mánudagur, 4. febrúar 2008

Ég hef fulla samúð með Evrópusambandinu

Með evrópska efnahagssvæðinu varð til stærsta samræmda markaðssvæði heims sem telur um 450 millj. íbúa í 28 ríkjum. Samningurinn felur í sér frjáls vöruskipti með iðnvarning, þjónustuviðskipti, fjármagnsviðskipti og frjálsan atvinnu- og búseturétt alls staðar á svæðinu. Ísland er aðili að EES samningnum og hann er undirstaða aukins stöðugleika í efnahagslífinu og hefur leitt til stórstígra framfara í íslenski þjóðfélagi ásamt aukins frjálsræðis og nútímanlegri stjórnunarhátta.

Ef taka á upp Evru krefst það aðgerða sem krefjast mikils pólitísks vilja og geta verið mjög áhættusamar og kostað atkvæði. Sameiginlegt myntbandalag í Evrópu varð það ekki að veruleika fyrr en 30 árum eftir stofnun ESB, með upptöku Evrunnar í 11 löndum. Það sýnir þrautsegju sem einkennir alvöru stjórnmálamenn, en því miður hefur verið skortur á þeim hér á landi.

Finnar tóku upp Evruna árið 1999 og í yfirliti seðlabankastjóra Finnlands um reynsluna af Evrunni kemur fram að upptaka hennar hafi haft jákvæð áhrif á efnahagslífið, en fátt hafi komið fram af því sem andstæðingar Evrunnar héldu fram. Verðbólga í Finnlandi hafi verið með því lægsta í Evrópu, en hagvöxtur hafi verið meiri en meðaltalið innan ESB.

Meginhlutverk stjórnvalda er að stuðla opinberri umræðu og taka þátt í henni af skynsemi og raunsæi. Ummæli forsætisráðherra á Alþingi um að hann hafi fulla samúð með Evrópusambandinu og því öllu eru langt fyrir neðan þá kröfu sem við gerum til hans um innlegg í umræðu um hryggbein íslensks efnahagslífs. Þessi ummæli lýsa dugleysi hans til að horfast í augu við þann vanda sem hluti Sjálfstæðisflokksins ýtir á undan sér.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann var að reyna svona Davíðssvar. Svaraði með aulafyndni þegar í rökþrot var komið... Það er alvega hárrétt að svona taktar eru ekki fólki bjóðandi. Vanþekkingin og fordómarnir gagnvart Evrópu verður það sem fellir Sjálfstæðismenn fyrr en seinna...