús. manns í Grafarvogi og í Mosfellssveit. Hvað búa margir á svæðinu við Héðinsfjarðargöng?

Talandi um Vaðlaheiðina, ég hefði nú haldið að göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar hlytu að vera töluvert ofar á blaði.