fimmtudagur, 20. mars 2008

Erum við fullvalda?

Nú les maður hvern pistilinn af öðrum þar sem fram kemur að við höfum látið guttana í fjármálafyrirtækjunum blekkja okkur. Þeir séu líklega ekki með einhverja sérgáfu umfram útlenska fjármálamenn. Það sé líklega rétt að hinir útlensku séu búnir að búa við alvöru efnahagstjórn í marga áratugi. En okkar bara í 10 ár og reyndar er það kannski ekki alvöru efnahagsstjórn.

Það sé líklega rétt að þeir séu bara eins við hin, hika ekki við að taka lán og kaupa. Og taka svo annað lán til þess að borga hitt lánið og kaupa aðeins meira. Meir að segja forsætisráðherra viðurkennir að þetta hafi ekki verið nægilega gott og ekkert heyrist Hólmsteinunum. Enda komið í ljós að þeir geta ekki hagað sér eins og þeim sýnist og sent frá bækur samdar með ljósritunarvélum.

Ef við lítum tilbaka þá blasir það við að aðilar atvinnulífsins hafa allt frá árinu 1990 sent frá sér aðvaranir um að alltof geyst hafi verið farið og hin íslenska peningastefna gangi ekki upp. Hún gæti ekki leitt annars en ýktra sveiflna. Ekkert atvinnulíf gæti lifað við þessar aðstæður til langframa. Danskurinn gerði grín af okkur og sagði að fjármálajöfrarnir okkar væru glannar og notuðu viðskiptaðaferðir sem þeir vildu ekki. Íslenskt efnahagslíf væri spilaborg byggð á lánum.

En þeir stjórnmálamenn sem hafa verið við völd frá 1991 og stjórnað efnahagsmálunum neituðu sífellt að þetta væri rétt og dásömuðu stöðu okkar utan ESB og fóru með forsetanum til Kína og gerðu þar fríverzlunarsamning og neituðu að gagnrýna viðhorf þarlendra stjórnvalda til launamanna. Einkennileg afstaða forsetans.

Það hefur verið mér umhugsunarefni hversu mótsagnarkenndir við íslendingar erum. Hef verið mikið á norðurlöndum sérstaklega í Danmörku. Hitt þar marga íslendinga sem dásama það hversu mikið betra sé að búa þar. Bara vinna dagvinnu og vera kominn heim til fjölskyldunnar klukkan fjögur. Hafi það fínt, það sé nú annað en heima. Þar hafi þeir alltaf verið blankir og orðið að vinna amk 50 stunda vinnuviku til að endar nái saman. Matvælaverð sé 30 -50% hærra og allt svo dýrt.

En það er svo mikil mótsögn í samanburðinum. Í Danmörku sættir okkar fólk menn sig við að búa í 90 ferm íburðarlítilli blokkaríbúð. Enginn bíl eða í mesta lagi einn lítill bíl 10 ára gamall.

Engum dettur í hug að skuldsetja sig umfram greiðslugetu, enda passa dönsku bankarnir vel upp á það. Það er ekkert vandamál að fá lán fyrir íbúð eða öðru, en áður en þú færð afgreiðslu bankans fer hann vandlega yfir laun og greiðslugetu og segir einfaldlega; „Slepptu þessu vinur minn og fáðu þér íbúð sem hentar buddunni þinni.“ Þar eru vextir stöðugir og á bilinu 2.7 – 3.5% á langtímalánum. Gengið sveiflast lítið. Fullvalda þjóð í ESB og unir sér það vel eins og aðrar þjóðir sem þar eru.

Allt er þetta öðru vísi heima. Stórar íburðarmiklar íbúðir, amk 2 nýlegir bílar. Reglulegar innkaupaferðir í Kringlurnar og Smáralindirnar, ekkert vandamál að fá lán og svo raðgreiðslur og þar á ofan yfirdráttarlán á 24% vöxtum til þess að skreppa til Spánar, á einn eða tvo fótbolaleiki í London og skíðaferð til Ítalíu.

Allt leikur á súðum og óstöðvandi firring. Við verðum brjáluð ef við getum ekki mætt á fótboltaleik 3 mín. áður en hann byrjar og parkerað fyrir aftan markið. Stjórnmálamenn neita að ræða aðild að stöðugleikanum og halda því að okkur að þá fari allt til fjandans og þeir missi völdin og geti ekki stjórnað efnahagslífinu.

Hvaða völd? Völd til þess að fella gengið að loknum kjarasamningum? Erum við fullvalda þjóð? Eru stjórnmálamenn í afskiptaleysi og fávisku sinni búnir að afsala fullveldinu til fjármálaglannanna?

3 ummæli:

Magnús Þór sagði...

Síðasta spurningin hittir beint í mark...

Nafnlaus sagði...

"Declare Independence"

HS

Nafnlaus sagði...

“Stjórnmálamenn neita að ræða aðild að stöðugleikanum. . . “

“Eru stjórnmálamenn í afskiptaleysi og fávisku sinni búnir að afsala fullveldinu til fjármálaglannanna”

Þetta er náttúrulega bara Populismi.

Ekki minnist ég að verkalýðsfélögin hafi krafist þess að horfið væri frá verðbólgumarkmiðinu og að krónan yrði tengd við evru (og vaxtamuninum haldið í kringum 0,5 - 1%, eins og í Danmörku). Það þarf ekki að ganga í evrópusambandið til þess. Þingmaður sjálfstæðisflokksins sem féll frá siðasta sumar vildi taka upp fastgengisstefnu við evru og hafði tala fyrir því í mörg ár. Ekki minnist ég þess að verkalýðsfélögin hafi flykt sér á bakvið hann í þeim efnum.

Menn eru farnir að seilast langt og tína til vitleysur til að réttlæta inngöngu í evrópusambandið