föstudagur, 1. febrúar 2008

Heimildamaður samgönguráðherra

Ein af þekktum leiðum valdamanna til þess að koma vilja sínum fram er að nýta stöðu sína til þess að strá efasemdum um fyrirætlanir sem eru þeim ekki þóknanlegar. Í fréttum útvarpsins í gærkvöldi var ein aðalfréttin um að það nú væri komið í ljós að ekki væri þörf fyrir Sundabraut.

Þetta er haft eftir heimildarmanni fréttastofu Útvarps. Hann var látinn segja okkur að leysa mætti umferðarvanda höfuðborgarinnar á mun einfaldari máta sem kosti einungis brotabrot af þeirri miklu framkvæmd. Þetta eru stórtíðindi, hvers vegna var heimildarmaður nafnlaus.

Þessi heimildarmaður segir að Sundabraut hafi lengi verið á áætlunum í því skyni að bæta umferðarflæði fyrir minnihluta íbúa í Grafarvogshverfinu og nokkra úr Mosfellsveit, aðrir muni nota gömlu leiðina. Þetta sé gríðarlega dýr framkvæmd, kosti 30 til 40 miljarða króna, en stytti leiðina út á land frá Reykjavík um aðeins 7 kílómetra. Og svo bætir heimildarmaðurinn nafnlausi við að Norðlendingar bíði eftir að göng verði gerð undir Vaðlaheiði.

Undanfarin ár hefur verið vaxandi umferðarhnútur á hverjum einasta morgni og hverjum einasta eftirmiðdegi inn og út úr borginni. Á hverjum föstudagseftirmiðdegi er algjört öngþveiti og á hverjum sunnudagseftirmiðdegi er um 70 km. löng röð og það tekur fólk allt að 3 klst. að komast ofan úr Hvalfirði niður í Árstúnsbrekkuna. Þetta hefur valdið umtalsverðum vandræðum við sjúkraflutninga og eins vel þekkt vandamál í fjölskyldubifreiðum.

Eru þetta einungis minnihluti Grafarvogsbúa og nokkrir einstaklingar úr Mosfellssveit? Heimildarmanni til upplýsingar, en hann þekkir greinilega mjög lítið til á höfuðborgarsvæðinu, þá er þetta fólk úr öllum hverfum Reykjavíkur og nágrannabyggðum. Fólk af Suðurnesjum og svo fólk sem býr utan suðvesturhornsins en á leið þangað.

Það blasir við öllum sem til þekkja, að það munu það verða nánast allir aðrir en Grafarvogsbúar, bæði meiri og minnihluti og eins íbúar Mosfellsveitar sem komi til með að nota Sundabrautina.

Því má svo bæta við heimildarmanninum nafnlausa til upplýsingar, að það er búið að flytja töluvert af hafnarumferð upp á Grundartanga og í fréttum nýverið kom fram að mörg af fyrirferðarmiklum fyrirtækjum í Sundahöfn eru þegar byrjuð að undirbúa frekari flutninga þangað og muni það verða á þessu ári og því næsta.

Hvers vegna lét fréttamaður RÚV heimildarmanninn nafnlausa komast upp með það athugasemdalaust að halda fram jafn augljósum fáránleika, að það verði einungis minnihluti Grafarvogsbúa og nokkrir úr Mosfellssveit sem komi til með að nota Sundabraut.

Hvers vegna spurði fréttamaður heimildarmanninn nafnlausa ekki út í að ef þetta væri svona einfalt og ódýrt, af hverju er þá ekki búið að leysa þennan vanda fyrir löngu. Höfum við þá eftir allt verið með algjörlega ónýtt lið í samgönguráðuneytinu og erum enn.

Einnig má benda á að í næstu frétt fyrir framan lýsti Gísli Marteinn því prýðilega hvernig byggð muni þróast í Reykjavík næstu 3 áratugina eða svo. Það muni bætast við 30 – 50 þús. íbúar og sú fjölgun muni að mestu verða í mið- og vesturbænum. Hvaða leið mun það fólk velja út úr bænum fari það vestur eða norður og hvaða leið mun það velja inn í bæinn. Fólk sem kemur að norðan og er á leið vestur í bæ eða til nágrannabyggðarlaga leitar á Sæbrautina eða Reykjanesbrautina. Beinasta leiðin þangað verður um Sundabraut.

Það blasir við að heimildarmaður er á vegum núverandi samgönguráðherra, sem ætlar sér að halda áfram á sömu braut og forveri hans að sniðganga höfuðborgarsvæðið og halda áfram framkvæmdum í sínu kjördæmi. Sé litið til þekkingar heimildarmanns á staðháttum og framsetningu hans þá verður ekki hjá því komist að ætla að heimildarmaður komi úr sama kjördæmi og samgönguráðherra með þeim skilning að góð nýtingu fjármuna til vegaframkvæmda séu t.d. Héðinsfjarðargöng.

Svo maður noti nú fáránleika röksemda heimildarmanns þá búa um 40 þús. manns í Grafarvogi og í Mosfellssveit. Hvað búa margir á svæðinu við Héðinsfjarðargöng?

Talandi um Vaðlaheiðina, ég hefði nú haldið að göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar hlytu að vera töluvert ofar á blaði.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið rétt hjá þér!
Þessi meinloka Vegagerðarinnar - er gengin of langt. Þeir treysta sér ekki í málefnalega umræðu - enda verið teknir á beinið fyrir vitleysuna í sér aftur og aftur.
Nú skal skjóta úr launsátri.

Nafnlaus sagði...

Það er lífsnauðsynlegt að bæta samgöngur til og frá höfuðborginni - við notum þessa vegi öll, meira að segja við í NA-kjördæmi, og á þeim verða flest banaslysin.

Göng undir Vaðlaheiði eru ekki sérlega aðkallandi í samanburðinum.

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála þér um að þessi fréttaflutningur orkar mjög tvímælis. Ég vil þó benda þér á að það myndu eflaust fleiri taka undir með þér ef þú forðaðist eins grófar ýkjur og er að finna í þessum pistli þínum. Tökum dæmi:
"Undanfarin ár hefur verið vaxandi umferðarhnútur á hverjum einasta morgni og hverjum einasta eftirmiðdegi inn og út úr borginni. Á hverjum föstudagseftirmiðdegi er algjört öngþveiti og á hverjum sunnudagseftirmiðdegi er um 70 km. löng röð og það tekur fólk allt að 3 klst. að komast ofan úr Hvalfirði niður í Árstúnsbrekkuna."
Ég bý í Mosfellsbæ og fer til vinnu í miðbæ Reykjavíkur alla daga, svo ég er gjarnan á ferð inn og út úr borginni á aðalumferðartíma. Alla jafna gengur umferðin greiðlega, nema þegar árekstrar verða í Ártúnsbrekkunni, eins og í morgun. Vissulega er umferðin þung, en ekkert í líkingu við það sem þú lýsir og ég get ekki tekið undir það að daglega skapist umferðarhnútar, hvað þá að algjört umferðaröngþveiti sé reglan á föstudögum. Slíkt er í mesta lagi tilfellið mestu umferðarhelgar sumarsins. 70 km röð kemst nú varla fyrir á höfuðborgarsvæðinu, þó í mörgum hlutum sé, það er álíka vegalengd og í Borgarnes og lengra en til hvaða þéttbýlisstaðar sem er á Suðurnesjum, eða Selfoss. Ég veit svo ekki hvenær það tók síðast nálægt 3 klst að komast úr Hvalfirði í Ártúnsbrekku (mig grunar að það hafi ekki einu sinni tekið svo langan tíma daginn sem Hvalfjarðargöngin opnuðu 1998), en ef slíkt gerist er það við einhverjar alveg sérstakar aðstæður, sem ekki er hægt að leggja til grundvallar við hönnun vegakerfisins.
Misskildu mig ekki, ég er sammála þér um fréttaflutninginn og að þörf sé á að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, en myndin sem þú dregur upp á bara ekkert skylt við raunveruleikann.

Guðmundur sagði...

Sæll Gollum
Ég fer mikið úr bænum bæði vegna starfs míns og ekki síður vegna mikillar útvistaráráttu.

Þegar ég er að tala um 70 km. langa röð þá er ég að tala um röðina sem nær frá Ártúnsbrekku og upp fyrir Leirvogsá undir Hafnarfjalli og hleypt er í gegnum göngin í hollum. Þannig er það á hverjum sunnudagseftirmiðdegi allt sumarið.

Það hefur reyndar verið tilefni til allmargra fréttaþátta og ætti því að vera vel kunnugt um hvað ég tala um. Minni á allmörg viðtöl við fjölskyldufólk í fréttum síðasta sumar sem sat í bílum sínum á fjórða tíma. Hef sjálfur lent í þessu.

Greinilegt er að þú ert ekki þarna á ferð og fylgist kannski heldur ekki með fréttum.

Á vinnustað mínum er góð útsjón yfir Vesturlandsveg frá Höfðabakkabrú upp að Húsasmiðju í Grafarholti og sé umferðarröðina sem vart mjakast, reyndar allmargir farnir að þræða hliðargöturnar hér í kring.

Ég þarf reyndar alloft að fara héðan niður í bæ á morgnanna og veit vel hversu lengi það tekur mig að komast þangað á bilinu frá 8.oo til rúmlega 9.00 og svo ef ég er á leið tilbaka á tímanum 16.00 - 18.00
takk fyrir innlitið

Nafnlaus sagði...

ÞAð er algerlega óhæft, að fara í fleirri jarðgöng í Eyjafirðinum og ætti að kalla til ábyrgaðar þá hina sömu og sólunda fé landsmanna í göng á við Héðinsfjarðargöngin.

Göng milli noðruð og suðursvæðis Vestfjarða er miklu miklu brýnni framkvæmd.

Ef menn vilji endilega fara að rafa göng undir hálsinn, sem nú er nefndur ,,heiði" það er Vaðlaheiði, er grunnskilyrðið, að látið verði af lengingu og uppgræjun Akureyrarflugvöll og millilandaflug færi um Aðaldalsflugvöll, sem er miklu lengri og stenst allar kröfur um varaflugvöll NEMA að þar er ekki næg umferð til að eldsneyti, sem þarf að vera til staðar, verður of gamalt, þar sem notkunin nægir hvergi til að viðhalda spekkum um gæði.

Ef vöruflutningar og annað millilandaflug færi um þennann völl, sem er kippkorn frá Akureyri, væri yfrin not á JetA1 fuel og því ekkert iþví til fyrirstöðu, að smella stimpli á þann völl.

Hé+r er ekkert annað á ferðinni en innansveitarkronikka, sem er viðloðandi fyrir norðan og belgingurinn í Akureyringum um, að á Akureyri SKULI allt vera sem er í Rvík og helst meira.

Miðbæjaríhaldið

Nafnlaus sagði...

Guðmundur og miðbæjaríhaldið, mikið er gott að finna hug ykkar til landsbyggðarinnar. Þið eruð auðvitað alltaf að hendast norður í land allan ársins hring í öllum veðrum og sjáið hverslags rugl það er að vera að lappa eitthvað upp á þennan stórhættulega hringveg okkar, fólk ætti bara ekkert að vera að þvælast þetta. Við hinir Íslendingarnir þurfum reyndar oft að sækja ýmsa þjónustu suður, því þar eru flest opinberu störfin og sérfræðiþjónustan sem er ætluð öllum landsmönnum. Ég vil benda ykkur á að stór hluti þeirra sem eru að pirra sig á umferðarteppunni eru fólk af landsbyggðinni, og við erum að vona að það finnist góð og skynsamleg lausn á vandanum, hvort sem það eru göng eða brú.

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir þetta. Mér finnst annars með ólíkindum hvað svona "lið", eins og Guðmundur og miðbæjaríhaldið, nennir að velta sér upp úr því, hvað sé verið að gera í vegamálum úti á landi og hvað það kosti, nær sé að eyða peningunum í vegina á höfuðborgarsvæðinu því þar býr fjöldinn. Varðandi það sem miðbæjaríhaldið segir um veginn um "heiðina", get ég upplýst hann um að vegurinn liggur um Víkurskarð, eitt mesta veðravíti á landinu. Hann hefur greinilega aldrei komið þarna að vetri til og veit því ekkert hvað hann er að tala um. Og þetta bull um flugið og flugvellina, er ekki svaravert.
Ég tel að meirihluti landsbyggðarfólks fagni ÖLLUM vegabótum, HVAR sem þær eru á landinu, höfuðborgasvæðinu eða annarstaðar. Við megum ekki gleyma því að Reykjavík er einmitt höfuðborg ALLRA landsmanna.
Svo má minna á að vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu er líklega tæplega 2% af vegakerfi landsins.

Nafnlaus sagði...

Jú jú ég hef oft ekið Víkurskarð og í flestum verðum. Bjó raunar fyrir vestan afar lengi og ók þar um alvöru fjallvegi.

Víkurskarð er nú ekki lokað dagana út vegna ófærðar. Iss þetta er bara svona meðal fjúk.

Nei mínir kæru, ég ber hag landsbyggðar mjög fyrir brjósti. ÞESSVEGNA rennur mér til rifja, hvernig einmitt frekjuhundar á borð við liðið sem ætlaði að segja sig úr Framsóknarfélagi Siglufjarðar (allir 22) gátu stillt ráðamönnum upp við vegg, rétt fyrir kosningar og létu þa´lofa og sverja um Héðinfjaðrargöng.

Svoleiðis framkvæmdir gera það að verkum, að við sem hingaðtil höfum talað fyrir framförum í vegamálum, fáum á okkur óorð hérna á mölinni vegna þess, að venjulegu fólki ofbýður með öllu frekjan. Nú síðast lenging flugbrautarinnar í yfirlýstu markmiði um, að gera Akureyrarvöll að varaflugvelli, hlutur sem allir sem eitthvað þekkja til flugs vita, að er nánast ógerlegt, sakir landfræðilegra aðstæðna.

Til að menn vilji setja fé í eðlilegar framkvæmdir, verður að gæta þess, að fara ekki offari í tilætlunarseminni.

Ef of aðeins ef, að Aðaldalsvöllur verður nýttur sem megin millilandavöllur fyrir NA hornið, eru menn tilbúnir til, að setja fé í Vaðla,,heiðar" göng

með dreyfbýliskveðju
Miðbæjaríhaldið