fimmtudagur, 6. mars 2008

Hættið þessu horngrítis kjaftæði


Ríkisstjórnin og þingmenn hennar vilja fá að vera í friði. Við nennum ekki að hlusta lengur á kjaftæði um að hér sé ekki allt í lagi, segir stjórnarþingmaður. Hvað er almenningur að skipta sér af okkur. Almenningur á að skilja að hann á að þegja.

Almenningur á að vita að stjórnarþingmenn eru einungis til tals á kjördag. Reyndar kvartar einn stjórnarþingmaður undan því að það sé yfirleitt ekki hlustað á neinn, ekki bara almenning heldur einnig almenna þingmenn.

Aðalkerfiskall landsins neitaði að leggjast svo lágt að koma í fréttaþátt og svara spurningum almennings og almenns þingmanns um hvers vegna hann hefði nýtt sér stöðu sína sem formaður þingnefndar og stungið frumvarpi þingmanns um afnám sjálftöku ráðherra úr ríkissjóð undir stól. Þau boð voru látin berast til fréttamanna að ríkisstjórnin væri sjálf með í undirbúningi frumvarp vegna ofureftirlaunanna, þingmannafrumvörp væru ekki tekinn til umræðu.

Til hvers erum við með 63 þingmenn? Af hverju þurfa þeir aðstoðarmenn? Af hverju erum við ekki bara með ráðherra og nokkra kerfiskalla, sem hlýða möglunarlaust og hafa engar skoðanir á neinu. Þeir eru forritaðir að morgni dags um hvað þeir eigi að segja. Almenningur er til þess eins að borga skattana, svo kerfiskallarnir geti haldið áfram sjálftöku sinni.

Haldið þið kjafti við ætlum að taka verðbólgumarkmiðin úr sambandi og hleypa verðbólgunni á skrið með vaxtalækkun til þess að bjarga okkur út úr þeim efnahagsvanda sem við höfum skapað með afskiptaleysi okkar á bönkunum, svo gæjarnir geti haldið áfram í stórkallaleik á kostnað sparifjár almennings í lífeyrissjóðunum.

Með því leysum við vandann fram að næstu kosningum og skítt með það þó vandanum sé velt yfir á almenning og heimilin. Hann skiptir hvort eð er engu máli, hann á að vita það að það er hann sem ber ábyrgð á stöðugleikanum og á ekki að vera ekki með óraunsæjar kröfur.

Ein af dætrum mínum hafði samband í gær og sagði, „Heyrðu pabbi, ég held að ég sé að verða tilbúin í smá byltingu.“

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hverjum degi er viðtal við stjórnmálamenn varðandi efnhagslífið. Ekki er tímabært að skoða inngöngu í ESB því það þarf að skoða það betur, kanna það nánar. Hvers vegna er það ekki gert? Ef einhvern tímann er "tímabært" að gera það er það þessa daganna. Seðlabankinn og alþingismenn eru gjaldþrota í sínum rökum. Eitt er ljóst að almenningur hefur ekki efni á að borga 12-13% (6% vextir + a.m.k. 6% verðbólga) af sínum húsnæðislánum ár eftir ár. Nágrannalöndin okkar greiða 1/3 í vexti hjá sér. HVernig er hægt að sætta sig við þetta.

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr

Nafnlaus sagði...

Það er skrýtið að sjá verkalýðsforkólfa landsins nota efnahagsváina sem pólitískt tromp í baráttunni fyrir ESB (og Samfylkinguna). Sérstaklega í ljósi þess að þeir þögðu á meðan óveðurskýin voru að hrannast upp. Ekki sáu þeir ástæðu til þess að vara verkafólk við verðtryggðu húsnæðislánum. Og í stað þess að berjast fyrir því að verkafólk geti fengið laun sín greidd í evrum (eða svissneskum frönkum, norskum krónum eða hvaða gjaldmiðli sem menn hafa mesta trú á) bíða þeir eftir fjöldagjaldþrotum félagsmanna sinna til þess að koma þeim í ESB, þar sem atvinnuleysið er um 10% nota bene.

Þá var það stjórnarandstaðan með samfylkingunni í fararbroddi sem slóu skjaldborg um fjármagnið til þess eins að koma ódýru pólitísku höggi á Davíð Oddson. Í skjóli þagnarinnar hefur svo fjármagið geyst áfram gagnrýnislaust með fyrirsjánlegum afleiðingum sem enn eiga eftir að koma í ljós.

Það er til marks um sögulausa og hugsjónalausa verkalýðsforystu og vinstri hreyfingu að gagnrýni á Seðlabankann, hagstjórnina og fjármagnið hefur einna helst komið úr röðum Sjálfstæðismanna.

Í stað þess að evruvæða félagsmenn sína þeim til hagsbóta kýs verkalýðsforustan að berjast fyrir ESB menntastéttinni til hagsbóta.

Verkalýðs